Home / Fréttir / Utanríkisráðherra ræddi ný viðhorf í öryggismálum á fundi SIPRI

Utanríkisráðherra ræddi ný viðhorf í öryggismálum á fundi SIPRI

 

 

Dan Smith, forstjóri SIPRI, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Dan Smith, forstjóri SIPRI, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands flutti Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, erindi  í Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnuninni í Stokkhólmi (SIPRI) fimmtudaginn 18. janúar. Ráðherra gerði grein fyrir þeim breytingum sem orðið hefðu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi á undanförnum árum með vaxandi umferð rússneskra herflugvéla og kafbáta, sem og viðbrögðum Atlantshafsbandalagsins. 

Í erindinu velti utanríkisráðherra fyrir sér hvert gæti verið tilefni þess að Rússar ykju hernaðarumsvif sín á norðurslóðum, hvers vegna ýmislegt af herbúnaði þeirra virtist frekar til sóknar en varna, til dæmis bardagasveitir í stórfylki þar á meðal fallhlífaherdeild. 

Hann sagði að undanfarin tvö ár hefði ferðum langdrægra rússneskra sprengjuvéla fækkað lítillega í nágrenni Íslands en hins vegar hefði ferðum kafbáta fjölgað umtalsvert. Fleiri kafbátar og af nýjum, háþróuðum færu nú um GIUK-hliðið en áður, það er milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Þeir gætu rofið siglingaleiðir yfir Norður-Atlantshaf en einnig sent stýriflaugar á meginland Norður-Ameríku. Eftir að kalda stríðinu lauk hefðu NATO-ríkin litið á sérhæfingu í kafbátavörnum skipta næsta litlu máli eins og sæist til dæmis af því að Bretar hefðu lagt gömlum kafbátaleitarvélum sínum án þess að eignast nýjar. Nú leggi ríki hart að sér til að eignast slíkan búnað og þjálfa menn til að nýta hann. 

Utanríkisráðherra sagði að merki um þetta mætti sjá á Keflavíkurflugvelli. Flotaeftirlitsvélar á vegum NATO hefðu verið 21 dag við flug þaðan árið 2014 en árið 2017 hefðu dagarnir verið 153. Þá hefði Bandaríkjaþing samþykkt fjárveitingar til endurnýjar á aðstöðu fyrir eftirlitsflugvélar á flugvellinum. Norðmenn og Bretar myndu leggja meira til eftirlitsins þegar þeir fengju nýjar P-8-vélar sínar. Utanríkisráðherra áréttaði og til að koma í veg fyrir nokkurn misskilning að enginn hefði í hyggju að um yrði að ræða varanlega viðveru herafla í landinu. 

Hann minnti á að árið 2002 hefði Atlantshafsherstjórn NATO verið aflögð en nú væri unnið að því að koma á fót nýrri NATO-herstjórn til að gæta öryggis á Norður-Atlantshafi. 

Hann sagði íslensk stjórnvöld fagna auknu samstarfi Norðurlanda í varnarmálum undir merkjum NORDEFCO þar sem þeir ættu samleið með Svíum og Finnum. Minnti hann á komu sænskra og finnskra orrustuvéla til æfinga samhliða NATO-vélum við loftrýmisgæslu á Íslandi árið 2014. Þetta framtak væri mikils metið. Innan NATO styddu Íslendingar eindregið að tengslin við Svía og Finna yrðu efld.  

„Þótt óveðursský séu við sjónadeildarhring alþjóðamála eru margar ástæður til bjartsýni varðandi almennar horfur á norðurslóðum. Þar er traustvekjandi að verða vitni að hratt vaxandi pólitískum samskiptum og hagnýtri samvinnu. Norðurskautssvæðið er stærsta ósnerta víðáttan á hnettinum og þar eru afleiðingar loftslagsbreytinga sýnilegastar. Þetta viðkvæma svæði eru heimaslóðir 4 milljóna íbúa sem eiga rétt á sama öryggi og velmegun og aðrir, og virða þarf hagsmuni þeirra,“ sagði Guðlaugur Þór. Norðurskautsráðið gegndi lykilhlutverki í þessu samhengi og þegar Ísland tæki þar við formennsku árið 2019 yrði lögð áhersla á að viðhalda stöðu þess sem helsta vettvangs til alþjóðlegrar umfjöllunar um málefni norðurslóða. Um leið og gætt yrði réttinda aðildarríkjanna styddi Ísland aukna þátttöku áheyrnaraðila og annarra samstarfsaðila, ekki síst frumbyggja. 

„Öll aðildarríki Norðurskautsráðsins eiga mikla hagsmuni í velgengni og árangri þess. Þess vegna hefur tekist að einangra þennan vettvang frá ágreiningi á öðrum sviðum. Ísland styður svæðisbundið samstarf í Norður-Evrópu og við viljum að norðurslóðir verði áfram svæði stöðugleika og samvinnu. Hánorður en lágspenna,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …