Home / Fréttir / Valdabarátta í valdaflokknum á Grænlandi eftir afsögn utanríkisráðherrans

Valdabarátta í valdaflokknum á Grænlandi eftir afsögn utanríkisráðherrans

Vittus Qujaukitsoq
Vittus Qujaukitsoq

Vittus Qujaukitsoq sagði óvænt af sér embætti utanríkisráðherra Grænlands mánudaginn 24. apríl og lýsti yfir að hann stefndi að ná völdum af Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, segir fréttaskýringu sem Martin Breum í Kaupmannahöfn skrifar á vefsíðuna EUobserver fimmtudaginn 27. apríl. Segir Breum að þetta snúist allt um sjálfstjórn Grænlendinga og síðan sjálfstæði þeirra frá Dönum.

Martin Breum segir að þetta verði hörð barátta og af þremur ástæðum ættu Evrópumenn að huga að henni:

Í fyrsta lagi vegna þess að á Grænlandi sé að finna mörg jarðefni sem skipti höfuðmáli fyrir ýmsar framleiðslugreinar. Kínverjar ráði nú þegar 90% af framleiðslu sjaldgæfra jarðefna.  Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi í nokkur ár unnið að samstarfi við Grænlendinga til að koma í veg fyrir að Kínverjar næðu fótfestu í námuvinnslu þar.

Í öðru lagi hafi Grænlendingar sýnt viðleitni ESB til að auka ítök sín á norðurslóðum skilning. Sama verði ekki sagt um Rússa og Kanadamenn.

Í þriðja lagi sé einstök aðstaða á Grænlandi til að rannsaka loftslagsbreytingar. Vilji ESB láta að sér kveða í því efni beri að líta til tækifæra til þess á Grænlandi. Danir og Grænlendingar vinni að því að koma á fót nýrri vísindamiðstöð á Grænlandi. Til að ná ítökum þurfi ESB að komast þar í forystu og veita stjórnmálaforystumönnum Grænlendina leiðsögn.

Breum segir að Qujaukitsoq hafi sagt af sér sem ráðherra þegar Kim Kielsen hugaði að breytingum á stjórn sinni. Kielsen vildi að Qujaukitsoq hætti sem utanríkisráðherra og einbeitti sér að öðrum málum á hans könnu, viðskiptum og iðnaði.

Qujaukitsoq leit á þetta sem niðurlægingu, sagði af sér og boðaði framboð sitt gegn Kielsen á þingi Siumut-flokksins í sumar. Að sögn Breums greinir þá á um hvernig standa eigi að því að auka sjálfræði og síðan lýsa yfir sjálfstæði Grænlendinga

Kim Kielsen hefur ekki hvikað frá stefnu flokks síns um fullt sjálfstæði en hann vill fyrst einbeita sér að menntamálum, atvinnumálum og félagsmálum.

Qujaukitsoq og fleirum á Grænlandi finnst Kielsen fara sér of hægt í sjálfstæðismálinu. Qujaukitsoq vill að grænlenska stjórnin fái meiri ráð yfir utanríkismálum sínum sem eru að verulegu leyti í höndum Dana.

Hann vill að varnasamningurinn frá 1951 um Grænland milli Bandaríkjamanna og Dana verði endurskoðaður. Samningurinn heimilar Bandaríkjamönnum að halda úti herstöð í Thule á Norður-Grænlandi. Í fyrra fór Qujaukitsoq hörðum orðum „hroka“ Dana án þess að ráðfæra sig fyrst við Kielsen.

Nú verður Suka K. Frederiksen, ráðherra sjálfstæðismála einnig utanríkisráðherra. Ráðherraembætti sjálfstæðismála kom fyrst til sögunnar í fyrra.

Í fréttum grænlenska útvarpsins KNR segir frá því að Lars-Emil Johansen, gamalreyndur leiðtogi Siumut, telji eðlilegt að kosið verði um formannsembættið í flokknum á fundi hans í sumar. Á árinu 2014 tapaði Lars-Emil Johansen í formannskosningu fyrir Kim Kielsen. Hefur Johansen oftar en einu sinni gagnrýnt Kielsen meðal annars nú fyrir að vega að Vittus Qujaukitsoq.

Johanesen vill ekki segja hvern hann styður til flokksformennsku en tekur fram að hann telji Qujaukitsoq vel geta tekið að sér flokkinn. Hann hafi verið aðstoðarmaður sinn á sínum tíma og reynst vel. Johansen segist ekki ætla að gefa kost á sér til flokksformennku.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …