Home / Fréttir / Vegið að sjálfstæði Litháens í rússneska þinginu

Vegið að sjálfstæði Litháens í rússneska þinginu

Fáni Litháens.

Jevgeníj Fjodorov, þingmaður úr flokki Pútins, hefur kynnt tillögu um að Rússar afturkalli samþykki sitt við sjálfstæði Litháens í mars 1991. Hann telur að afturköllunin hafi áhrif á NATO-aðild Litháens.

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, segir að þetta sýni að það sitji „skepnur“ í rússnesku ríkisstjórninni.

Flutningsmaður tillögunnar segir við rússnesku TASS-fréttastofuna að samkvæmt stjórnarskránni sé Rússland nú löglegur arftaki Sovétríkjanna. Nú sé því tímabært að skoða lögfræðileg málefni frá tíma Sovétríkjanna sem snerti það sem gerist á líðandi stund. Vill hann túlka 6. gr. Atlantshafssáttmálans, stofnskrár NATO, á þann veg að ágreiningur um lögmæta tilvist Litháens svipti landið aðild að NATO.

Í tillögunni sem Fjodorov sendi utanríkismálanefnd Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, fimmtudaginn 9. júní segir að ekki hafi verið staðið að sjálfstæði Litháens „eftir lögbókinni“. Þingmaðurinn segir við Gazeta.ru.að sovéska ríksrsáðið hafi árið 1991 ekki haft heimild til að raska landsyfirráðum Sovétríkjanna og afsala sér landi þeirra. Nú sé það hlutverk rússneskra þingmanna að sjá til þess að afturkalla glæpaverk Gorbatsjovs, sovéska leiðtogans við fall Sovétríkjanna.

Mikhaíl Gorbatsjov stjórnaði fundi sovéska ríkisráðsins í mars 1991 þegar það viðurkenndi formlega Litháen sem sjálfstætt ríki. Litháar lýstu hins vegar yfir sjálfstæði í mars 1990. Þegar sovéska ríkisráðið tók ákvörðun sína höfðu meira en 50 ríki þegar viðurkennt Litháen.

Í Prövdu er rætt við Alexander Nosovitjs stjórnmálafræðing sem segir:

„Viðurkenni Rússar ekki sjálfstæði Litháens er það alvarlegt svar við óvináttunni sem núverandi ráðamenn Litháens leyfa sér að sýna stjórnvöldum í Moskvu. Rússar hafa viðurkennt Alþýðulýðveldin Donetsk og Luhansk. Hvers vegna ekki að fara í andstæða átt og neita að viðurkenna Litháen og Lettland sem sjálfstæð ríki?“

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, liggur ekki á skoðun sinni:

„Aðeins í ríki sem stjórnað er af skepnum getur stofnað til stríðs á þann veg sem Rússar hafa gert,“ sagði utanríkisráðherrann.

„Ég undrast ekki að í stjórnmálum hagi þeir sér ekki að hætti manna. Við verðum að svara í samræmi við það – búa okkur undir að verjast sjálfir og í samvinnu við samstarfsaðila okkar á stjórnmálasviðinu, diplómatískt eða á annan hátt.“

Utanríkisráðherrann er barnabarn Vyrautas Landsbergis sem gegndi lykilhlutverki þegar Litháen hlaut sjálfstæði fyrir rúmum 30 árum.

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …