Home / Fréttir / Utanríkisráðherra Tékklands um heimildir Úkraínumanna til árása á Rússland

Utanríkisráðherra Tékklands um heimildir Úkraínumanna til árása á Rússland

Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands, á utanríkisráðherrafundi NATO í Prag 30. maí 2024.

Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands, sagði fimmtudaginn 30. maí að afstaðan meðal bandamannanna innan NATO væri að breytast í átt til þess að leyfa Úkraínustjórn að nota vestræn vopn til árása á hernaðarleg skotmörk í Rússlandi.

Utanríkisráðherrann sagði þetta þegar hann hitti blaðamenn í Prag í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO-ríkjanna þar. Sagði hann að menn hefðu vaxandi trú á því að gefa ætti Úkraínuher færi á að eyðileggja rússneskar sprengjuvélar áður en þær hæfu sig til flugs til árása á borgir í Úkraínu.

Ráðherrann taldi ástæðulaust að óttast að ákvörðun um rýmri heimildir til að beita vestrænum vopnum leiddi til þess að hernaðarátök yrðu utan landamæra Úkraínu. Lipvasky sagði:

„Boðskapurinn er einfaldur. Flugvélin flytur skotflaugar, það er best að hún komist alls ekki á loft. Geri hún það er best að skjóta hana niður frekar en reyna að skjóta flaugar hennar niður á lofti yfir Úkraínu.

Við verðum að hugsa rökrétt og nýta einnig alþjóðalög og sáttmála SÞ þar sem skýrt er tekið fram að ríki geti gripið til varna gegn árásum.

Ég hef skilning á áhyggjuröddum, skilning á því að til eru vopnakerfi sem beita má [til árása] í mikilli fjarlægð. Þetta er umræðuefnið en mér finnst að viðhorfið sé að breytast á alþjóðavettvangi.“

Þegar utanríkisráðherrann var spurður um hótanir rússneskra stjórnvalda um gagnaðgerðir svaraði hann:

„Rússar hafa gripið til stigmögnunar. Þetta hefur Pútín gert eftir innsetninguna í forsetaembættið, honum er þetta kappsmál. Hann hóf sókn gegn Kharkiv. Við sjáum ögranirnar við ána Narva, tilraunir til skemmdarverka, sumar þeirra heppnast, á yfirráðasvæði Pólverja og Breta.

Ég er viss um að við munum sjá meiri stigmögnun, við verðum því hvað eftir annað að sýna óttaleysi og að okkur sé mikil alvara í þeim ásetningi að verjast.“

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …