Home / Fréttir / Vandi Pútins eykst vegna átaka milli gamalla Sovétlýðvelda

Vandi Pútins eykst vegna átaka milli gamalla Sovétlýðvelda

Nancy Pelosi var fagnað af forseta þings Aremana þegar hún kom til Yerevan sunnudaginn 18. september.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti stendur víðar í ströngu vegna hernaðar en í Úkraínu. Í fleiri fyrrverandi Sovétlýðveldum eru háð vopnuð átök – þar vill Pútin þó að farið sé fram með friði án þess að á hann sé hlustað.

Um nýliðna helgi varð Pútin að hringja í forsetana í Kirgisistan og Tadsjikistan eftir blóðuga árekstra á landamærum þeirra. Hann varð einnig að bregðast við ósk um aðstoð frá Armeníu vegna hernaðarátaka við Aserbajdsjan. Fyrir tæpum tveimur árum börðust herir landanna af hörku í sex vikur. Í liðinni viku er talið að 200 manns hafi fallið í átökunum. Í landamæraátökunum milli Kirgisistan og Tadsjikistan féll 81.

Í tilkynningu frá Kreml segir að Pútin hafi hvatt forseta landanna tveggja til að forðast stigmögnun átakanna og leita friðsamlegra lausna.

Fyrrverandi Sovétlýðveldi austast í Evrópu, í Kákasus og Mið-Asíu hafa gert sameiginlegan öryggissáttmála (ODKB) með Rússum. Armenía, Kirgisistan og Tadsjikistan eu aðilar að þessum sáttmála. Hann á að mynda umgörð sem Flemming Splidsboel, sérfræðingur við Dönsku utanríkismálastofnunina, DIIS, lýsir sem einskonar smækkaðri eftirmynd af NATO í samtali við danska ríkisútvarpið, DR.

Splidsboel segir að þar sé eins og í NATO einskonar fóstbræðralag um gagnkvæma aðstoð, árás á einn sé árás á alla. Í þessu ljósi hafi Armenar sagt: „Við höfum orðið fyrir árás. Við viljum fá hernaðarlega aðstoð“ – enginn hafi þó rétt þeim hjálparhönd.

Rússar létu við það sitja að lofa að senda eftirlitsmenn á staðinn til að safna upplýsingum um ástandið og gefa um það skýrslu.

Splidsboel segir að þetta skapi hernaðarbandalaginu og sérstaklega Rússum vandræði. Við þetta bætist síðan átök milli tveggja annarra ríkja í bandalaginu.

„Þetta er ömurlegt ástand fyrir Rússa sem eiga herstöðvar í báðum löndunum því að þarna blasir annars vegar við að hernaðarbandalagið er einskis virði og hins vegar að stefna Rússa á svæðinu er ekki annað en orðin tóm,“ segir Flemming Splidsboel.

Hann telur að einkum í Aserbajdsjan hafi stjórnvöld séð sér leik á borði þegar Rússar, mikilvægustu bandamenn Armena, séu bundnir í stríðinu í Úkraínu.

„Ég get vel ímyndað mér að Aserbajdsjanar hafi talið að nú gætu þeir sölsað undir sig landskika á meðan Rússar stæðu í ströngu í Úkraínu og öll alþjóðleg athygli beindist þangað,“ segir Flemming Splidsboel.

Í marga áratugi hafa þjóðirnar tekist á um hólmlenduna Nagorno-Karabakh. Átökin milli Kirgisistan og Tadsjikistan eiga sér ekki eins langa sögu. Splidsboel segir að þau blossi upp öðru hverju og séu staðbundin um aðgang að vatni og deilur vegna landamæraskika.

Þróunin sé þó þannig að þessar landamæraerjur fái á sig nýjan svip í hvert sinn sem þær hefjist og höfði æ meira til þjóðerniskenndar heimamanna sem segi: „Nú skulum við láta þá finna meira fyrir okkur.“

Reuters-fréttastofan sagði föstudaginn 16. september að ríkin tvö hefðu gert vopnahlé sín á milli.

DR segir að margir sérfræðingar telji að þessi nýjustu átök á þessum slóðum sýni að áhrif Rússa hafi minnkað þar vegna stríðsins í Úkraínu.

„Áhrifamáttur fána Rússlands er mun minni en áður og svo virðist sem öryggisjafnvægið milli fyrrverandi Sovétlýðveldanna sé að verða að engu,“ segir Laurence Broers, sérfræðingur bresku hugveitunnar Chatham House, við The Guardian.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, heimsótti Armeníu sunnudaginn 18. september og sakaði stjórn nágrannaríksins Aserbajdsjan um að ráðast á Armeníu.

„Við fordæmum harðlega þessa árás,“ sagði Pelosi. Í ágúst fór hún til Tævansog reitti heimsókn hennar kínversk stjórnvöld til reiði. Alen Simonjan, forseti þings Armeníu, fagnaði komu Pelosi til lands síns.  Pelosi sagði Bandaríkjamenn styðja Armena í átökum sem stæðu milli lýðræðis og einveldis. Sama fjölskyldan hefur setið við völd í Aserbajdsjan síðan 1993.

Pelosi notaði heimsókn sína til Armeníu einnig til að vekja athygli á áhugaleysi Rússa á að rétta Armenum hernaðarlega hjálparhönd.

„Það er merkilegt að þið [Armenar] urðuð fyrir vonbrigðum, og að þið fenguð skýrslugerðarmenn en ekki vernd vegna ástandsins,“ segir Reuters að hún hafi sagt.

Stjórnin í Aserbajdsjan hafnar öllum ásökunum í sinn garð um að hafa ráðist á Armeníu með drónum og loftárásum. Hún segir ásakanir Pelosi „staðlausar og ósanngjarnar“. Peolsi sé þekkt fyrir að standa með Armenum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …