Home / Fréttir / Útilokun Svía kann að spilla norrænu samstarfi

Útilokun Svía kann að spilla norrænu samstarfi

Ann Linde, utanríkisráðherra Svía.
Ann Linde, utanríkisráðherra Svía.

Stjórnvöld í Noregi og Danmörku opna landamæri sín gagnvart nágrannaríkjum en þó ekki Svíþjóð. Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir að ákvarðanirnar geti skapað djúp sár og skaðað norrænt samstarf.

„Þau [stjórnvöldin] verða að taka þær ákvarðanir sem þau telja að séu til að vernda borgara sína. Það er staðreynd að útbreiðslan [á COVID-19-veirunni] hefur verið mun mildari hjá þeim en okkur. Við höfum bent á að þróunin er mjög svæðisbundin hjá okkur. Í landamærahéruðum er ástandið alls ekki eins og í Stokkhólmi,“ segir Ann Linde við sænska blaðið Dagens Nyheter.

„Í Kaupmannahöfn hafa til dæmis fleiri dáið en á Skáni [syðsta hluta Svíþjóðar]. Beri maður þetta saman má segja að á Skáni hefur gengið vel en í Kaupmannahöfn illa,“ segir Linde og minnir á að Svíar leyfi Dönum að koma til sín en þeir banni Skánarbúum að koma til Danmerkur.

Nú óttast sænski utanríkisráðherrann að með því að halda Svíum fyrir utan kunni að skapast varanleg sár.

„Ég er óróleg yfir að áhrifin verði neikvæð á norrænt samstarf, einkum í landamærahéruðunum,“ segir sænski utanríkisráðherrann við Dagens Nyheter.

„Á mörgum svæðum hafa menn átt samstarf síðan á sjötta áratugnum. Allt í einu hleypur mönnum kapp í kinn og til verða hörkulegar tilfinningar í milli fólks sem í raun hefur ekki búið við nein landamæri sín á milli. Innra með mér er einlægur ótti við hver áhrifin verða,“ segir Linde.

Hún hefur sérstakar áhyggjur af þeim sem sækja vinnu yfir landamærin, af samstarfi í heilbrigðismálum og atvinnumálum sem reisrt er á opnum landamærum og ferðafrelsi.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …