Home / Fréttir / Vara-framkvæmdastjóri NATO segir forgangsatriði að endurmeta stöðu öryggismála á N-Atlantshafi

Vara-framkvæmdastjóri NATO segir forgangsatriði að endurmeta stöðu öryggismála á N-Atlantshafi

 

Rose Gottemoeller flytur erindi í Norræna húsinu
Rose Gottemoeller flytur erindi í Norræna húsinu

Rose Gottemoeller, vara-framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), var hér á landi miðvikudaginn 8. mars og ávarpaði ráðstefnu, sem haldin var á Grand Hotel í Reykjavík á vegum NATO. Ráðstefnuna sem snerist um fjármögnun verkefna á vegum NATO sóttu um 150 manns frá aðildarríkjum NATO og stofnunum bandalagsins.

Rose Gottemoeller átti einnig átti tvíhliða fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra auk þess að flytja erindi og svara spurningum fundarmanna í Norræna húsinu á fundi sem boðað var til af utanríkisráðuneytinu, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðbergi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Rose Gottemoeller, varaframkvæmdastjóri NATO, í Ráðherrabústaðnum.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Rose Gottemoeller, varaframkvæmdastjóri NATO, í Ráðherrabústaðnum.

Meðal þeirra sem spurðu Gottemoeller á fundinum í Norræna húsinu var Page Louise Wilson, dósent í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún vísaði til þess að mótuð hefði verið þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland þar sem einnig væri vísað til þess að gera yrði nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja varnir Íslands. Hvernig þetta horfði við NATO spurði dósentinn.

Rose Gottemoeller sagði að þetta hefði verið meðal þess sem hún hefði rætt við stjórnvöld hér þá 24 tíma sem hún hefði dvalist í landinu.

Á fundi varnarmálaráðherra NATO fyrir skömmu hefði verið rætt um öryggi á Norður-Atlantshafi. Við blasti að setja þætti varnir norrænna þjóða í NATO og einnig þeirra sem stæðu utan NATO, Svía og Finna í forgang, þar með fylgdi einnig Norður-Atlantshafið og varnir þess.

Hún sagði að á tíma kalda stríðsins hefði Ísland verið miðpunktur þegar fylgst hefði verið með því sem gerðist á lofti, legi og í undirdjúpunum í varðstöðu gegn kafbátum.

Fyrir skömmu hefði hún sagt við samstarfsmenn sína að mörg ár væru liðin frá því að hún hefði síðast heyrt minnst á GIUK-hliðið [varnarlínuna gegn kafbátum sem dregin var í kalda stríðinu frá Grænlandi um Ísland til Bretlands] en nú beindist athygli að nýju að þessu svæði vegna þess að Rússar sendu flota sinn og önnur vígtól nú lengra fram en áður. Með þessu væri þrýst á NATO-ríki á ýmsan hátt. Þennan þrýsting mætti einnig sjá á Eystrasalti og Svartahafi auk Norður-Atlantshafs.

Í ljósi þessarar þróunar hefðu varnarmálaráðherrar NATO ákveðið að skipulega skyldi að nýju huga að því sem væri að gerast á Norður-Atlantshafi, hver væri ógnarmyndin, við hverju mætti búast og til hvaða ráðstafana yrði að gera vegna þess.

Gottemoeller sagðist telja að í ljós kæmi að efla yrði loftvarnir, allt frá upphafi NATO hefði Ísland skipt höfuðmáli í þágu loftvarna bandalagsins og við eftirlit á hafinu. Ratsjárnar á Íslandi skiptu miklu og nú þyrfti að líta til aðgerða sem miðuðu að því að tryggja samfellu í ratsjáreftirliti frá Kanada, það er Norður-Ameríku yfir Norður-Atlantshaf um Ísland til Evrópu. Þessar aðgerðir kostuðu mannafla og fé og yrðu NATO-ríkin öll að standa þarna að baki.

Rosa Gottemoeller sagðist fagna því mjög að innan NATO hefðu menn áttað sig á nauðsyn þess að huga að Norður-Atlantshafinu aftur. Í sannleika sagt hefði þetta verið svæði sem bandalagið hefði ekki hugað að í meira en áratug, hún vonaði að þetta breyttist og síðan sæjum við hvað gerðist. Þetta heildarmat og viðbrögð við því skipti mestu en samhliða þessu yrði lögð áhersla á þjálfun og æfingar en í því efni þyrfti einnig að huga að nýrri forgangsröð innan bandalagsins.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …