Home / Fréttir / Utanríkisráðherrar Þýskalands og Rússlands vilja virkja samstarfsráð Rússa og NATO meira

Utanríkisráðherrar Þýskalands og Rússlands vilja virkja samstarfsráð Rússa og NATO meira

 

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi 15. ágúst 2016.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi 15. ágúst 2016.

, utanríkisráðherra Þýskalands, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hittust í rússnesku borginni Jekaterinburg mánudaginn 15. ágúst. Segir Steinmeier mikilvægt að fulltrúar ríkjanna ræði saman þótt þá greini á um ýmislegt. Á fundinum ræddu þeir einkum um deilur Rússa og Úkraínumanna og ástandið í Sýrlandi.

Á blaðamannafundi eftr fundinn staðfestu ráðherrarnir að þeir vildu framfylgja friðarsamkomulaginu sem kennt er við Minsk og snýst um friðsamlega lausn deilumála Rússa og Úkraínumanna.

Lavrov sagði að rússnesk stjórnvöld gætu lagt fram „óhrekjanlegar“ sannanir fyrir því að Úkraínumenn hefðu gert áætlun um hryðjuverk á Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014. Þau myndu þó ekki grípa til „þess örþrifaráðs“ að slíta stjórnmálasambandi við Úkraínustjórn vegna atviksins.

Úkraínumenn neita alfarið að hafa nokkra vitneskju um áform af því tagi sem Rússar lýsa.

„Okkur hefur ekki tekist að eyða ágreiningi í samskiptum okkar,· sagði Steinmeier í frétt rússnesku fréttastofunnar TASS fyrir fund hans með Lavrov. „Þjóðverjar og Rússar eiga þó ekki að snúa baki hvor við öðrum heldur halda áfram að ræða saman.“

Taldi hann líklegt að samskipti Rússa og ESB ykjust á næstu árum.

„Margir vænta þess að stjórnmálasamskipti Rússa og ESB batni á næstu árum. Ég er í þeim hópi,“ sagði ráðherrann.

Hann hvatti einnig til þess að samstarfsráð Rússlands og NATO yrði notað til að ræða erfið viðfangsefni líðandi stundar. Mikilvægi samstarfsráðsins hefði verið áréttað á leiðtogafundi NATO í Varsjá í byrjun júlí.

Steinmeier sagði að ekki mætti hjá líða að nýta pólitísk ákvæði Minsk-samkomulagsins um frið milli Rússa og Úkraínumanna. Taldi hann góðs viti að hvorki Rússar né Úkraínumenn hvettu til hertra aðgerða þrátt fyrir nýleg ófriðsamleg atvik á Krím-skaga. Taldi hann það sýna að aðilar vildu virða Minsk-samkomulagið. Mikilvægt væri að huga að framkvæmd ákvæða samkomulagsins um héraðskosningar, sakaruppgjöf og sérstaka stöðu héraðanna í austurhluta Úkraínu. Þetta kallaði allt á viðræður við Rússa.

Rússneska Sputnik-fréttastofan hafði mánudaginn 15. ágúst eftir Sergei Lavrov að Rússar hefðu kagt fram sérgreindar tillögur á síðasta fundi samstarfsráðs Rússa og NATO um leiðir til að endurvekja samstarf í hermálum milli aðilanna að ráðinu.

Lavrov taldi að í Evrópu saknaði almenningur tillagna um nýjar leiðir til að skapa að nýju góða samvinnu við Rússa. Rússnesk stjórnvöld fengju ábendingar um þetta frá almenningi, fræðimönnum, kaupsýslumönnum og auk þess mörgum stjórnmálamönnum.

Lavrov lagði áherslu á að hugmyndafræðilegar deilur stæðu ekki í vegi fyrir samstarfi á sviði viðskipta og nefndi sérstaklega nauðsyn þess að vinna að framgangi Nord Stream 2 gasleiðslunnar frá Rússlandi um Eystrasalt til Þýskaland. Leiðslan félli að framþróun gasleiðslukerfisins innan ESB. Markmiðið með nýju leiðslunni er að skapa nýja gas-flutningsleið frá Rússlandi til Þýskalands fram hjá Úkraínu.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …