Home / Fréttir / Varnar- og öryggismál í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra

Varnar- og öryggismál í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Pentagon, Washington, 15. maí 2018.
Jim Mattis, þáv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Pentagon, Washington, 15. maí 2018.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti alþingi árlega skýrslu um utanríkismál þriðjudaginn 30. apríl. Í framsöguræðu sinni sagði ráðherrann þetta um öryggis- og varnarmál:

„Í vor eru liðin fimm ár frá því að Rússland innlimaði Krímskaga og braut þannig gróflega gegn þjóðarétti. Samstaða vestrænna ríkja og sannarlega mikilvæg þegar kemur að því að verja alþjóðalög og þar hefur Ísland lagt sitt af mörkum. Ég þreytist ekki á að minna á hversu mikilvæg alþjóðalög og virkt alþjóðlegt samstarf eru smáum, herlausum ríkjum eins og Íslandi.

Kjarninn í alþjóðlegu samstarfi Íslands á sviði öryggis- og varnarmála er aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu — sem nýverið fagnaði 70 ára afmæli — og tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna. Í þessu samstarfi ábyrgjumst við rekstur íslenska loftvarnakerfisins, eftirlitskerfi með hafsvæðum, samskiptakerfa og annarra mannvirkja og búnaðar á Íslandi. Með reglulegri loftrýmisgæslu og þátttöku í æfingum bandalagsríkja og norræna samstarfsríkja tryggjum við að fullnægjandi viðbúnaður og þekking sé til staðar til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og mæta áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir á þessu sviði.

Liður í þessu var þátttaka okkar í „Tridant Juncture“, einni stærstu varnaræfingu sem Atlantshafsbandalagið hefur staðið fyrir á síðari árum. Þótt æfingin hafi að mestu leyti farið fram í Noregi hófst hún hér á landi þegar herskip frá aðildarríkjum komu saman undir sameiginlegri stjórn Atlantshafsbandalagsins. Ísland tók einnig þátt í þeim hluta sem sneri sérstaklega að netöryggi sem vaxandi ógn steðjar að. Varnaræfinguna bar upp á sama tíma og 75 ár eru liðin frá því að þáttaskil urðu í orrustunni um Atlantshafið, lengstu samfelldu orrustu í síðari heimsstyrjöldinni, þegar bandamenn náðu undirtökunum.

Við það tilefni minntumst við þeirra 100.000 manna sem týndu lífi í átökum á hafi úti. Þar af voru um 200 Íslendingar.

Við eigum það til að gleyma því hversu mikilvægt það var í síðari heimsstyrjöldinni að vinaþjóðir skyldu eiga skjól á Íslandi. Í núverandi öryggisumhverfi er það ekki síður mikilvægt og minnir okkur jafnframt á þýðingu þess að öruggir flutningar á aðföngum og mannafla geti gengið óhindrað fyrir sig á hafinu í kringum Ísland.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um framtíð norðurslóða að Ísland hefur lengi talað gegn frekari hervæðingu á norðurskautinu og vaxandi hernaðarumsvif Rússa á svæðinu vekja því nokkurn óhug. Við þessu hefur verið brugðist með stórauknu eftirliti með kafbátaumferð og eru umtalsverðar framkvæmdir fyrirhugaðar á mannvirkjum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli af þeim sökum. Þá hefur gildi stöðugs loftrýmiseftirlits og virkari loftrýmisgæslu sannað sig að undanförnu þegar rússneskar sprengjuflugvélar hafa verið á sveimi á íslenska loftrýmiseftirlitssvæðinu.“

 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG og varaformaður utanríkismálanefndar alþingis, sagði í ræðu sinni í umræðunum um skýrslu utanríkisráðherra:

„Friðsamlegar lausnir eru líka eitt af meginviðmiðum utanríkisstefnu Íslands og það rímar ákaflega vel við áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Einmitt þess vegna bregður konu í brún þegar ljóst er að þrátt fyrir samdrátt í heildarútgjöldum til utanríkismála í fjármálaáætlun þessa árs þá hefur verið mikil aukning fjármuna til Atlantshafsbandalagsins undanfarin ár og er boðuð áfram í skýrslunni, enda hafa hernaðarumsvif aukist í og við Ísland undanfarinn áratug. Viðvera erlends herliðs árið 2007 var 17 dagar en síðustu þrjú árin hefur erlent herlið verið hér með viðveru upp á hvern einasta dag. Fjöldi hermanna á Íslandi var árið 2007 225, en árið 2017 voru þeir orðnir 1.030. Aukning á fjármunum til hermála hefur aukist á síðustu árum. Fjármunir til NATO hafa farið úr 1.592 millj. kr. árið 2017 í 2.185 millj. kr. til NATO árið 2019.

Vissulega helgast vöxtur útgjalda til þessa málaflokks af vaxandi skuldbindingum sem Ísland hefur tekist á hendur innan Atlantshafsbandalagsins og aukinni tímabundinni viðveru liðsafla bandalagsins á Keflavíkurflugvelli vegna versnandi öryggisástands í Evrópu, þar með talið á Norður-Atlantshafi, eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðherra. En minna en ekkert fer fyrir því öryggismati sem þarna liggur til grundvallar enda hefur það ekkert verið rætt í þingsal. Þar er ekki hægt að skýla sér á bak við leynd og trúnað sem bara á heima í þjóðaröryggisráði. Og áfram eru boðaðar framkvæmdir bandaríska sjó- og flughersins sem hefur aukið reglulega viðveru á Keflavíkurflugvelli og samhliða því verður ráðist í nýjar framkvæmdir til að styðja við þessa viðveru.

Þessa mikla aukning þarfnast einfaldlega ítarlegrar útskýringar og umræðu á þingi, frú forseti, enda rímar þessi þróun ákaflega illa við áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að því að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum í hvívetna. Ég hefði satt að segja viljað sjá skýrari áherslur minnar stjórnmálahreyfingar í ríkisstjórn þegar kemur að friði og friðsamlegum lausnum en ekki aukna viðveru erlends herliðs og aukningu á fjármunum til varnarmála í tíð ríkisstjórnar sem leidd er af Vinstri grænum. En þetta getur kannski hæstv. utanríkisráðherra útskýrt betur í andsvari sínu.“

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …