Home / Fréttir / Valdatafl í Downing-stræti – Cummings tekur pokann sinn

Valdatafl í Downing-stræti – Cummings tekur pokann sinn

Dominic Cummings kveður Downingstræti 10.
Dominic Cummings kveður Downingstræti 10.

Dominic Cummings, einn nánasti ráðgjafi Boris Johnsons, forsætisráðherra Breta, og höfuðsmiður sigurs brexit-manna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016, hvarf frá störfum í skrifstofu forsætisráðherrans síðdegis föstudaginn 13. nóvember. Hann gekk út Downing-stræti 10 með brúnan pappakassa í fanginu og á ekki afturkvæmt þangað.

Áður hafði hann sagst ætla að hætta störfum í skrifstofunni um jólin þegar ljóst var að nánasti samstarfsmaður hans og vinur, Lee Cain, yrði ekki stjórnandi starfsliðsins í skrifstofu forsætisráðherrans.

Að baki brottför þessara tveggja lykilmanna af skrifstofu breska forsætisráðherrans búa átök þar sem Carrie Symonds, barnsmóðir og unnusta forsætisráðherrans, er sögð hafa gegnt lykilhlutverki. Cummings og Cain sátu undir ámæli kvenna í Downing-stræti sem sögðu þá vera með „strákalæti“ og tala niður til sín á fundum.

Cain var talinn traustasti aðstoðarmaður Boris Johnsons þar til hann sagði miðvikudagskvöldið 11. nóvember af sér sem samskiptastjóri forsætisráðherrans. Hann sagðist einnig ætla að hverfa frá störfum fyrir jól en er hættur nú þegar.

Á vefsíðunni The Telegraph var haft eftir konu í starfsliði forsætisráðherrans að þeir Cummings og Cain hefðu komið öðru vísi fram við konur en karla. Þær hefðu stöðugt verið ávítaðar og sakaðar um leka af skrifstofunni. Þá hefðu þeir gert sér leik að því að leggja spurningar fyrir konur sem vitað var að þær gætu ekki svarað, einkum ungar konur.

Þá segir einnig á The Telegraph að svonefndir „brexit-strákar“ sem störfuðu undir stjórn Cummings og Cains hafi gjarnan kallað Carrie Symonds Princess Nut Nuts til að gera lítið úr henni. Prinsessu af því að hreykti sér og þætti þurftarfrek, fyrra nut til að gefa til kynna að hún væri „biluð“, enginn fótur er sagður fyrir því, og seinna nuts er sagt lýsa þeirri skoðun „brexit-strákanna“ að andlitssvipur hennar minni á íkorna og þar með hnetur.

Talsmaður skrifstofu forsætisráðherrans sagði þetta uppspuna frá rótum, ásakanir settar fram af illum huga.

Bent var á orðrómurinn um baktalið um Carrie Symonds segði meira en flest annað um andrúmsloftið í Downing-stræti á þessum örlagatímum vegna COVID-19-faraldursins og brexit-viðræðnanna. Hitt væri hins vegar ljóst að Symonds hefði haft sitt fram. Hún stöðvaði framgang Cains í stöðu stjórnanda starfsliðs skrifstofu forsætisráðherrans.

Í þessu efni naut hún að sögn The Telegraph aðstoðar frá Allegru Stranton, fyrrverandi fréttakonu á BBC og blaðakonu á The Guardian. Hún var ráðin til að stjórna blaðamannafundum í Downing-stræti en neitaði að starfa undir stjórn Cains. Þá sneristMunira Mirza, stjórnandi stefnumótunarhóps skrifstofunnar, gegn stöðuhækkun Cains af ótta við stjórnarhætti hans.

Í breskum fjölmiðlum segir að „Carrie-áhöfnin“ hafi sigrað „brexit-strákana“.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …