Home / Fréttir / Vandræði skapast vegna tregðu Rússa til að taka við fólki sem vísað er frá Noregi

Vandræði skapast vegna tregðu Rússa til að taka við fólki sem vísað er frá Noregi

Landamærastöðin Storskog, hin eina á landamærum Rússlands og Noregs.
Landamærastöðin Storskog, hin eina á landamærum Rússlands og Noregs.

 

Vandræði hafa skapast á landamærum Noregs og Rússlands vegna þess að rússnesk yfirvöld hafa neitað að taka við hælisleitendum sem Norðmenn vísa yfir landamærin í stöðinni Storskog í Finnmörku – einu stöðinni á landamærum ríkjanna. Rússar neita að taka við fólkinu í hópferðabílum. Norsk yfirvöld íhuga að endursenda fólkið með flugvélum.

Útlendingadeild norsku lögreglunnar Politiets utlendingsenhet (PU) reyndi fimmtudag, föstudag og laugardag árangurslaust að senda fólk til baka til Rússlands. Fyrir utan þau pólitísku sjónarmið sem kynnt voru norskum yfirvöldum föstudaginn 22. janúar hafa Rússar borið við skorti á mannafla og farartækjum auk tæknilegra vandamála og myrkurs í -37°C kulda.

Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, sagði  við norsku fréttastofuna NTB laugardaginn 23. janúar að Rússar teldu sig ekki getað tekið við fólkinu af öryggisástæðum auk þess sem þeir vildu meira samráð vegna endursendinganna. Þeir dragi hins vegar ekki í efa réttmæti þess að vísa á brott frá Noregi fólki sem hafi áritun eða löglegt dvalarleyfi í Rússlandi.

Norðmenn og Rússar sömdu árið 2008 um endursendingu fólks og eru Rússar skyldugir til að taka við fólki sem hefur dvalarleyfi í Rússlandi og Norðmenn endursenda þótt það hafi sótt um hæli í Noregi. Ekki er unnt að líta á þetta fólk sem raunverulega flóttamenn.

Að minnsta kosti 700 hælisleitendur sem komið hafa til Noregs frá Rússlandi hafa annaðhvort dvalarleyfi í Rússlandi eða rússneskan ríkisborgararétt samhliða upprunalegum ríkisborgararétti sínum, segir norska útlendingastofnunin (Utlendingsdirektoratet (UDI)). Rússar samþykkja að þeim beri að taka við 700 hælisleitendum sem farið hafa yfir landamærin til Finnmerkur en þeir vilja ekki að þeir verið sendir yfir landamærin í Storskog.

Børge Brende segir óhjákvæmilegt að taka mið af þessum óskum Rússa og málið verði rætt við þá. Hugsanlegt sé að senda fólkið til baka með flugvélum.

Þúsundir manna hafa komið á reiðhjólum yfir landamærin til Noregs en bannað er að fara yfir þau fótgangandi eða í bifreið án löglegrar heimildar. Norska blaðið VG segir að í byrjun nóvember 2015 hafi 45 tonn af reiðhjólum sem skilin voru eftir við landamærin verið sett í úrvinnslu.

 

BBC segir að hugsanlegt sé að allt að 5.500 manns verði vísað til baka til Rússlands frá Noregi. Sagt er að þetta sé fjöldi þeirra sem komið hafi til Noregs á seinni helmingi ársins 2015.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …