Home / Fréttir / Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna: NATO árangursríkasta og öflugasta hernaðarbandalag í nútímasögu

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna: NATO árangursríkasta og öflugasta hernaðarbandalag í nútímasögu

 

Jim Mattis,varnarmalaráðherra Bandaríkjanna.
Jim Mattis,varnarmalaráðherra Bandaríkjanna.

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lagði miðvikudaginn 15. febrúar áherslu á hollustu Bandaríkjanna við NATO, áréttaði mikilvægi bandalagsins fyrir öryggi í sínum heimshluta og um heim allan auk þess að hvetja aðildarþjóðirnar til að standa við skuldbindingar sínar um útgjöld til varnarmála.

„Í sjö áratugi hefur allur heimurinn séð NATO verða árangursríkasta og öflugasta hernaðarbandalag í nútímasögu,“ sagði Mattis í ræðu sem hann flutti á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna.

Þegar Mattis var hershöfðingi í landgönguliði Bandaríkjahers gegndi hann um tíma stöðu æðsta yfirmanns herstjórnar NATO sem er ábyrg fyrir þróun og endurnýjun herafla undir merkjum bandalagsins. Í ræðu sinni sagði hann að staðan í öryggismálum hefði breyst undanfarin ár vegna ógna bæði frá Rússum og Daesh (Ríki íslams) í Írak og Sýrlandi.

„Árið 2014 stóðum við frammi nýrri staðreynd: Rússar beittu hervaldi til að breyta landamærum fullvalda nágrannaríkis og við landamæri Tyrklands birtist Daesh og tók til við að beita miskunnarlausum hryðjuverkaaðferðum í því skyni að leggja undir sig land og koma á fót kalífati,“ sagði hann.

NATO verði að laga sig að breyttum aðstæðum í öryggismálum þótt sum af 28 aðildarríkjum þess „líti undan og afneiti því sem gerist“.

„Þrátt fyrir ógnirnar úr austri og suðri hefur okkur mistekist að fylla í götin á viðbragðsher NATO eða laga okkur að nútíma ógnum eða auka viðbragðsstyrk innan verulegs hluta herskipulags okkar,“ sagði hann.

Atlantshafsbandalagið er reist á sameiginlegum vörnum bandalagsríkjanna, það varð til af hernaðarlegri og strategískri nauðsyn og nú verður af sömu ástæðu að þróa það áfram, sagði varnarmálaráðherrann og einnig:

„Margvíslegar ógnir og úr mörgum áttum steðja að þjóðasamfélagi okkar þegar bogi öryggisleysis spennist við jaðar NATO-svæðisins og handa þess. Við verðum að taka til hendi í þágu ‘lýðræðiseyjanna okkar sem búa við stöðugleika’ ef við ætlum að standa undir ábyrgðinni sem við höfum sem verndarar þjóða okkar og varðmenn á vakt gegn ógnum.“

Atlantshafstengslin „skipta höfuðmáli andspænis íslamskri öfgahyggju og til að koma í veg fyrir aðgerðir Rússa sem grafa undan lýðræðisríkjum og til að spyrna við ágengari Kínverjum,“ sagði hann.

NATO verður að þrengja ákvarðanaferil sinn bæði vegna aðgerða bandalagsins og til að standa að baki þessum ákvörðunum með öflugum og samnýtanlegum búnaði, sagði hann. Það færi ekki fram hjá neinum hvernig bandalagið brygðist við ógnum og ögrunum „síst af öllu þjóðinni fyrir austan okkur eða leiðtoga hennar“.

„Samhliða því sem Bandaríkin og bandalagið reyna að virkja tengsl við Rússland verðum við að verja okkur velji Rússar þann kost að brjóta gegn alþjóðalögum,“ sagði Mattis. Bandaríkjastjórn vildi áfram halda opnum pólitískum leiðum til samstarfs og til að draga úr spennu:

„Við viljum skoða tækifæri til að endurvekja samstarfstengsl við stjórnvöld í Moskvu, væntingar okkar ráðast af raunsæi og við munum tryggja að diplómatar okkar semji af styrkleika. Við munum hins vegar ekki fórna gildum bandalagsins eða leyfa Rússum að tala hærra en allir aðrir í herberginu í krafti aðgerða sinna. Við munum styrkja þetta bandalag og verja okkur sjálfa samtímis því sem við sjáum hvort Rússar standi við skuldbindingar sínar í samræmi við grundvallarsamning NATO og Rússlands. Það ber að viðurkennast að óþægilegt getur verið að finna jafnvægi milli samstöðu og andstöðu.“

Mattis hvatti til þess að NATO-ríkin stæðu við það markmið að verja 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála. Aðeins Bretar, Eistlendingar, Grikkir, Pólverjar og Bandaríkjamenn gerðu það núna. Bandarískir skattgreiðendur mætti ekki halda áfram að standa undir óhæfilega háum hluta kostnaðar til varnar vestrænum gildum.

„Bandaríkjamenn geta ekki sýnt framtíð barna ykkar meiri umhyggju en þið sjálf,“ sagði hann. „Virðingarleysi fyrir hernaðarlegum viðbúnaði ber vott um skort á virðingu fyrir okkur sjálfum, fyrir bandalaginu og fyrir frelsinu sem við höfum fengið í arf og er greinilega ógnað um þessar mundir.“

Tafarlaust og markvisst yrði að stefna að því að ná 2%-markinu ætti NATO að standa áfram sem trúverðugt bandalag með burði til að verjast.

Varnarmálaráðherrann minnti á að Bandaríkjastjórn flytti nú brynvarðar hersveitir til Eystrasaltslandanna, Póllands, Rúmeníu og Búlgaríu til að efla fælingarmátt undir merkjum NATO.

Þá mundu Bandaríkjamenn brátt taka höndum saman við Breta, Kanadamenn og Þjóðverja í forystu fyrir sameiginlegu varnarlið í Póllandi og Eystrasaltslöndunum.

„Á þennan hátt sýna þjóðir okkar gildi Atlantshafstengslanna, þær standa vörð um gildi okkar og viðurkenna að frelsið sem við njótum sé þess virði að verja það,“ sagði Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …