Home / Fréttir / Vannýtt tækifæri til vörslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Vannýtt tækifæri til vörslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er einstök aðstaða fyrir íslensk stjórnvöld til að verjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi eins og fram kemur í nýlegri skýrslu greiningardeild ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi 2017. Hér er þessi kafli úr skýrslunni birtur í heild:

Hvað skipulagða afbrotastarfsemi varðar hefur Flugstöð Leifs Eiríkssonar sérstöðu. Segja má að lögregla þar myndi eins konar „framlínu“ íslenskrar löggæslu. Um flugstöðina fara nær allir þeir sem til landsins koma. Í þeim hópi eru þeir sem tengjast á einn eða annan veg skipulagðri brotastarfsemi. Vitað er að töluverðu magni fíkniefna er smyglað um flugstöðina. Í þeim tilvikum sem fórnarlömb mansals eru á ferð fara þau undantekningarlítið um flugvöllinn. Í stuttu máli má segja að öll alþjóðleg glæpastarfsemi sem nær yfir landamæri sé á verkefnaskrá lögreglunnar í Leifsstöð.

Lögreglan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) stöðvar á ári hverju fjölda fólks sem gerir tilraun til að fara með ólögmætum hætti um ytri landamæri Íslands. Í flestum tilvikum er um að ræða fólk sem framvísar fölsuðum skilríkjum eða skilríkjum annarra. Ljóst er að lögreglan í FLE stendur frammi fyrir vaxandi áskorunum á þessu sviði bæði hvað varðar verkefni og umfang.

Mikilvægir þjóðarhagsmunir tengjast rekstri flugstöðvarinnar og því eftirliti sem þar er haldið uppi. Takist einstaklingum með ófullnægjandi skilríki að komast um flugstöðina spyrst það út og í húfi eru þættir á borð við orðspor flugvallarins og rekstrarleyfi flugfélaga að ógleymdri þeirri hættu sem viðkomandi einstaklingar eða hópar kunna að skapa.

Flestir þeirra sem framvísa ólögmætum skilríkjum í FLE eru í gegnumferð á Íslandi en hefja ferðalag sitt í öðrum Schengen-ríkjum. Af þeim 34 einstaklingum sem framvísuðu ólögmætum skilríkjum í FLE fyrri hluta árs 2017 ferðaðist 21 frá norrænu ríki, þar af 11 frá Svíþjóð. Samskonar mynstur gildir um árið 2016 en þá ferðaðist 31 af 62 frá norrænu ríki til Íslands, þar

af flestir, eða 12, frá Svíþjóð. Í 18 tilfellum af 62 er hins vegar ekki þekkt hvaðan einstaklingarnir ferðuðust.

Þeim einstaklingum sem koma við sögu hjá flugstöðvardeild lögreglunnar í FLE án skilríkja eftir flugferð frá öðrum Schengen-ríkjum fer einnig hratt fjölgandi. Talið er að margir þessara einstaklinga hafi skilríki á upphafsstað en losi sig við þau á leiðinni til Íslands.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru almennt í viðkvæmri stöðu. Oft eru þeir háðir smyglurum í tekjuöflun sinni. Þeir hafa enga hagsmuni af því að vitna gegn smyglurunum meðal annars vegna þess að aðrir fjölskyldumeðlimir gætu átt eftir að nýta þjónustu þeirra. Önnur ástæða gæti verið ótti vegna ógnana smyglhringja. Þetta gerir rannsóknir mála flóknari en ella þar sem ekki er unnt að byggja á vitnisburðum þolenda.

Fjölgun ferðamanna í landinu og fjölgun farþega sem fara um landið hefur verið gífurleg á undanförnum árum, líkt og alkunna er. Langstærsti hluti ferðamanna að og frá landinu fer um Keflavíkurflugvöll. Árið 2015 var farþegafjöldinn um Flugstöð Leifs Eiríkssonar 4,8 milljónir og nam aukningin frá fyrra ári 25,5%. Árið 2016 var farþegafjöldinn í flugstöðinni 6,8 milljónir og hafði vaxið frá fyrra ári um 40,4%. Aukningin milli áranna 2016 og 2017 er tæp 47% á tímabilinu janúar til og með maí.

Áætlað er að farþegafjöldinn á árinu 2017 verði um 8,75 milljónir sem yrði tæplega 29% aukning milli ára. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er gert ráð fyrir 20% fjölgun farþega árið 2018. Áformuð fjölgun áfangastaða t.d. í Mið-Austurlöndum og Asíu mun auka álag á landamæragæslu m.a. með fleiri verkefnum er varða óreglulega fólksflutninga. Almennt er litið svo á að fjöldi farþega og áfangastaða tengist röklega fjölda glæpa sem ná yfir landamæri (e. Cross Border Crime). Það samband er þó ekki algilt þótt það kunni að eiga við um suma brotaflokka. […]

Síðustu tvö ár hafa stjórnvöld brugðist við fjölgun farþega með auknu fjármagni sem gert hefur löggæslu kleift að fjölga stöðugildum þótt enn fari fjarri að fjöldi starfsmanna hafi haldist í hendur við tölu farþega.

Fjölgun farþega og áfangastaða á síðustu árum, hefur nú fært Keflavíkurflugvöll í fimmta sæti yfir flugvelli í Evrópu hvað varðar heildarfarþegafjölda í flugi á milli Evrópu og Norður-Ameríku. (upplýsingar frá Isavia dags. 18.07.2017). Árið 2018 er gert ráð fyrir því að Keflavíkurflugvöllur verði í öðru sæti á Norðurlöndum ásamt Arlanda-flugvelli í heildarfarþegafjölda um ytri landamæri (

Farþegalistagreining er eitt öflugasta tæki lögreglu við landamæraeftirlit og það sem best er fallið til fyrirbyggjandi löggæslu. Vegna skorts á mannafla og ófullnægjandi tækjabúnaði er þessu verkefni lítið sinnt sem telst verulegur veikleiki.

Þann 21. apríl 2016 samþykkti Evrópuráðið [þ.e. leiðtogaráð ESB] tilskipun varðandi söfnun, notkun og miðlun upplýsinga um flugfarþega (e. Passenger Name Record, PNR) í því skyni að koma í veg fyrir, uppgötva, rannsaka og saksækja fyrir brot á lögum um hryðjuverk og alvarlega glæpi.

Með tilskipuninni eru flugfélög skylduð að miðla upplýsingum til viðkomandi aðildarríkis um flugfarþega sem eru á leið til eða frá ESB. Enn fremur heimilar tilskipunin aðildarríkjunum að safna slíkum farþegaupplýsingum á flugleiðum innan ESB. Tilskipunin gerir hverju aðildarríki ESB einnig skylt að stofna sérstaka farþegaupplýsingadeild (e. Passenger Information Unit) sem er réttmætur viðtakandi þeirra farþegaupplýsinga sem flugfélögin miðla.

Íslenskum tollalögum 88/2005 var breytt árið 2015 með tilliti til ákvæða í bráðabirgðasamkomulagi Evrópuþings og Evrópuráðs sem síðar varð að framangreindri evróputilskipun. Tollstjóra, lögreglu og öðrum handhöfum lögregluvalds er heimilt að skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn í þágu eftirlits, greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum gegn ákvæðum laga.

Í greinargerð með íslensku lögunum er nánar fjallað um þær upplýsingar sem lögin ná yfir og skyldu til að afhenda upplýsingar um farþega og áhöfn. Í greinargerðinni segir:

„Fjölgun hryðjuverka og alvarlegra glæpa sem teygja sig yfir landamæri, t.d. mansal og fíkniefnaviðskipti, hefur m.a. leitt til aukinnar áherslu á öflun og notkun farþegaupplýsinga við eftirlit á alþjóðlegum vettvangi.“

Í ljósi mikilvægis farþegaupplýsinga við eftirlit, vísbendinga um vilja löggjafans við setningu tollalaga og þróunar við notkun á upplýsingum til að koma í veg fyrir alvarlega glæpi er mjög brýnt að tekið verði upp skilvirkt kerfi við farþegalistagreiningu.“

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …