Home / Fréttir / Utanríkisráðherrar Litháens og Póllands vara ESB-ráðamenn við jákvæðni í garð Rússa

Utanríkisráðherrar Litháens og Póllands vara ESB-ráðamenn við jákvæðni í garð Rússa

Fánar Litháens og Póllands.
Fánar Litháens og Póllands.

Utanríkisráðherrar Litháens og Póllands, Linas Linkevicius og Witold Waszczykowski, hafa ritað bréf til Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra ESB, og lýst áhyggjum yfir hve emmbættismenn ESB senda jákvæð skilaboð til ráðamanna í Moskvu.

Í bréfinu segir að þeir sjái engin merki þess að ESB geti aukið viðskipatengsl sín við Rússland og efnahagsbandalagið sem Rússar hafa stofnað Eurasian Economic Union (EEU).

„Við erum undrandi og áhyggjufullir yfir nýlegum skilaboðum til Rússa sem gefa til kynna of jákvæðar framtíðarhorfur og fela í sér jákvæð viðhorf án minnstu skírskotunar til aðstæðna,“ segja ráðherrarnir í bréfinu.

Ráðherrarnir leggja áherslu á að samskiptin við Rússa eigi að ráðast af stefnu stjórnar Rússlands inn á við og út á við en þar sjáist „enn sem komið er engin merki um nauðsynlegar breytingar“ þvert á móti leggi ráðamenn í Moskvu auknar hömlur á ESB-ríki.

Við þessar aðstæður sé ekki við því að búast að efla megi tvíhliða efnahagstengsl við Rússland og EEU. Það beri að varast að senda „bjartsýn og hvetjandi skilaboð“.

Bréfið var sent eftir að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, skýrði Vladimír Pútín Rússlandsforseta frá því að hann hefði falið embættismönnum framkvæmdastjórnarinnar að kanna leiðir til að efla samstarf ESB og EEU.

Juncker sendi þessi boð fyrir um mánuði. Utanríkisráðherrar Litháens og Póllands segja í bréfi sínu að óeðlilegt sé í senn að senda svona boð og þá sérstaklega til Pútíns þar sem formennska í EEU sé um þessar mundir í höndum Hvít-Rússa.

Heimild: Baltic Times

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …