Home / Fréttir / Varnarmál bar hæst á blaðamannafundi Macrons í Kristjánsborgarhöll

Varnarmál bar hæst á blaðamannafundi Macrons í Kristjánsborgarhöll

Emmanuel Macron, Margrét Danadrotting, Brigitte Macro og Mary prinsessa á svölum Amalienborgar.
Emmanuel Macron, Margrét Danadrotting, Brigitte Macron og Mary prinsessa á svölum Amalienborgar.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kom til Danmerkur þriðjudaginn 28. ágúst í 36 klukkustunda opinbera heimsókn eins og það er orðað í Le Figaro. Franskur forseti hefur ekki verið í opinberri heimsókn í Danmörku frá því árið 1982.

Í franska blaðinu er rætt við Henning Rasmussen fyrir utan Amalienborg þar sem hann og fjölskylda hans öll stóð til að hylla forsetann og Danadrottningu. Rasmussen segist koma á hallartorgið vegna hrifningar sinnar á Macron, hann sé „framsýnn og hugrakkur“. Það sé ánægjuefni að fá tækifæri til að „sjá heillandi ungan leiðtoga sem dregur að sér mikla athygli og sem ber lof á ágæti okkar [Dana] með því að nota umbætur á vinnumarkaði okkar sem fordæmi“.

Le Figaro segir að hrifningu Dana á Macron séu takmörk sett þegar komi að framtíðarsýn hans fyrir Evrópusambandið og tillögum hans um breytingar á því. Raunar séu Danir meðal mestu efasemdarþjóða innan ESB eins og fram komi í fyrirvara þeirra sem samþykktur var í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarinnar að Maastricht-samkomulaginu árið 1993, hann nær til evrunnar, dómsmála og varnarmála.

Emmanuel Macron og Lars Løkke Rasmussen á blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll.
Emmanuel Macron og Lars Løkke Rasmussen á blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll.

Varnarmál bar hæst á blaðamannafundinum sem  Emmanuel Macron og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, efndu til í Kristjánsborgarhöll að loknum fundi sínum þar þriðjudaginn 28. ágúst. Frá blaðamannafundinum var sagt á vefsíðunni altinget.dk miðvikudaginn 29. ágúst.

Macron margítrekaði að ákvarðanir Dana um að standa utan varnarsamstarfs ESB-ríkja (det danske forsvarsforbehold) væri danskt innanríkismál. Það kom þó ekki í veg fyrir að forsetinn segði fagnaðarefni fyrir ESB og Frakka ef enn mætti þétta varnarsamstarfið við Dani.

„Þetta er fyrst og fremst stjórnmálalegt viðfangsefni undir fullveldi Dana og það er ekki mitt að blanda mér í það. Hitt er þó ljóst að aukin þátttaka Dana yrði fagnaðarefni fyrir Evrópu og Frakkland,“ sagði Emmanuel Macron.

„Frá mínum bæjardyrumn séð yrði mjög gott ef til kæmi full þátttaka í hernaðarlega samstarfinu í ljósi ákvarðana sem teknar voru fyrir skömmu,“ sagði forsetinn og vísaði þar til aukins hernaðarlegs samstarfs innan vébanda ESB, svonefnd Pesco-samstarfs. Danir standa utan þess.

Lars Løkke Rasmussen sagði að NATO mundi breytast þegar fram liðu stundir og þess vegna kynnu Danir að standa utan við öflugt varnarsamstarf yrði varnarmálafyrirvarinn ekki afturkallaður. Ítrekaði hann með því alkunna skoðun sína á nauðsyn um afnám fyrirvarans frá 1993.

„Þegar ég lít fram á veg sé ég nýja verkaskiptingu milli NATO og ESB. Það er skrýtið ef við sköpum þá stöðu fyrir Dani að við tökum þátt í hörðum aðgerðum í gegnum NATO eða önnur bandalög. Og þegar síðan kemur að því að vinna að stöðugleika og endurreisn landa verði Danir að draga sig í hlé,“ sagði Løkke.

Blaðamenn altinget.dk telja ekki líkur á að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um varnarmálafyrirvarann á næstunni. Forsætisráðherrann hafi hvað eftir annað ýtt málinu til hliðar. Hann segir Dani hins vegar ætla að verða eins virka í evrópsku varnarsamstarfi og fyrirvarinn heimilar.

Macron er sömu skoðunar og Løkke um að breytingar verði á NATO. Hann lagði þess vegna áherslu á að í Evrópu yrði „strategísk sjálfsstjórn“ að aukast með öflugra varnarsamstarfi.

„Við getum ekki látið okkur duga að treysta á eigin vernd innan vébanda NATO, við verðum að skapa okkar eigin sjálfsstjórn. Það er því ekki aðeins fagnaðarefni heldur einnig mikilvægt fyrir Dani og samstarfsaðila þeirra og fyrir Evrópu að leggja meira af mörkum til varnarsamstarfsins,“ sagði forsetinn.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …