
Útlendingamál og hryðjuverk vekja Evrópubúum helst áhyggjur um þessar mundir, miklu meiri en staða efnahagsmála eða atvinnuleysi. Þetta er niðurstaða í nýrri könnun á vegum framkvæmdastjórnar ESB. Rúmlega 31.000 manns í 34 Evrópulöndum og svæðum tóku þátt í þessari vorkönnun 2016 á vegum Eurobarometer.
Um 48% töldu útlendingamál eitt annað helsta viðfangsefni ESB um þessar mundir. Hlutfallið hefur lækkað um 10 stig miðað við sambærilega könnun í desember 2015 þegar vandinn vegna flótta- og farandfólks var sem mestur.
Útlendingamál voru nefnd sem helsta viðfangsefnið í 20 ESB-ríkjum, 73% í Eistlandi, 71% í Danmörku, 67% í Lettlandi, Tékklandi og Ungverjalandi.
Hryðjuverk voru í öðru sæti sem höfuðviðfangsefni ESB og nefndu 39% svarenda þau. Þetta er 14 stigum hærra hlutfall miðað við könnun sem gerð var í nóvember 2016 um svipað leyti og þá voru unnin hryðjuverk í París.
Í öllum ESB-ríkjunum utan Grikklands voru hryðjuverk nefnd sem eitt helsta viðfangsefnið. Á Írlandi og Kýpur var hlutfallið 59%, í Rúmeníu 49%, í Króatíu 48% og í Lúxemborg 47%, í Frakklandi 39% og 35% í Belgíu.
Í vetrarkönnun 2015 hjá Eurobarometer voru útlendingamál og hryðjuverk þegar í efsta sæti. Í vetrarkönnuninni árið 2014 voru atvinnuleysi og staða efnahagsmála talin brýnustu verkefnin innan ESB.
Í vorkönnunni 2016 var einnig spurt um afstöðuna til ESB. Alls sögðust 34% (lækkun um 3 stig) hafa jákvæða afstöðu til ESB. Neikvæða afstöðu höfðu 27% (hækkun um 4 stig). Þeir sem höfðu ekki neina skoðun á ESB voru jafnmargir og áður 38%. Aðeins 33% báru traust til ESB, hækkun um eitt stig milli kannanna en samt sjö stigum minna traust en fyrir einu ári.