Home / Fréttir / Varðbergsfundur: Fjórða orrustan um Atlantshafið segir stjórnandi varnaræfingar NATO

Varðbergsfundur: Fjórða orrustan um Atlantshafið segir stjórnandi varnaræfingar NATO

James G. Foggo flytur erindi sitt.
James G. Foggo flytur erindi sitt.

Bandaríski flotaforinginn James G. Foggo, yfirmaður flotastjórnar NATO í Napólí og stjórnandi Trident Juncture 2018 varnaræfingarinnar, sagði á fjölmennum fundi Varðbergs í Norræna húsinu þriðjudaginn 16. október að nú stæði yfir fjórða orrustan um Atlantshafið. Líta bæri varnaræfinguna í því ljósi og einnig ákvörðun Bandaríkjanna um að virkja 2. flota sinn, Atlantshafsflotann, að nýju og ákvörðun NATO um að koma að nýju á fót flotastjórn Í Norfolk í Bandaríkjunum.

Flotaforinginn minnti á mikilvægi GIUK-hliðsins, það er hafsvæðanna frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Stöðuna þar bæri oft á góma þegar rætt væri um öryggi á Norður-Atlantshafi. Til hins ætti jafnframt að líta að nú sendi Bandaríkjastjórn í fyrsta sinn í 30 ár flugmóðurskip, Harry S. Truman, norður með strönd Noregs. Það væri liður í æfingu með þátttöku meira en 50.000 manna og 10.000 ökutækja.

Frá fundinum í Norræna húsinu.
Frá fundinum í Norræna húsinu.

Tilgangurinn væri að gera öllum ljóst að innan NATO væri unnt að virkja slíkan liðsafla gegn hverjum sem velti fyrir sér að ögra einhverju ríkjanna jafnt á norðurslóðum sem annars staðar. Æfingin væri reist á grunni 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki væri árás á þau öll. Við því væri ekki að búast að einhver vildi egna þennan herafla til átaka.

Foggo minnti á að sú breyting hefði orðið frá því að þriðja orrustan um Atlantshafið var háð, kalda stríðið, að nú gegndu fjarskiptaleiðir neðansjávar lykilhlutverki fyrir samskipti og efnahag þjóða. Huga þyrfti að öryggi þeirra og jafnframt öryggi í netheimum og vörnum gegn tölvuárásum. Þetta væri ný vídd og ekki léttvæg.

Um það væri rætt að Bandaríkjastjórn væri á einhvern hátt afhuga NATO. Hann stæði ekki í þessum sporum í Norræna húsinu ef svo væri, það tækju ekki um 10.000 bandarískir landgönguliðar þátt í Trident Juncture ef svo væri og Harry S. Truman með öllum sínum fylgdarskipum hefði ekki verið sent til þátttöku í æfingunni ef svo væri. Það hefði ekki verið í upphaflegum áætlunum að flugmóðurskipið yrði sent á vettvang heldur ákveðið á síðari stigum en þátttaka skipsins gæfi æfingunni miklu meira vægi en ella væri.

Flotaforinginn ræddi mikilvægi Íslands. Hann sagði að bandaríska varnarliðið hefði horfið héðan árið 2006 þar sem ekki hefði verið veitt fé til að halda því úti. Nú væru fjárveitingar til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli í bandarískum fjárlögum og nefndi hann alls um 30 milljónir dollara (3,5 milljarða ísl. kr.) sem varið væri til endurbóta á vellinum til að auðvelda þjónustu við P-8 Boeing kafbátaleitarvélar.

Frá fundinum í Norræna húsinu.
Frá fundinum í Norræna húsinu.

James G. Foggo fór lofsamlegum orðum um samstarfið við Landhelgisgæslu Íslands og þátt íslenskra stjórnvalda. Þótt honum mikið til varðskipsins Þór koma.

Að loknum fyrirlestri flotaforingjans spurðu fundarmenn hann um ýmislegt sem fram kom í erindi hans. Fundinum var slitið klukkan 18.00.

Hér á síðunni verður unnt að sjá fundinn á netupptöku.

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og James E. Foggo aðmíráll leiddu í morgun minningarathöfn um þau sem létu lífið vegna átaka á Atlantshafi í síðari heimsstyrjöld. Athöfnin markar upphaf varnaræfingarinnar Trident Juncture 2018 á Íslandi.

Athöfnin í morgun fór fram um borð í varðskipinu Þór á ytri höfninni í Reykjavík. Auk utanríkisráðherra og Foggo aðmíráls voru viðstaddir dómsmálaráðherra, erlendir sendiherrar á Íslandi, íslenskir embættismenn, yfirmenn úr Bandaríkjaher og fjölmiðlar.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …