Home / Fréttir / Vangaveltur um Boris Johnson sem næsta utanríkisráðherra Breta

Vangaveltur um Boris Johnson sem næsta utanríkisráðherra Breta

Boris Johnson
Boris Johnson

Talið er að David Cameron, forsætisráðherra Breta, búi sig undir að skipa Boris Johnson utanríkisráðherra í stjórn sína þegar hann lætur af embætti borgarstjóra í London í maí 2016. Þetta kemur fram á vefsíðu The Telegraph laugardaginn 19. desember sem segir að með þessu vilji Cameron tryggja að Johnson berjist fyrir að Bretar verði áfram í ESB.

Vitnar blaðið í „vini Camerons“ í frétt sinni og segir að í embætti utanríkisráðherra geti Johnson auk þess „tekið sér stöðu“ hafi hann í huga að sækjast eftir að verða leiðtogi Íhaldsflokksins og berjast um það við George Osborne fjármálaráðherra.

Á vefsíðunni segir að fréttir um þetta berist að loknum fundi leiðtogaráðs ESB föstudaginn 18. desember og í kjölfar yfirlýsinga Camerons þann dag um að á næsta ári muni Bretar taka afstöðu til aðildar sinnar að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

The Telegraph segir að Cameron hafi vakið reiði and-ESB-sinna meðal íhaldsmanna með því að segja í lok leiðtogaráðsfundarins að hann teldi „eindregið“ að Bretar ættu til frambúðar heima í ESB. Þetta hefði hann sagt þótt ekki hefði enn verið samið um nýja aðildarskilmála.

Á leiðtogaráðsfundinum neyddist Cameron að gefa eftir varðandi þá stefnu sína að farandfólk frá ESB-löndum fengi ekki félagslegar bætur fjögur fyrstu árin í Bretlandi.

Honum var boðið að geta lögfest ákvæði um „neyðarhemlun“, það er að hann gæti neitað farandfólki um bætur í ákveðinn tíma gæti hann sannað að fjöldi þessa fólks þrengdi að opinbera félagslega kerfinu í Bretlandi.

The Telegraph segir að Cameron hafi tekist að bjarga samningaumleitunum sínum með því að flytja hjartnæma 40 mínútna ræðu til stuðnings ESB í kvöldverði með leiðtogunum.

Áður en hann flutti ræðuna kröfðust að minnsta kosti þrír úr hópi leiðtoganna að hugmyndum Camerons um framkvæmd velferðarmála yrði einfaldlega hafnað. Það hefði hugsanlega lokað á allar frekari viðræður af hálfu Camerons.

Cameron hafi hins vegar tekist að sannfæra leiðtogaráðið um að tilraun hans til að breyta aðildarskilmálum Breta áður en hann tæki að berjast fyrir áframhaldandi aðild tryggði framtíð ESB og sannfærði efahyggjumenn í Bretlandi um að ESB útilokaði ekki breytingar.

Að ræðunni lokinni hafi verið samþykkt að halda viðræðunum við Breta áfram í því skyni að finna lausn sem samrýmdist félagslegum reglum Breta enda tækju þær breytingum.

Philip Hammond, núverandi utanríkisráðherra, er í hópi íhaldsmanna sem hafa efasemdir um aðildina að ESB. Það færi því illa á að hann sæti í embættinu taki Cameron ákvörðun um að berjast fyrir aðild að loknum viðræðunum við ESB. Talið er að Hammond verði ekki vikið úr ríkisstjórninni heldur skipaður í annað ráðherraembætti.

Stuðningsmenn Johnsons segja að hann muni ekki hafna boði um embætti utanríkisráðherra. Fyrir liggja gömul ummæli Camerons um að hann muni bjóða Johnson sæti í ríkisstjórninni þegar hann hættir sem borgarstjóri í maí 2016.

Blaðamenn The Telegraph segja að í utanríkisráðuneytinu gæti Boris Johnson látið ljós sitt skína á alþjóðavettvangi en einnig tekist á við ýmis alvarleg viðfangsefni á svið utanríkismála.

Í embættinu yrði hann fjarri breska þinginu einmitt á sama tíma og honum yrði brýnt að rækta góð tengsl við sem flesta almenna þingmenn til að styrkja stöðu sína í væntanlegu leiðtogakjöri.

Vangaveltur hafa verið um að Johnson mundi berjast fyrir úrsögn Bretlands úr ESB í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Heimildarmenn segja að Cameron telji að Johnson muni styðja aðild Breta að ESB. Heimildarmaður The Telegraph sagði: „Boris hefur aldrei mælt með úrsögn úr ESB. [Forsætisráðherrann er] hlynntur Boris. Hann er stjarna. Hvaða aðrir flokkar eiga svo sigurstranglega menn?“

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …