Home / Fréttir / Vanræksla í loftslagsmálum er brot á mannréttindum

Vanræksla í loftslagsmálum er brot á mannréttindum

Klimaseniorinnen frá Sviss fagna sigri í Strassborg.

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) í Strassborg kvað þriðjudaginn 9. apríl upp sögulegan dóm sem gefur fordæmi um úrlausn dómstóla um loftslagsmál.

Eldrikvennahreyfing í Sviss, KlimaSeniorinnen, sem berst fyrir umbótum í loftslagsmálum vann dómsmál gegn svissneska ríkinu. Hreyfingin hafði tapað málinu fyrir dómstólum á heimavelli.

Konurnar, flestar á áttræðisaldri, kærðu ríkið fyrir að veita þeim ekki vernd gegn hitabylgjum sem fjölgi vegna hlýnunar jarðar. Þær leggist sérstaklega þungt á aldraðar konur.

Stórdeild MDE (dómarar frá 17 löndum aðildarríkjanna 46) komust að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingarnar hefðu í för með sér beina ógn við friðhelgi einkalífs í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segir að

sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns og opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á þennan rétt nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Taldi dómstóllinn að ríkisstjórn Sviss hefði ekki gert nóg til að berjast gegn loftslagsbreytingum og því gerst brotleg við þessa grein. Dómurinn er endanlegur og kann að hafa áhrif í öllum 46 aðildarríkjum Evrópuráðsins sem hafa fullgilt mannéttindasáttmála Evrópu. Ísland er í hópi þeirra ríkja og hefur lögfest mannréttindasáttmálann með þeim fyrirvara að úrlausnir MDE séu „ekki bindandi að íslenskum landsrétti“ eins og segir í lögum 62/1994.

Tvö önnur loftslagsmál lágu fyrir MDE en þeim var báðum frávísað þar sem þau fullnægðu ekki skilyrðum sem gerð skulu til mála fyrir dómstólnum. Fyrrverandi bæjarstjóri í Frakklandi höfðaði annað málið gegn frönskum stjórnvöldum fyrir að gera ekki nægar ráðstafanir við strönd Norðursjávar til að verja bæ málshefjanda gegn hækkun sjávarborðs vegna hlýnunar jarðar. Voru réttarfarsreglur taldar standa gegn því að dómararnir tækju málið til efnislegrar úrlausnar.

Þriðja málið var höfðað af sex Portúgölum, fæddum á árunum 1999 til 2012, sem kærðu 32 Evrópulönd fyrir að gera ekki nóg til að vernda þá gegn skaðvænlegum loftslagsbreytingum. Vísuðu kærendur sérstaklega til áhrifa skógarelda í Portúgal.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …