Home / Fréttir / Varnarmálaráðherra Tævans: 2025 hættuár vegna innrásar frá Kína

Varnarmálaráðherra Tævans: 2025 hættuár vegna innrásar frá Kína

Chiu Kuo-cheng, varnarmálaráðherra Tævans.

Chiu Kuo-cheng, varnarmálaráðherra Tævans, segir að stjórnendur Kína í Peking kunni að gefa fyrirmæli um allsherjar innrás á Tævan árið 2025. Telur hann að þá verði kínverski herinn nægilega öflugur til að ætla megi að honum yrði beitt á þennan veg. Ráðherrann segir að spenna milli ráðamanna í Kína og Tævan um þessar mundir hafi ekki verið meiri í 40 ár.

Chiu Kuo-cheng ræddi við China Times miðvikudaginn 6. október. Hann taldi kínverska herinn þurfa þrjú ár enn til að öðlast nægan styrk til geta ráðist á Tævan. Hernaðarmátturinn væri að vísu fyrir hendi núna en árás yrði ekki unnt að gera án þess að heildar staðan hefði breyst hernum í vil.

Undanfarna fjóra daga hafa Kínverjar sent um 150 hervélar inn á loftvarnasvæði Tævans. Þeir létu fyrst að sér kveða af miklum þunga föstudaginn 1. október, þjóðhátíðardag Kínverja.

Kínverskir ráðamenn líta á Tævan sem hérað í Kína og hafa strengt þess heit að sameina það undir og færa undir vald kommúnista með því að útrýma lýðræði á eyjunni.

Ríkisstjórn Tævans segir að í landinu búi fullvalda þjóð og ekki sé nein þörf á að lýsa yfir sjálfstæði hennar. Tsai Ing-wen, forseti Tævans, sagði í grein þriðjudaginn 5. október að ekki vekti fyrir Tævönum að sýna af sér „ævintýramennsku“ en þeir myndu gera „allt sem þarf“ til að verjast.

Í umræðum á þingi Tævans um aukafjárveitingu til hersins sagði Chiu varnarmálaráðherra að staðan í öryggismálum eyjarinnar væri alvarlegri en nokkru sinn í þau 40 ár sem hann hefði þjónað í her landsins. Það væri hætta á „voðaskoti“ á sundinu milli Tævan og meginlands Kína.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …