Home / Fréttir / Varað við hættu á netblekkingum vegna ESB-kosninga

Varað við hættu á netblekkingum vegna ESB-kosninga

 

44528728_303Kosið verður til ESB-þingsins í 27 löndum samtímis í lok maí 2019. Framkvæmdastjórn ESB hefur varað við því að reynt verði að beita aðferðum sem kenndar eru við falskar fréttir og tölvuárásir í kosningabaráttunni. Hefur hún hvatt fyrirtæki að baki samfélagsmiðlum og stjórnvöld aðildarríkjanna til að herða aðgerðir gegn tilraunum til að beita kjósendur blekkingum í von um að ráða atkvæði þeirra.

Julian King, öryggismálastjóri ESB, hvatti aðildarríki sambandsins til þess miðvikudaginn 1. ágúst að líta hættuna á íhlutun í kosningabaráttuna vegna ESB-þingsins alvarlegum augum. Sérfræðingar telja hættuna á að blekkingum verði beitt meiri en ella vegna þess hve kjósendur séu almennt illa að sér um hlutverk og störf ESB-þingmanna.

King nefndi sérstaklega hættuna á erlendri íhlutun á samfélagsmiðlum í ætt við það sem gerðist í Bandaríkjunum árið 2016 þegar Rússar blönduðu sér í forsetakosningarnar. Þá gat hann einnig um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Hollandi sem snerist um samning ESB við Úkraínu.

Í samtali við Funke-fjölmiðlasamsteypuna í Þýskalandi sagði King að koma yrði í veg fyrir að opinberir eða einkaaðilar græfu undan lýðræðiskerfinu. Aðferðirnar sem beitt væri gætu bæði verið lymskulegar og skaðlegar.

Hann sagði að krafist yrði „raunverulegs gegnsæis, rekjanleika og ábyrgðar“ af fyrirtækjum eins og Facebook og YouTube. Þau yrðu að axla sína ábyrgð.

 

Heimild: DW

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …