
Bandaríkjaher ætlar að auka eftirlit sitt með herflutningum Rússa skammt frá Eystrasaltsríkjunum þegar Rússar efna þar til æfinga næsta sumar segja embættismenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins við The Washington Post (WP) miðvikudaginn 10. maí.
Áform Bandaríkjamanna er að fjölga skipum sínum á Eystrasalti og taka að sér loftrýmisgæslu á vegum NATO á svæðinu áður en Rússar hefja heræfingar sínar í ágúst og september.
Um er að ræða æfingu undir heitinu Zapad, Vestur, sem efnt er til á fjögurra ára fresti í vesturhluta Rússlands, einnig í Hvíta-Rússlandi og hólmlendundinni Kaliningrad.
Bandaríkjaher telur að 70.000 til 100.000 rússneskir hermenn kunni að taka þátt í æfingunni. Þá sé líklegt að Rússar endurnýi einnig hergögn sem þeir hafa að staðaldri á þessum slóðum. Bandarísku embættismennirnir telja til dæmis líklegt að Rússar flytji ekki skotpalla fyrir skotflaugar á brott frá Kaliningrad en þá má nota til að senda Iskander-eldflaugar hlaðnar kjarnaoddum til skotmarka í allt að 400 til 500 km fjarlægð.
Verði Iskander-flaugar að staðaldri í Kaliningrad telja sérfræðingar líklegt að krafan um eldflaugavarnir aukist í Eystrasaltsríkjunum.
Þá er ekki útilokað að Bandaríkjamenn flytji Patriot-loftvarnaflaugar til Eystrasaltsríkjanna fyrir Zapad-æfinguna. Þær má nota til að skjóta niður flugvélar og langdrægar eldflaugar.
„Við munum nota allt sem við teljum nauðsynlegt hér,“ sagði Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, miðvikudaginn 9. maí í Litháen þar sem hann var í heimsókn til að staðfesta hollustu Bandaríkjamanna við varnir NATO-ríkjanna og til að lýsa stuðningi við Eystarsaltsríkin.
Mattis sagðist ekki hafa „neinar áhyggjur“ vegna Zapad-æfingarinnar. Hún færi fram reglulega og hann vonaði að hún yrði „eins og venjulega“.
Mattis sat fund með starfsbræðrum sínum frá Eystrasaltslöndunum áður en hann heimsótti bandaríska og þýska hermenn á æfingu í Vilníus, höfuðborg Litháens.
Nú halda Bandaríkjamenn úti meira en 20.000 hermönnum í Evrópu.
Rússar hafa sakað NATO um að ögra sér með því að fjölga hermönnum í nágrenni sínu. Mattis sagði um mat Rússa á herafla Bandaríkjanna og NATO í Evrópu:
„Ég vil aðeins segja að ég ber of mikla virðingu fyrir rússneska hernum til að halda að þar trúi menn því virkilega að við beitum þarna sóknarherafla. Þeir vita og allur heimurinn veit að hér er um varnarlið að ræða og beitum aðeins varnarliði til að tryggja að fullveldi sé örugglega virt.“