Home / Fréttir / Vandræðagangur Trumps vegna eigin ummæla

Vandræðagangur Trumps vegna eigin ummæla

 

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur dögum saman leitast við að skýra það sem hann sagði á blaðamannafundi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Helsinki mánudaginn 16. júlí. Trump sætti mikilli gagnrýni á heimavelli fyrir að lýsa meira trausti á orð Pútíns en mat bandarískra leyniþjónustustofnana þegar rætt var við hann um

ákærur á hendur 12 rússneskum njósnurum fyrir afskipti af bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Í samtali við sjónvarpsstöðina CBS miðvikudaginn 18. júlí sagði Trump að hann hefði látið Pútín vita á fundi þeirra í Helsinki að Bandaríkjamenn vildu ekki að hlutum væri svona háttað og þannig yrði það.

Fyrr þennan sama miðvikudag sat Trump við fundarborðið í Hvíta húsinu þegar hann var spurður hvort hann tryði því að Rússar blönduðu sér enn í kosningar í Bandaríkjunum. Hann sagði: „Nei.“

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi forsetans, sagði síðar að ekki ætti að skilja þetta „nei“ sem svar við spurningunni um Rússa heldur við spurningu hvort hann vildi svara fleiri spurningum.

„Við teljum ógnina enn fyrir hendi,“ sagði hún: „Þess vegna grípum við til ráðstafana gegn henni.“

Þriðjudaginn 17. júlí sagði Trump að orð sín á blaðamannafundinum með Pútín hefðu verið misskilin. Hann hefði ætlað að segja að hann væri ósammála orðum Pútíns en ekki sammála.

Trump heldur sínu striki með árásum á ýmsa fyrrverandi yfirmenn bandarískra leyniþjónustustofnana eins og John O. Brennan, fyrrv. forstjóra CIA, sem kenndi ummæli Trumps í Helsinki við landráð. Trump svarar með því að lýsa Brennan sem „algjöru úrhraki“. Þá taldi hann að eitthvað hlyti að hafa komið fyrir James R. Clapper, fyrrverandi höfuðráðgjafa Obama um leyniþjónustumálefni.

Trump reyndi hins vegar að slá á hugmyndir manna um að ágreiningur væri milli hans og Dans Coats, eftirmanns Clappers í stjórn Trumps. Coats hefur sakað Rússa um að halda áfram afskiptum af kosningum í Bandaríkjunum. Trump sagði að Coats stæði sig „frábærlega“ í starfi sínu og sömu sögu væri að segja um Ginu Haspel, forstjóra CIA.

„Þegar þau segja mér eitthvað skiptir það miklu,“ sagði Trump. Um Coats sagði hann: „Hann er góður maður og mikill föðurlandsvinur sem elskar land okkar og hann segir ekki annað en það sem hann trúir.“

Trump talaði þarna á annan hátt um Coats en hann gerði við hliðina á Pútín mánudaginn 16. júlí. Þá sagði forsetinn að Coats hefði lýst skoðun sinni á sekt Rússa en sér hefði fundist „mjög sterk og öflug“ neitun Pútíns meira sannfærandi.

„Þeir segjast halda að þetta séu Rússar,“ sagði Trump. „Ég hef Pútín forseta; hann sagði rétt í þessu að það væru ekki Rússar. Ég segi þetta: ég sé enga ástæðu til að svo sé.“

Eftir að Trump hlaut harða gagnrýni fyrir þessi orð sagðist hann hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að nota tvöfalda neitun þegar hann hefði verið spurður hvort hann treysti Pútín eða bandarískum leyniþjónustustofnunum.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …