
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna hafa samþykkt að komið verði á fót tveimur nýjum herstjórnum annars vegar til að gæta samgönguleiða yfir Atlantshaf, frá Norður-Ameríku til Evrópu, og hins vegar til að skipuleggja flutning hermanna og hergagna innan Evrópu.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, skýrði frá ákvörðun ráðherranna miðvikudaginn 8. nóvember eftir fyrri fundardag þeirra í Brussel.
Á fundi með blaðamönnum lýsti Stoltenberg útlínum nýju herstjórnanna en sagði að það kæmi í hlut hermálanefndar NATO að útfæra skipulagið nánar og yrðu tillögur um það lagðar fyrir fund ráðherranna í febrúar 2018.
Þetta er í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins sem 29 aðildarríki NATO ákveða að setja upp nýjar herstjórnir. Á tíma spennunnar milli austurs og vesturs í kalda stríðinu hélt NATO úti 33 herstjórnum með 22.000 starfsmönnum. Nú eru starfsmennirnir 7.000 og herstjórnirnar sjö.
Frá fyrri hluta árs 2014 þegar Rússar innlimuðu Krím og hófu hernaðarlegt áreiti í garð Úkraínumanna hefur áhersla NATO á sameiginlegar varnir, einkum í austur og suður hluta Evrópu, aukist. Nú er athyglinni beint að nauðsyn þess að unnt sé að flytja liðsauka til þessara svæða meðal annars sjóleiðis yfir Norður-Atlantshaf.
Stoltenberg sagði að hlutverk annarrar herstjórnarinnar yrði að tryggja að „siglingaleiðirnar“ milli Norður-Ameríku og Evrópu væru „opnar og öruggar“. Hin ætti að „bæta hreyfanleika herafla um alla Evrópu“ og styrkja flutningakerfi innan NATO. „Lífsnauðsynlegt“ væri fyrir bandalagið að þessir grunnþættir þess stæðust hvers kyns álag.
Stoltenberg sagði að sjá yrði til þess að ekki stæðu neinar opinberar reglur eða lög í vegi fyrir að flytja mætti með skömmum fyrirvara hermenn og hergögn úr einu landi í annað. Þá yrði einnig að samhæfa kröfur NATO og krafta einkaaðila til að verða við þeim, til dæmis með nægum fjölda flutningabíla og tækja.
„Og við verðum að styrkja innviði eins og vegi, brýr, járnbrautir, flugbrautir og hafnir. NATO vinnur nú að því að laga borgaraleg mannvirki að hernaðarlegum kröfum,“ sagði framkvæmdastjórinn.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvar nýju herstjórnirnar tvær verða. Þjóðverjar hafa lýst áhuga á að flutninga-herstjórnin verði í landi þeirra. Þá hafa Portúgal, Spánn, Frakkland og Bandaríkin komið til álita fyrir Atlantshafsherstjórnina.
Stoltenberg sagði að varnarmálaráðherrarnir hefðu einnig samþykkt að koma á fót nýrri Netvarnamiðstöð (Cyberoperations Center) til að efla sameiginlegar varnir í netheimum og laga netaðgerðir að öllum þáttum varnarkerfis NATO.