Norska öryggislögreglan, PST, hækkaði vástig í Noregi sunnudaginn 9. apríl, næstu tvo mánuði verður það miðað við að líkur séu á hryðjuverki, terror sannsynlig. Var vástigið hækkað frá því að hryðjuverk var talið hugsanlegt, mulig.
Þrjár meginástæður eru fyrir þessari ákvörðun: (1) Óljós tengsl 17 ára rússnesks hælisleitanda sem grunaður er um að hafa undirbúið hryðjuverk við hættuleg samtök. (2) Páskar – kristnir hátíðisdagar. (3) Hætta á að hryðjuverkið í Stokkhólmi hvetji aðra til svipaðra verka.
Eftir að hryðjuverkið var unnið í Stokkhólmi í síðustu viku fékk norska lögreglan fyrirmæli um að vopnast án tafar og auka gæslu á Gardemoen-flugvelli við Osló.
Að morgni mánudags 10. apríl tók yfirstjórn norsku lögreglunnar ákvörðun um að almennir norskir lögreglumenn verði vopnaðir við störf sín í stærstu borgum og bæjum Noregs og á Gardemoen þar til annað verði ákveðið.
Í fréttatilkynningu yfirstjórnar norsku lögreglunnar 10. apríl segir að lögreglan vilji árétta að hún geri allt í hennar valdi til að vernda almenning og koma í veg fyrir að eitthvað hættulegt gerist í Noregi. Almenningur er hvattur til að sýna árvekni, fylgjast með því sem gerist og láta lögreglu vita ef grunsemdir um eitthvað óvenjulegt vakna.
Að kvöldi laugardags 8. apríl handtók norska lögreglan 17 ára hælisleitanda með rússneskan ríkisborgararétt vegna gruns um að hann hefði ætlað að vinna hryðjuverk með sprengju. Hann var staðinn að verki með litla sprengju á Grønland í Osló.
Pilturinn neitar að hann sé öfgafullur íslamisti og hann hafi ætlað að valda nokkrum tjóni. Verjandi hans segir að hann hafi gerst sekur um „strákapör“ með því að búa sjálfur til sprengju að fyrirmynd frá YouTube.
Fulltrúi PST ræddi við piltinn fyrir um ári vegna þess að hann hafði í margmenni lýst stuðningi við íslamska öfgahyggju. Öryggislögreglan óttaðist að hann væri félagi í hópi manna sem aðhylltist slíkar skoðanir. Eftir samtalið aðhafðist öryggislögreglan ekki frekar í máli piltsins.
Hann fluttist til Osló til að leita sér menntunar. Áður bjó hann með fjölskyldu sinni í smábæ í Norður-Noregi. Þar gekk hann í skóla og hlaut verðlaun fyrir framgöngu sína í íþróttum.
Sjö árum eldri maður frá rússnesku Ingusjetiu var í sama íþróttafélagi og pilturinn. Maðurinn hélt hins vegar til Sýrlands árið 2014 til að styðja Daesh (Ríki íslams) að því er segir í bókinni Fremmedkrigerne eftir Erlend Ofte Arntsen. Annar erlendur vígamaður frá Tsjetsjeniu bjó í sama norska smábænum á sama tíma.