Home / Fréttir / Varnarmálanefnd finnska þingsins vill aðild að NATO

Varnarmálanefnd finnska þingsins vill aðild að NATO

Formaður varnarmálanefndarinnar, Petteri Orpon, þingmaður Samlingspartiet.

Varnarmálanefnd finnska þingsins kynnti þriðjudaginn 10. maí NATO-álit sitt. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að NATO-aðild tryggði best öryggi Finna.

„Afstaða varnarmálanefndarinnar til NATO-aðildar Finna er skýr. Það er forgangsmál fyrir Finnland að sótt verði um inngöngu í NATO,“ segir Joonas Könttä nefndarmaður, þingmaður Miðflokksins, við blaðið Iltalehti.

Formaður nefndarinnar, Petteri Orpon, þingmaður Samlingspartiet (mið-hægri), sagði á blaðamannafundi um álitið að varnarmáttur landsins væri góður en hann dygði ekki gegn ógn frá Rússum. Þótt dýpka mætti samstarf og samvinnu við aðrar þjóðir veitti það ekki Finnum nægilegt öryggi, segir í Iltalehti.

Nefndin telur þess vegna að NATO-aðild sé besta lausnin til að tryggja öryggi Finnlands. Hún leggur álit sitt fyrir utanríkismálanefnd þingsins sem síðan tekur afstöðu sína en þar vegur álit varnarmálanefndarinnar þungt.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, ætla að lýsa afstöðu sinni til NATO-aðildar fimmtudaginn 12. maí.

Fréttaskýrendur undrast ekki að meginniðurstaða varnarmálanefndarinnar hafi verið að mæla með aðild að NATO. Á hinn bóginn segir Liselott Lindström frá sænska ríkisútvarpinu, SVT, í Finnlandi að athyglisvert sé að nefndin efist um að Finnar búi einir yfir nægum varnarmætti. Herafli Finna sé mjög öflugur og hafi styrkst frá lokum kalda stríðsins. Nú sé staðan í heimsmálum hins vegar þannig að þessar góðu varnir séu ekki taldar duga.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …