Home / Fréttir / Útlendingamótmæli í Chemnitz í austurhluta Þýskalands

Útlendingamótmæli í Chemnitz í austurhluta Þýskalands

 

Loftmynd af mótmælendum í Chemnitz.
Loftmynd af mótmælendum í Chemnitz.

Þúsundir manna fóru um götur borgarinnar Chemnitz í austurhluta Þýskalands að kvöldi mánudags 27. ágúst og kröfðust þess að útlendingar yfirgæfu Þýskaland. Samtímis komu um 1.000 andmælendur mótmælanna saman í litlum garði og hvöttu „nasistana“ til að yfigefa borgina.

Allt fór friðsamlega fram í fyrstu enda hélt öflugt lögreglulið hópunum aðskildum og létu þeir háværustu meðal þeirra sér nægja að skiptast á ókvæðisorðum fyrir framan risavaxna styttu af Karli Marx sem trónir í Chemnitz. Hreyfing komst á hópana um kl. 21.00 og eftir það særðust sex manns af skoteldum og steinkasti sem fór á milli andstæðu fylkinganna. Að venju voru óeirðamenn með svartar hettur, hanska, andlitsgrímur og dökk gleraugu.

Brátt dró úr spennu á götum borgarinnar og nóttin var róleg að sögn lögreglu. Mótmælaaðgerðirnar hófust í Chemnitz snemma sunnudaginn 26. ágúst eftir að götuhátíð lauk að kvöldi laugardagsins 25. ágúst. Hörð orðasenna um kvöldið breyttist í átök þar sem 35 ára gamall karlmaður var stunginn. Þetta var Daniel H. 35 ára, hálfur Kúbani. Hann lést í sjúkrahúsi á sunnudeginum vegna margra hnífstungna. Sagt er að tveir aðrir hafi slasast í átökunum. Lögregla hefur 22 ára Íraka og 23 ára Sýrlending í haldi vegna morðsins.

Nokkrum klukkustundum seinna hófust almenn, sjálfsprottin mótmæli gegn útlendingum á götum Chemnitz.

Spenna lá í loftinu mánudaginn 27. ágúst á breiðstrætinu Brückenstrasse sem skiptir miðborginni. Kaupmönnum, af tyrkneskum og arabískum uppruna, var ráðlagt að loka verslunum sínum snemma dags þegar andstæðingar fylkingar tóku að myndast. Önnur var á vegum Die Linke, vinstri flokksins, arftaka austur-þýska kommúnistaflokksins. Hin á vegum hóps sem kallar sig Pro Chemnitz-hópinn og skipar hann sér langt til hægri. Harka hljóp síðan í leikinn.

Chemnitz er í þýska sambandslandinu Saxlandi. Lögregla Saxlands hefur gengið illa í glímunni við útlendinga-andstæðinga undanfarnar vikur. Þeir hafa látið verulega að sér kveða í höfuðborg Saxlands, Dresden, þar sem mótmæli gegn útlendingum hafa verið tíð.

Forystumenn flokksins Alternative für Deutschland (AfD), sem hefur stækkað ört landsvísu í Þýskalandi undanfarið vegna harðrar útlendingastefnu sinnar, reyndu að halda sér og flokknum frá því að fá á sig gagnrýni vegna óeirðanna í Chemnitz sunnudaginn 26. ágúst. Flokkurinn vildi auk þess ekkert vita af Pro Chemnitz mótmælunum 27. ágúst.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …