
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í ræðu á fundi Varðbergs að í störfum sínum sem ráðherra ætla að leggja áherslu á öryggis- og varnarmál. Ráðherrann lýsti nýrri sókn Rússa út á Norður-Atlantshaf til varnar vígi langdrægra kjarnorkukafbáta þeirra í Barentshafi. Þá rakti hann viðbrögð innan NATO og aðild Íslendinga að þeim auk aukinna umsvifa flota NATO-ríkjanna á hafsvæðunum umhverfis Ísland.
Utanríkisráðherra sagði í svari við fyrirspurn fundarmanns að í ljósi breyttra aðstæðna væri nauðsynlegt að auka umræður um þessi mál á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Ekki yrði undan því vikist að laga stefnu Íslands að breyttum aðstæðum enda væri landið „vitanlega hluti af hinu breytta og flókna öryggisumhverfi“ í okkar heimshluta.
Ráðherrann flutti erindi undir heitinu Þjóðaröryggi í nýju ljósi á fjölsóttum fundi Varðbergs í fyrirlestrarsal Þjóðminjafns í hádegi fimmtudaginn 1. júní. Erindið birtist í heild á öðrum stað hér á síðunni.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á að á því herrans ári 2017 væri lítið skjól í landfræðilegum fjarlægðum. Rússar hefðu með framferði sínu í Úkraínu, og raunar víðar sýnt vilja til að ná pólitískum markmiðum með valdbeitingu og hótunum um hana – og grafið undan öryggi og stöðugleika í Evrópu.
Um stöðuna á Norður-Atlantshafi og áhrifin af framferði Rússa þar sagði ráðherrann:
„Rússneski flotinn hefur í auknum mæli verið á kreiki á Norður Atlantshafi á síðustu árum – reyndar eftir langt tímabil þar sem hann var lítt eða ekki á ferð, hvorki herskip hans né kafbátar. Í endurnýjunaráætlun fyrir rússneska Norðurflotann hefur fengið forgang smíði kjarnorkuknúinna kafbáta sem bera eldflaugar með kjarnaodda sem draga heimsálfa á milli. Í þessum kafbátum Norðurflotans, sem haldið er úti í Barentshafi, er geymdur stór hluti kjarnorkuherafla Rússlands. Þannig hefur verið um langa hríð og norðurhöf tengjast áfram grundvallar öryggishagsmunum Rússlands. Auk þess að tryggja þetta vígi kafbátanna hefur einnig verið forgangshlutverk Norðurflotans að geta varið bækistöðvar hans á landi og flugvelli rússneska flughersins á Kolaskaga. Afl flotans í þessum efnum er vaxandi með tilkomu mun langdrægari stýriflauga en áður, sem skjóta má frá kafbátum, herskipum og flugvélum á skotmörk á sjó og landi.
Búast verður við að í stefnu Rússa sé miðað við að framvarnir eldflaugakafbáta í norðurhöfum geti náð suður í GIUK hliðið svonefnda. Það er herfræðilegt hugtak sem nær yfir hafsvæðin milli Grænlands og Íslands, Íslands og Færeyja og Færeyja og Bretlands. Eigi að senda kafbáta lengra út á Atlantshaf þurfa þeir auðvitað að fara um þetta hlið. Með aukinni umferð rússneskra kafbáta er nú horft til þess að geta, með kafbátaleitarflugvélum Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, í auknum mæli sinnt eftirliti á Norður Atlantshafi, þar á meðal í nágrenni Íslands yfir GIUK hliðinu og norðan við það.
Af þessum sökum hefur Bandaríkjafloti áhuga á takmarkaðri og tímabundinni viðveru kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli og á síðasta ári undirritaði forveri minn í starfi sameiginlega yfirlýsingu með varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þar er tekið mið af aukinni en tímabundinni viðveru Bandaríkjahers hér á landi, hvort heldur sem er í nafni loftrýmisgæslu eða kafbátaleit, auk þess sem gagnkvæmar skuldbindingar í samstarfi ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála eru áréttaðar á grundvelli varnarsamningsins. Vegna þessara auknu umsvifa eru fyrirhugaðar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem lúta meðal annars að breytingum á flugskýli og bættri aðstöðu fyrir kafbátarleitarvélar. Norður Atlantshaf og Ísland hefur öðlast aukið strategískt vægi á nýjan leik.“
Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi um breyttar áherslur innan NATO vegna nýrrar stöðu á Norður-Atlantshafi og sagði:
„Þetta er veruleikinn sem blasir og við Íslendingar skorumst vitanlega ekki undan ábyrgð. Við tökum þátt í samstöðuaðgerðum bandalagsins í Evrópu sem stofnað var til eftir atburðina í Úkraínu og leggjum þar til borgaralega sérfræðinga – og stefnum að því að fjölga þeim. Við leggjum sömuleiðis til fjármagn í sjóði á vegum bandalagsins sem nýtast meðal annars til jafnréttismála og þjálfunar í eyðingu sprengja. Í þessum málaflokkum höfum við umtalsverða sérfræðiþekkingu fram að færa sem nýst hefur bandalaginu vel. Við leggjum sömuleiðis til baráttunnar gegn hryðjuverkum þar sem Atlantshafsbandalagið hefur nú auknu hlutverki að gegna, ekki síst með miðlun upplýsinga og þjálfun. Einnig leggur Ísland til fjölþjóðaliðsins gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, einkum með framlögum til mannúðarmála.
Þá skiptir stuðningur við bandalagsríki okkar sem hafa viðkomu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli miklu máli og nauðsynlegt að til staðar sé sérþekking á umhverfi varnarmála hér á landi. Atlantshafsbandalagið heldur úti loftrýmisgæslu við Ísland þrisvar sinnum á ári og hafa alls 9 bandalagsríki staðið nærri 30 loftrýmisgæsluvaktir frá árinu 2008. Nú um stundir eru Kanadamenn við loftrýmisgæslu. Það er mikilvægt að bandalagið sýni flaggið hér í Norður-Atlantshafi með tímabundinni viðveru orustuflugvéla sem flogið geta í veg fyrir ókunn loftför og auðkennt ef þörf krefur. Þessi viðvera er einnig mikilvægt tækifæri fyrir okkur Íslendinga að æfa móttöku erlends liðsafla til landsins og tryggja að sú vél sé vel smurð.
Varnaræfingum hér við land fer einnig fjölgandi. Umfangsmikil kafbátaleitaræfing sem ber nafnið „Dynamic Mongoose“ mun fara fram á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja frá 23. júní nk. og þá er hafin skipulagning að þátttöku Íslands í viðamikilli varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Noregi og á Norður- Atlantshafi haustið 2018 og ber nafnið „Trident Juncture 2018“. Hin árlega æfing gegn hryðjuverkum „Northern Challenge“ sem haldin hefur verið hér á landi í um 15 ár samfleytt verður svo á sínum stað í haust.“