Home / Fréttir / Varað við aukinni hryðjuverkaógn gegn Dönum og Svíum,

Varað við aukinni hryðjuverkaógn gegn Dönum og Svíum,

Berlingske birti þessa gömlu mynd úr safni sínu en danski fáninn var víða brenndur af múslímum vegna Múhameðs skopmyndanna á sínum tíma.
AFP PHOTO/Asif HASSAN

Hryðjuverkasamtökin al-Qaída hafa birt harðorða yfirlýsingu þar sem hvat er til þess með ofsakenndu orðalagi að ráðist skuli á Danmörku og Svíþjóð. Í danska blaðinu Berlingske er þriðjudaginn 15. ágúst rætt við þrjá sérfróðamenn um hryðjuverk og ofbeldi í nafni íslams sem allir eru sammála um að líta beri hótunina mjög alvarlegum augum. Hryðjuverkaógnin gegn löndunum hafi stóraukist vegna yfirlýsingarinnar.

Magnus Ranstorp, rannsóknastjóri við varnarmálaháskólann í Stokkhólmi, einn af fremstu fræðimönnum í Evrópu um baráttuna gegn hryðjuverkum segir að hótun al-Qaída sé „einstaklega alvarleg“ net samtakanna sé stórt og það sé mjög mikið áhyggjuefni þegar þau hvetji til ofbeldis og morða á Dönum og Svíum.

Við danska blaðið segir hann að Danir verði að bregðast af mikill alvöru við hótuninni. Hryðjuverkasamtökin ISIS og al-Qaída hafi áður hvatt til ofbeldis gagnvart einstökum kóranbrennuvörgum en hér sé um mun víðtækari hótun að ræða.

Jacob Kaarsbo, fyrrrverandi forstöðumaður greininga hjá Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), leyniþjónustu danska herins, segir yfirlýsingu al-Qaída þá hörðustu síðan í Múhameðs-krísiunni árið 2005, þegar skopmyndir af Múhameð spámanni birtust í Jyllands-Posten.

Hann segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af því sem kunni að gerast. Danska öryggislögreglan, PET, hafi varað við að hækkandi hættustigi fyrir tveimur vikum en nú hafi öfgamennirnir gengið hreint til verks og tilgreint Danmörku og Svíþjóð sem óvini sem skuli sæta árás.

Tore Refslund Hamming, doktor í herskáum íslam, hefur brugðist við yfirlýsingu al-Kaída á samfélagssíðunni X. Hann segir að þar sé kóranbrennunum í Danmörku og Svíþjóð lýst sem samræmdri árás á alla múslíma í nafni íbúa landanna og ríkisstjórna þeirra. Þar segi einnig að hefndarkvöð hvíli á öllum múslimum í Svíþjóð, Danmörku Evrópu allri.

Magnus Ranstorp segir að boðskapurinn frá al-Qaída sé skýr:

„Drepið alla sem eiga hlut að kóranbrennum. Brennið eða sprengið sendiráð í loft upp. Drepið diplómata. Myndið litlar staðbundnar sellur.“

Hann vekur einnig athygli að al-Qaída segi að hvorki í Danmörku né Svíþjóð hafi menn lært neitt af Charlie Hebdo (frönsku vikuriti sem varð fyrir hryðjuverkaárás í París 7. janúar 2015) og telur að í því felist hótun gegn blaðamönnum og vestrænum fjölmiðlum.

Fræðimennirnir Ranstorp og Kaarsbo eru sammála um að rík ástæða sé til að hafa áhyggjur af öryggi danskra og sænskra diplómata og sendiráða um allan heim.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …