Home / Fréttir / Valdaránstilraunin bætir samskipti Rússa og Tyrkja

Valdaránstilraunin bætir samskipti Rússa og Tyrkja

Pútín og Erdogan
Pútín og Erdogan

Rússneskir fjölmiðlar fullyrða að rússnesk stjórnvöld hafi varað Erdogan Tyrklandsforseta við yfirvofandi valdaráni hersins. Þau hafi þannig „bjargað“ forsetanum. Íranska fréttastofan Fars birtir um þetta frétt og segir þarna um kenningu opinberra rússneskra fjölmiðla að ræða. Njósnadeild rússneska hersins í Sýrlandi hafi hlerað fjarskiptasamtöl innan tyrkneska hersins og sent frá sér viðvörun.

Frá þessu er skýrt í franska blaðinu Le Figaro þriðjudaginn 26. júlí og þar segir einnig að rússneskir fjölmiðlar gefi nú þá skýringu á árás tyrkneskra orrustuþotna á rússneska sprengjuvél 24. nóvember 2015 skammt frá landamærum Sýrlands að þar hefði verið um „frumkvæði tyrknesks flugmanns“ að ræða. Nú líta Rússar á þetta atvik allt öðrum augum en áður þegar það olli mikilli spennu í samskiptum þeirra við Tyrki.

Le Figaro segir að svo virðist sem valdaránstilraunin hafi dregið úr kala Rússa í garð Tyrkja. Rússneskir álitgjafar taka annan pól í hæðina en þeir á Vesturlöndum sem gagnrýna hreinsanirnar í Tyrklandi. Rússarnir hrósa Erdogan fyrir framgöngu hans, að honum hafi tekist að snúa erfiðri stöðu sér í vil. Enginn opinber aðili í Rússlandi hefur gagnrýnt fangelsanir á andstæðingum Erdogans. Í fyrra mánuði fór Pútín hörðum orðum um tyrkneskan starfsbróður sinn en strax eftir valdaránstilraunina ræddu þeir saman í síma að frumkvæði Pútíns. Þeir ætla að hittast í byrjun ágúst.

Rússnesku álitsgjafarnir hliðhollir Kremlverjum taka höndum saman um að setja atburðina í Tyrklandi í rússneskt samhengi. Maxime Tsjevtsjenko, áhrifamikill sérfræðingur, telur að valdaránstilraunin sé „tengd tregðu Erdogans gagnvart áformum NATO um að auka viðbúnað sinn i Austur-Evrópu“. Valeri Solivei, alþjóðamálasérfræðingur hjá MGIMO, segir að þessir atburðir hafi gerst „þegar Tyrkir reyna að nálgast Rússa sem þeir sjá sem mótvægi við Bandaríkjamenn og Vesturlönd“. Hann segir að kenningin um að Erdogan hafi ekki borið ábyrgð á árásinni á rússnesku orrustuþotuna og að Rússar hafi sent viðvörun um valdaránið „virðist mjög lituð af stjórnmálum og ósennileg“. Ekkert hefur verið sagt um málið opinberlega í Kreml.

Le Figaro minnir á að fyrir valdaránstilraunina hafi sést ýmis merki um að stjórnvöld Tyrklands og Rússlands vildu bæta samskipti sín. Erdogan sendi afsökunarbréf til Pútins 27. júni vegna árásarinnar á rússnesku þotuna. Daginn eftir var unnið hryðjuverk á flugvellinum í Istanbúl þar em 43 týndu lífi. Í framhaldi af þeim sorgaratburði afturkallaði Pútín 30. júní bann við skipulögðum skemmtiferðalögum Rússa til Tyrklands.

Franska blaðið segir að forsetar Tyrklands og Rússlands eigi skap saman, þeir hallist báðir að nauðsyn ofríkisstjórnar og mikillar íhaldssemi auk þess að bera augljósan kala í garð Evrópumanna. Efnahagslegir hagsmunir ríkjanna eru gagnkvæmir: Rússar framleiða orku, Tyrkir þurfa á miklu gasi að halda og mikilvægar flutningaleiðslur liggja um land þeirra. Meðal Rússa eru milljónir sóldýrkenda sem sækjast eftir að fara til Tyrklands. Tyrkir flytja út matvæli og eru gott vinnuafl við stórframkvæmdir. Þá líta ofríkismennirnir báðir á Sýrland sem hluta af „áhrifasvæði“ sínu.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …