Home / Fréttir / Varnarmálaráðherra Úkraínu: Við erum de facto í NATO

Varnarmálaráðherra Úkraínu: Við erum de facto í NATO

Oleksii Reznikov, varnarmálráðerra Úkraínu.

Úkraína er í raun (de facto) orðin aðili að NATO segir varnarmálaráðherra landsins við breska ríkisútvarpið BBC í viðtali sem birtist föstudaginn 13. janúar. Ráðherrann segir að vestræn ríki sem áður hafi óttast að Rússar kynnu að líta á hernaðaraðstoð þeirra sem stigmögnun nálgist nú málið „með öðru hugarfari“.

Varnarmálaráðherrann Oleksii Reznikov segist viss um að Úkraínumenn fái nú þau vopn sem þeir hafi lengi beðið, þar á meðal skriðdreka og orrustuþotur. Ráðherrann lýsir þessari skoðun þegar bæði Úkraínumenn og Rússar virðast búa sig undir nýja sókn með vorinu.

„Í mínum huga eru þessar áhyggjur af næsta þrepi stigmögnunarinnar hluti af einhvers konar prótókolli,“ segir Reznikov.

„Úkraína sem land og herafli Úkraínu varð aðili að NATO. De facto en ekki de jure (að lögum). Vegna þess að við höfum vopnabúnað og skiljum hvernig á að beita honum.“

BBC fréttamaðurinn Hugo Bachega í Kyív minnir á að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hafi sett innrás sína í Úkraínu í þann búning að um væri að ræða tilvistar orrustu við vestræn ríki sem vildu veikja Rússland. Þá hafi því verið haldið fram af talsmönnum Rússa að þeir berjist við NATO í Úkraínu þar sem Vestrið hafi lagt stjórn landsins til vopn í því sem þeir kalla árásarstríð.

Reznilkov segir að ekki sé unnt að líta á ummæli sín til þess fallin að vekja ágreining hvorki af hálfu Rússa né jafnvel af hálfu NATO sjálfu, þar sem af hálfu bandalagsins hafi verið tekin skref til að halda sér utan aðildar að átökunum.

„Hvers vegna [ættu þau að vekja] ágreining? Þetta er satt. Þetta er staðreynd,“ segir Reznikov. „Ég er viss um að innan skamms tíma verðum við aðilar að NATO, de jure.“

Rætt var við varnarmálaráðherrann í Kyív á sama tíma og herir Úkraínu og Rússlands berjast áfram um litla bæjinn Soledar í austurhluta Úkraínu, í Donetsk héraði. Er þetta ein harðasta orrusta í stríðinu sem staðið hefur í tæpa 11 mánuði.

Málaliðar í Wagner hópnum hafa leitt sókn Rússa. Jevgeníj Prigozhin, bandamaður Pútins um langt skeið, stofnaði her málaliðanna. Hann hefur undanfarið gagnrýnt opinberlega framgöngu rússneska hersins í Úkraínu.

Þriðjudaginn 10. janúar tilkynnti Prigozhin að vígamenn hans hefðu ná Soledar á sitt vald. Úkraínumenn sögðu þetta rangt og mikla athygli vakti að af hálfu rússneskra yfirvalda í Kreml var sett ofan í við Prigozhin með því að hafna orðum hans um sigur.

Reznikov segir ástandið í Soledar „mjög erfitt“ en „viðráðanlegt“ (e. under control). Hann segir að Wagner vígamönnum hafi verið beitt í „hverri sóknarlotunni eftir aðra“, margir hafi fallið. Prigozhin hafi áhuga á að geta hugsanlega hagnast á því að leggja undir sig bæinn, þar séu mestu saltnámur Evrópu.

„Þeir vilja græða á blóði,“ segir hann.

Soledar er um 10 km frá Bakhmut, hernaðarlega mikilvægum bæ. Þar hafa herir Úkraínumanna og Rússa háð þreytistríð í marga mánuði sem leitt hefur til víðtæks tjóns og mikils skaða hjá báðum stríðsaðilum. Margir Wagner vígamenn koma einnig þar við sögu og er talið að Prigozhin hafi sett sér það persónulega markmið að leggja undir sig Bakhmut.

Reznikov segir að Wagner hópurinn verði að „sanna á áþreifanlegan hátt að hann sé betri en venjulegur herafli Rússneska sambandsríkisins“. Nái Rússar Bakhmut kann það að opna þeim leið til Kramatorsk og Slovjansk, tveggja bæja á valdi Úkraínuhers í Donetsk, héraðinu þar sem Pútin vill ráða og innlimaði í Rússland.

Hvert sóknarskref Rússa á þessum slóðum hefur fyrst og síðast gífurlega mikið táknrænt gildi fyrir þá. Þeir mundu rétta úr kútnum eftir mörg niðurlægjandi áföll í stríðinu, eins og þegar þeir hörfuðu í uppnámi frá Kharkiv í norðaustur Úkraínu og frá borginni Kherson í suðri, einu héraðshöfuðborginni sem Rússar hafa náð í stríðinu.

Reznikov fullyrðir að „um 500 til 600“ rússneskir hermenn séu drepnir dag hvern í stríðinu í landinu öllu, mannfall í liði Úkraínu sé um tíundi hluti þessara talna. BBC segist ekki geta fengið tölurnar staðfestar af hlutlausum aðila. Varnarmálaráðherrann telur að Rússar reyni að safna „liði, skotfærum og vopnum“ til sóknar frá héruðum sem þeir hafa þegar hernumið í suðri og austri.

Nú þurfi Úkraínumenn tíma til að endurskipuleggja her sinn og endurvopna á meðan þeir bíða eftir vestrænum vopnum. „Vorið er besti tíminn fyrir alla aðila til að hugsa sér til hreyfings að nýju,“ segir ráðherrann. „Við áttum okkur á að þeir verða í startholunum, við verðum einnig að vera það.“

BBC bendir á að Reznikov endurtaki ekki fullyrðingar um að Rússar undirbúi aðra innrás frá Belarús. Njósnastofnun úkraínska hersins segir ekkert slíkt á döfinni og Reznikov segir að sókn úr norðri yrði „mjög tímafrek og þeir [Rússar] hafa enga burði“ til að hefja hana.

Rætt var við varnarmálaráðherrann daginn eftir að rússneska varnarmálaráðuneytið skipti um æðsta yfirmann innrásarhersins í Úkraínu. Tilkynningin kom á óvart og er talin til marks um valdabaráttu. Hershöfðinginn Valeríj Gerasimov, einn arkitekta innrásarinnar í fyrra, tekur að nýju við stöðunni sem hershöfðinginn Sergeij Surovikin hefur gegnt síðan í október.

Reznikov segir að mannaskiptin megi rekja til „átaka milli Prigozhins og herafla Rússneska sambandsríkisins“. Surovikin stjórnaði grimmdarlegu árásunum undanfarið á orkuvirki Úkraínu. Reznikov segir að með því hafi hann „gengið á [rússneskar flugskeyta] birgðir án nokkurs ávinnings“, endurtók ráðherrann fyrri fullyrðingar Úkraínumanna um að Rússar skorti orðið flugskeyti.

Í vikunni hafa Pólverjar og Bretar gefið til kynna að í fyrsta sinn muni þeir láta Úkraínumönnum í té orrustu skriðdreka. Reznikov segist viss um að Úkraínumenn muni fá „skriðdreka, orrustu flugvélar eða þotur auk vopna sem dugi til að ná til skotmarka í 300 km fjarlægð“ vegna þess að „afstaðan sé að breytast“ í vestrænum ríkjum.

Hann blæs á áhyggjur af því að tilkynningarnar kalli á svar frá Rússum hvað sem líði gamalkunnum hótunum frá Moskvu. „Það er háð stríð í landi mínu,“ segir hann. „Þeir skjóta á borgir mínar, sjúkrahúsin mín, leikskólana mína, skólana mína. Þeir drepa fjölda almennra borgara, fjölda barna. Þetta er her nauðgara, morðingja og þjófa. Hvert er næsta þrep stigmögnunarinnar?“

Heimild: BBC

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …