
Framganga Rússa í Úkraínu hefur skapað „nýjan veruleika“ fyrir herafla Bandaríkjamanna og bandamenn þeirra í NATO sagði Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, miðvikudaginn 14. október á ráðstefnu AUSA (Association of the United States Army’s) í Washington.
Ræða Carters er túlkuð á þann veg að samband NATO við Vladimír Pútín Rúisslandsforseta og stjórn hans hafi tekið varanlegum stakkaskiptum eftir innrás Rússa í Úkraínu í fyrra og innlimun þeirra á Krímskaga. Hann sagði að brugðist yrði við aðgerðum Rússa „á öflugan og yfirvegaðan“ hátt.
„Þetta er hinn nýi veruleiki okkar í hernaðarlegu tilliti og hann virðist til frambúðar,“ sagði Carter og vék með þessum orðum frá hinum skrifaða ræðutexta.
Hann sagði að þessi nýi veruleiki krefðist endurskoðunar á stöðu heraflans í Evrópu og þar gegndi landherinn lykilhlutverki. Varnarmálaráðherrann sagði:
„Á 20. öld var fylgt stefnu sem bar þann árangur að Evrópa myndaði eina frjálsa og friðsama heild. Þessi stefna á ekki lengur við á 21. öldinni. Við verðum að móta nýja stefnu til að bregðast við nýjum hættum eins af netárásum, blendningsstríði (hybrid warfare), þar sem tengsl venjulegs herafla og kjarnorkuherafla verða nánari auk þess sem skipan liðsaflans breytist til að bregðast við nýjum áskorunum og ógnum.
Rússar hafa tækifæri til að breyta um stefnu og koma að nýju inn á leið að pólitískum umskiptum í Dasmaskus. Mér er ekki ljóst hvort þeir vilji það. Allt frá Kamtsjaka-skaga um Suður-Asíu inn í Kákasus og við Eystrasalt, alls staðar hafa Rússar aukið á eigin einangrun. Kremlverjar einir geta ákveðið að breyta þessu.“
Í ræðu sinni gagnrýndi Carter einnig það sem hann kallað „ófagmannlega hegðun“ rússneskra flugmanna í Sýrlandi.
„Þeir hafa rofið lofthelgi Tyrklands – á fundi okkar [varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna] í Brussel í síðustu viku átréttuðum við af þunga að þar er um lofthelgi NATO að ræða,“ sagði Carter. „Fyrirvaralaust hafa þeir skotið stýriflaugum frá skipum á Kaspíahafi. Þeir hafa verið aðeins í fárra mílna fjarlægð frá einu ómönnuðu loftfari okkar.“
Ráðherrann ítrekaði að viðræður við Rússa mundu aðeins snúast um tæknileg atriði til að draga úr hættu á árekstrum flugvéla yfir Sýrlandi á meðan Kremlverjar fylgdu óbreyttri stefnu.