Home / Fréttir / Varnarmálaráðherrar Þýskalands og Bandaríkjanna staðfesta náið samstarf innan NATO

Varnarmálaráðherrar Þýskalands og Bandaríkjanna staðfesta náið samstarf innan NATO

Ursula von der Leyen og Jim Mattis.
Ursula von der Leyen og Jim Mattis.

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, hitti Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í Washington föstudaginn 10. febrúar. Á fundi sínum staðfestu ráðherrarnir nána samvinnu ríkjanna á sviði hermála og innan NATO.

Þýski varnarmálaráðherrann sagði að fundinum loknum að Mattis hefði lýst afdráttarlausum stuðningi við NATO og hún sagði að það væri „sanngjörn krafa“ af hálfu Bandaríkjamanna að bandamenn þeirra innan NATO ykju hlut sinn við að greiðslu kostnaðar af starfsemi NATO.

Ursula von der Leyen sagðist fagna tilboði Mattis um að dýpka strategískar viðræður milli ráðamanna í Berlín og Washington. Hún sagði þau sammála um að mörg hnattræn viðfangsefni væri ekki unnt að leysa án þátttöku Rússa en þeir yrðu að virða alþjóðalög og landamæri annarra fullvaldra þjóða.

Á fundinum bar Mattis barmmerki með þýska og bandaríska fánanum. Hann sagðist bera mikla virðingu fyrir Þjóðverjum sem bandamönnum. Hann hefði oft starfað með þýska hernum í fyrri störfum sínum og mæti hann mikils.

Mattis er fyrrverandi hershöfðingi og hafði forystu fyrir sveitum landgönguliða í Afganistan og Írak auk þess að fara með yfirstjórn hernaðarins í Afganistan frá 2010-13 sem yfirmaður herstjórnar Bandaríkjanna. Þjóðverjar halda nú úti 950 hermönnum í Afganistan.

Ursula von der Leyen var annar ráðherra úr þýsku ríkisstjórninni sem heimsækir Bandaríkjastjórn eftir valdatöku Donalds Trumps. Sigmar Gabriel utanríkisráðherra var í Washington fyrir nokkrum dögum.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …