Home / Fréttir / Varaforseti Bandaríkjanna heitir stuðningi við NATO-aðild Georgíu

Varaforseti Bandaríkjanna heitir stuðningi við NATO-aðild Georgíu

 

Giorgi Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, lyfta glasi í Tbilisi.
Giorgi Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, lyfta glasi í Tbilisi.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, áréttaði þriðjudaginn 1. ágúst stuðning Bandaríkjastjórnar við fullveldi Georgíu og landsyfirráðarétt. Varaforsetinn var í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, og fordæmdi „árás“ Rússa og „hernám“ þeirra á landi Georgíu. „Bandaríkin standa með Georgíu,“ sagði Pence á sameiginlegum blaðamannafundi með Giorgi Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu.

Varaforsetinn sagði við fjölmiðlamennina: „Nú er einn fimmti hluti Georgíu hernuminn af Rússum. Svo að það sé á hreinu – Bandaríki Norður-Ameríku mótmæla harðlega hernámi Rússa á landi Georgíu.“

Kremlverjar viðurkenndu aðskilnaðarhéruðin Abkhaziu og Suður-Ossetiu frá Georgíu sem sjálfstæð lönd eftir fimm daga hernaðarátök við her Georgíu árið 2008. Rússar halda þúsundum hermanna úti á landsvæðunum tveimur.

„Bandaríkjastjórn styður fullveldi Georgíu og landsyfirráðarétt innan eigin landamæra sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Undir forystu Donalds Trumps forseta munu Bandaríkjamenn andmæla hverri kröfu, hvenær sem er, sama frá hvaða þjóð hún kemur, sem vegur að þessari varanlegu grunnreglu,“ sagði varaforsetinn.

Pence sagði að Trump mundi „mjög fljótt“ rita undir lög sem herða efnahagsþvinganir gegn Rússum. Báðar deildir Bandaríkjaþings samþykktu hertu lagaákvæðin með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í fyrri viku.

„Við vonum að samskiptin batni við Rússa. Ég fullvissa ykkur um að nýlegar ákvarðanir í Moskvu um þessi samskipti [fækkun bandarískra sendimanna um 755] draga ekki úr ásetningi Bandaríkjamanna um að tryggja eigið öryggi og bandamanna sinna og allra friðelskandi þjóða heims eins og Georgíu,“ sagði varaforsetinn. Hann ítrekaði einnig „öflugan“ stuðning Bandaríkjastjórnar við NATO-aðild Georgíu. Pence sagði:

„Ég hrósaði forsætisráðherranum fyrir lýðræðisþróunina í Georgíu sem færir þjóðina nær sameiningu við Evrópu og aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Frekari skref í átt að markmiðinu sem forsætisráðherrann hefur sett færa Georgíu enn nær og NATO jafnvel enn nær að verða ykkur í hendi og munu styrkja tengslin milli þjóða okkar.“

Miðvikudaginn 1. ágúst átti Pence einnig fund með forystumönnum stjórnarandstöðunnar í Georgíu og ávarpaði hermenn sem taka þátt í sameiginlegum heræfingum undir merkjum NATO í Georgíu. Hann sagði: „Við stöndum hér í skarðinu … fremstu varnarlínu frelsisins, varnarlínu sem rofin var af Rússum fyrir tæpum áratug.“

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …