Home / Fréttir / Vald herstjórnar rússneska Norðurflotans aukið

Vald herstjórnar rússneska Norðurflotans aukið

Rússnesk herskip í Sveromorsk á Kólaskaga, heimahöfn Norðurflotans. Thomas Nilsen ritstjóri Barents Observer tók myndina.
Rússnesk herskip í Sveromorsk á Kólaskaga, heimahöfn Norðurflotans. Thomas Nilsen ritstjóri Barents Observer tók myndina.

 Rússland er stærsta land veraldar en flatarmál þess er rúmlega sautján milljónir ferkílómetra.  Ráðamenn í Kreml reyna ýmislegt til þess að einfalda stjórnsýsluna í þessu víðfeðma landi.  Málefni rússneska heraflans eru þar ekki undanskilin.

Fram kemur í bókinni The Russian Military Resurgence eftir René De La Pedraja, sem gefin var út 2018, að löng hefð sé fyrir því að skipta landinu í hersvæði (e. military districts).  Er þá átt við að einingum innan rússneska heraflans sé falin ábyrgð á vörnum tiltekins landshluta.

Þegar að Sovétríkin liðuðust í sundur var hersvæðunum fækkað úr sextán í átta.  Er Anatolij Serdjukov varð varnarmálaráðherra árið 2007 var herafli landsins endurskipulagður.  Þá voru breytingar gerðar á umgjörð hersvæðanna. Voru þau nú skipulögð líkt og bandarísk herstjórnarsvæði (e. unified combatant command) þar sem yfirmaður á hverju hersvæði hefur stjórn á flota, landher og flugher innan sinna marka.  Jafnframt var svæðunum fækkað í fjögur: Vesturhersvæðið, Miðhersvæðið, Austurhersvæðið og Suðurhersvæðið.

Í lok árs 2014 var Norðurslóðaherstjórninni (e. Arctic Joint Strategic Command) komið á fót.  Rússneski Norðurflotinn með höfuðstöðvar og heimahafnir við Kólaflóa við Barentshaf, var lykileining í þeirri herstjórn.  Með stofnun hennar vildu stjórnvöld í Kreml ítreka mikilvægi norðurslóða í vörnum landsins.

Hin nýja skipulagseining var reyndar sett skör lægra en hinar fjórar þ.e. hún var það sem á ensku kallast „command“ en ekki „district“.  Nú hefur þessu hins vegar verið breytt.  Á norsku vefsíðunni  Barents Observer kemur fram 8. júní að Valdimír Pútin Rússlandsforseti hafi 5. júní undirritað tilskipum þess efnis að frá og með 1. janúar 2021 sé Norðurflotinn sérstakt hersvæði og eru þau þá orðin alls fimm.

Þegar breytingarnar taka gildi munu nokkur héruð sem áður tilheyrðu Vesturhersvæðinu færast á ábyrgð Norðurflotans.  Þetta er í fyrsta sinn sem floti er skilgreindur sem hersvæði í Rússlandi og sýnir að mikilvægi svæðisins undir hann fellur, þ.e. Norður-Atlantshafs og Norður-Íshafs, hefur aukist á undanförnum misserum í augum stjórnvalda í Kreml.

Barents Observer segir að Pútín hafi gefið stjórn sinni frest fram í október til að leggja fram tillögur um hvernig skipulagi hersvæðanna fimm verði háttað.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …