Home / Fréttir / Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna ræða kostnaðarskiptingu, hryðjuverkabaráttu og afstöðu til Rússa

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna ræða kostnaðarskiptingu, hryðjuverkabaráttu og afstöðu til Rússa

Fjölskyldumynd af ráðherrafundi NATO 31. mars 2017.
Fjölskyldumynd af ráðherrafundi NATO 31. mars 2017.

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hittust á fundi í Brussel föstudaginn 31. mars og ræddu meðal annars um sanngjarnari skiptingu kostnaðar innan bandalagsins, viðbrögð NATO við hryðjuverkum og sameiginlega afstöðu til Rússa.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, gerði fréttamönnum grein fyrir fundinum að honum loknum og sagði meðal annars að útgjöld evrópskra aðildarríkja og Kanada til varnarmála hefðu aukist um 10 milljarða dollara á árinu 2016. Hann sagði að bandalagsríkin yrðu að halda áfram á sömu braut.

Stoltenberg sagði að á fundinum hefði einnig verið mikið rætt um hvernig nýta mætti samstarfið innan NATO í baráttunni við hryðjuverkamenn og hvernig bandalagið gæti stuðlað að stöðugleika utan varnarsvæðis síns. Framkvæmdastjórinn sagði að bandalagið byggi yfir afli til að gera meira á þessu sviði. Eitt besta ráð þess gegn hryðjuverkum væri að þjálfa hermenn á heimavelli þeirra.

NATO stendur enn að þjálfun og aðstoð í Afganistan og leggur heimamönnum í Írak einnig lið við þjálfun hermanna svo að þeir geti betur glímt við Daesh (Ríki íslams), þar á meðal með því að þjálfa þá í að eyða heimatilbúnum sprengjum. Þegar Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, flutti ræðu í Norræna húsinu 8. mars sl. lagði hún áherslu á mikilvægt framlag Landhelgisgæslu Íslands við sprengjuleit og eyðingu á sprengjum.

Stoltenberg sagði að bandalagið mundi auka þjálfunarverkefni sín í Írak með því að láta að sér kveða við herlækningar og þjálfa fólk til að halda við skriðdrekum og bryndrekum.

Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í Vestur-Balkanlöndunum og sagði Stoltenberg að aðild Svartfjallands að NATO mundi stuðla að stöðugleika á svæðinu.

Framkvæmdastjóri ESB í utanríkis- og öryggismálum og utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar tóku þátt í fundinum til að ræða afstöðu NATO til Rússa: öflugar varnir samhliða viðræðum.

Ráðherrafundinum lauk með því að efnt var til fundar í samráðsnefnd NATO og Úkraínu og rætt um öflugan pólitískan og annan stuðning NATO-ríkjanna við Úkarínu.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um fundinn segir:

„Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu í dag um sameiginlegan varnarviðbúnað, aðgerðir til að stuðla að stöðugleika, aukin framlög til varnarmála og stöðuna í Úkraínu.

„Það var mikill samhljómur á fundinum og ljóst bandalagið er og verður hornsteinn í samstarfi lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem sótti fundinn. „Nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, var skýr í þessa veru og hvatti jafnframt önnur ríki til að leggja meira að mörkum. Ísland hefur aukið framlög sín til varnarmála og þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins og við munum halda áfram á sömu braut,“ segir Guðlaugur.

Ráðherrarnir ræddu eflingu sameiginlegs varnarviðbúnað og viðnámsþols gagnvart nýjum öryggisáskorunum. Sérstök áhersla hefur verið á að efla hefðbundnar varnir og viðveru bandalagins í austanverðri Evrópu, en jafnframt var samstaða um að leita leiða til að draga úr spennu, auka gagnsæi og traust í samskiptum við Rússland.

Á fundinum var ennfremur rætt um mikilvægi þess að bandalagið efli stuðning við samstarfsríki til að gera þeim betur kleift að tryggja öryggi eigin borgara. Ráðherrarnir ræddu í því samhengi stuðning við ríki í Miðausturlöndum og Miðjarðarhaf, aukið eftirlit á því hafsvæði og framlag bandalagsins til baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Ráðherrafundinum lauk með fundi NATO-Úkraínunefndarinnar þar sem rætt var um átökin í Austur-Úkraínu, stöðu Minsk-samkomulagsins og umbótastarf stjórnvalda.

Þá átti utanríkisráðherra fund með Péter Szijjartó, utanríkisráðherra Ungverjalands, þar sem Atlantshafstengslin, öryggismál og loftrýmisgæsla á Íslandi voru meðal umræðuefna, auk samstarfs um jarðhita“.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …