Home / Fréttir / Varðbergsfundur: Grænland ólíklega sjálfstætt ríki

Varðbergsfundur: Grænland ólíklega sjálfstætt ríki

Dr. Rasmus Dahlberg, sagnfræðingur og sérfræðingur við varnarmálaháskólann í Danmörku, á fundi Varðbergs 3. október 2019.
Dr. Rasmus Dahlberg, sagnfræðingur og sérfræðingur við varnarmálaháskólann í Danmörku, á fundi Varðbergs 3. október 2019.

Dr. Rasmus Dahlberg, sagnfræðingur og sérfræðingur við varnarmálaháskólann í Danmörku, flutti erindi og svaraði fyrirspurnum á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 3. október í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns.

Dahlberg ræddi einkum Grænland og stöðu landsins í fortíð og samtíð innan danska ríkjasambandsins. Hann sá ekki fyrir sér Grænland yrði sjálfstætt ríki í nánustu framtíð. Grænlendingur þyrftu ávallt aðra til að skapa sér öryggi. Nefndi hann til dæmis að ekki væri nein landhelgisgæsla í höndum Grænlendinga sjálfra þótt rúmlega 80% þjóðartekna þeirra mætti rekja til fiskveiða og fiskvinnslu. Íslendingar ættu að þekkja það af eigin raun eftir þorskastríð til að tryggja ráð sín yfir sjávarauðlindinni hve mikilvægt er að ráða yfir eigin landhelgisgæslu.

Þegar vikið var að hernaðarlegu öryggi Grænlands blasti við hve mikilvæg aðstaða Bandaríkjahers í Thule er. Minnti Dahlberg á að samningurinn væri þannig úr garði gerður milli Bandaríkjanna og Danmerkur/Grænlands að honum yrði ekki sagt upp nema báðir aðilar væru sammála um uppsögnina.

Þá kom fram að í fjárlagatillögum Bandaríkjanna kæmi fram að á árinu 2020 ætluðu Bandaríkjamenn að verja fé í þágu hafnaraðstöðu á Grænlandi. Velti Dahlberg fyrir sér hvort Bandaríkjamenn ætluðu að hverfa að nýju til stöðvarinnar í Grønnedal á vesturströnd Grænlands fyrir sunnan Nuuk.

Bandaríkjaher reisti þar stöð í síðari heimsstyrjöldinni og kom fyrir fallbyssuhreiðrum við siglingaleiðina inn fjörðinn að stöðinni – megintilgangur þeirra var að koma í veg fyrir að nazistar gætu nýtt sér krýlolít-námu við fjörðinn.

Danski herinn hafði á sínum stjórnstöð sína í Grønnedal en flutti hana fyrir nokkrum árum til Nuuk, höfuðborgar Grænlands. Þá var stöðin auglýst til sölu en þegar boð barst frá Kínverjum var fallið frá sölunni og danska ríkisstjórnin ákvað að eiga stöðina áfram.

Mátti skilja Rasmus Dahlberg á þann veg að Kínverjum væri síður en svo að skapi að eiga samskipti eða viðskipti við Kínverja en þeir teldu sér til framdráttar að gera sig líklega til samstarfs við Kínverja því að þá létu dönsk og bandarísk stjórnvöld að sér kveða í þágu grænlenskra hagsmuna.

Hann sagði að líta bæri á gæslu grænlenskra öryggishagsmuna fyrst og síðast sem bandarískt viðfangsefni. Óljóst væri hvaða áætlanir NATO hefði gert um varnir landsins.

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …