
Tvisvar með 10 daga millibili hafa rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F) flogið í áttina að íslenskri lofthelgi. Ítalskar öryggisþotur við NATO-loftrýmisgæslu á Keflavíkurflugvelli flugu í veg fyrir rússnesku sprengjuvélarnar.
Hér birtast fréttatilkynningar íslenskra yfirvalda vegna komu rússnesku vélanna. Einnig er birt tilkynning um framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Fimmtudagur 28. mars 2019
MIKILVÆG GÆSLA
Tvær ítalskar orrustuþotur, sem eru á Íslandi við loftrýmisgæslu, voru í gærkvöld sendar á loft til að auðkenna tvær óþekktar flugvélar sem komnar voru inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land.
Um var að ræða tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F). Þær höfðu hvorki tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi. Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem rússneskar sprengjuflugvélar fljúga inn fyrir mörk loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins við Ísland.
„Það er til marks um vaxandi hernaðarumsvif Rússa við Ísland að rússneskar herflugvélar hafa í þessum mánuði flogið tvisvar inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land. Þetta atvik kemur upp þegar ítalski flugherinn er á Íslandi við loftrýmisgæslu, öll viðbrögð hans voru í fyllsta samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins. Atvikið staðfestir enn einu sinni mikilvægi loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu hér á landi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom hingað til lands fyrir nokkru. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.
Mánudagur 25. mars 2019.
ÚTBOÐUM LOKIÐ Á ÖRYGGISSVÆÐINU
Útboðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er lokið og er búist við að þær hefjist á næstunni. Um er að ræða fyrstu framkvæmdir á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi síðan varnarliðið hætti starfsemi haustið 2006.
Undir lok síðasta árs voru undirritaðir verksamningar milli bandaríska sjóhersins og bandaríska verktakans Rizzani DE Eccher um tvenns konar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Annars vegar er um að ræða viðhald og breytingar á flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli, hins vegar byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar við flugskýli 831. Framkvæmdunum er ætlað að bæta aðstöðuna fyrir kafbátaeftirlitsflugvélar Atlantshafsbandalagsþjóðanna. Þá hefur verið undirritaður verksamningur milli bandaríska sjóhersins og ÍAV um viðhald og endurbætur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Heildarfjárhæð verksamninganna þriggja er 25.250.000 Bandaríkjadalir eða rétt tæpir þrír milljarðar króna. Bandaríska varnarmálaráðuneytið stendur straum af kostnaði við framkvæmdirnar.
Helstu verkþættir sem snúa að viðhaldi og breytingum á flugskýli 831 eru breytingar á hurðarbúnaði, eldvarnarkerfum og styrking á gólfi þannig að hægt verði að taka inn í skýlið nýjar tegundir kafbátaeftirlitsflugvéla Atlantshafsbandalagsþjóðanna, P-8 Poseidon. Í tengslum við þvottastöðina þarf að setja upp frárennsliskerfi og hreinsunarbúnað. Samanlagt tilboð Rizzani DE Eccher í þessi tvö verkefni hljóðar upp á 13.750.000 Bandaríkjadali, um 1,6 milljarða króna. Viðhaldsverkefni ÍAV á öryggissvæðinu taka til endurbóta á flugvélastæðum, akstursbrautum flugvéla og ljósakerfum fyrir flugvélastæði og akstursbrautir flugvéla. Áætlaður kostnaður er 11.500.000 Bandaríkjadalir, jafnvirði tæpra 1,4 milljarða króna.
Verkefnin voru auglýst á Íslandi og í Bandaríkjunum í fyrra. Um er að ræða fyrstu framkvæmdir á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi í að minnsta kosti 12 ár eða síðan varnarliðið hvarf af landi brott haustið 2006. Búist er við að framkvæmdir hefjist á næstunni og taki um tvö ár.

Mánudagur 18. mars 2019
ÓÞEKKTAR VÉLAR
Í morgun komu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land tvær óþekktar flugvélar sem hvorki höfðu tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi. Í samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins flugu tvær orrustuþotur ítalska flughersins, sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu, til móts við vélarnar til að auðkenna þær.
Þarna reyndust á ferðinni tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F). Flugvélarnar voru innan loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins en utan íslenskrar lofthelgi. Rússneskar herflugvélar flugu síðast inn á loftrýmiseftirlitssvæðið í desember 2018 en eru oft á ferð undan ströndum Noregs.
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom nýverið hingað til lands. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.