Home / Fréttir / Utanríkisráðherra: Ísland er hluti af breyttu og flóknu öryggisumhverfi

Utanríkisráðherra: Ísland er hluti af breyttu og flóknu öryggisumhverfi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur ræðu sína á fundi Varðbergs.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur ræðu sína á fundi Varðbergs.

Hér birtist í heild ræða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á hádegisfundi Varðbergs í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, 1. júní 2017.

Þjóðaröryggi í nýju ljósi

Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á því að þakka Varðbergi fyrir að standa fyrir þessum fundi um öryggis- og varnarmál. Ég hef lagt töluverða áherslu á þennan málaflokk í störfum mínum sem utanríkisráðherra og vill meina að við stöndum á ákveðnum tímamótum. Það er enn fremur mikilvægt að ræða um öryggis- og varnarmál án upphrópana og vil ég sérstaklega þakka Birni Bjarnasyni fyrir sín skrif og sitt framlag í þeim efnum í áranna rás.

Fyrir tíu dögum urðu söguleg tímamót þegar þjóðaröryggisráð Íslands kom saman í fyrsta skipti á grundvelli þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári. Í fyrsta skipti lýðveldissögunni erum við með tæki í höndunum þar sem horft er með heildstæðum hætti á öryggismál og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Þannig tekur þjóðaröryggisstefnan jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis sem er nauðsynlegt þar sem ógnir og áhættuþættir samtímans kalla á samvinnu og samspil þvert á hefðbundnari skilgreiningar innra og ytra öryggis. Ég bind miklar vonir við starf þjóðaröryggisráðs og framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar.

Hvað varnarstefnuna varðar, sem ég mun gera að megin umræðuefni í máli mínu hér í dag, tilgreinir þjóðaröryggisstefnan aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin frá 1951 áfram lykilstoðir í vörnum Íslands. Varnarmál þjóðarinnar hvíla því þar á traustum grunni og skýrum skuldbindingum. Þar hefur engin breyting orðið þótt forsendur kalda stríðsins séu löngu horfnar og rúmur áratugur liðinn frá því er varnarlið Bandaríkjanna fór af landi brott.

Þjóðaröryggisstefnan tilgreinir jafnframt hættuna af hryðjuverkum sem höggva orðið nærri okkur í tíma og rúmi – nú síðast í Manchester þar sem á þriðja tug manns lét lífið, mestmegnis ungmenni, að ógleymdri mannskæðri árás í Kabúl. Þá er til staðar ógn við tölvu og netöryggi eða frá blönduðum hernaði sem snýr að beinum eða óbeinum hernaðaraðgerðum ásamt undirróðri og áróðri af ýmsu tagi. Er þá ótalin ógnin af gereyðingarvopnum og öll fylgjumst við með stöðu mála á Kóreuskaga þessi misserin. Þá tilgreinir þjóðaröryggisstefnan norrænt varnarsamstarf sem hefur farið mjög vaxandi á umliðnum árum og fyrr á þessu ári undirritaði ég sameiginlega yfirlýsingu með varnarmálaráðherra Noregs um aukna samvinnu landanna á sviði varnarmála. Einnig kemur þjóðaröryggisstefnan inn á áhættuþætti eins og náttúruhamfarir og umhverfisslys á norðurslóðum sem gætu haft verulegar afleiðingar.

Ísland er vitanlega hluti af hinu breytta og flókna öryggisumhverfi. Það er lítið skjól í landfræðilegum fjarlægðum á því herrans ári 2017. Hvað samskiptin við Rússland varðar urðu þáttaskil í marsmánuði 2014 þegar landamærum í Úkraínu var breytt með hervaldi – atburður sem ekki á sér hliðstæðu í sögu Evrópu frá stríðslokum. Með framferði sínu í Úkraínu, og raunar víðar, hafa stjórnvöld í Rússlandi sýnt vilja til að ná pólitískum markmiðum með valdbeitingu og hótunum um hana – og grafið undan öryggi og stöðugleika í Evrópu.

Þessi vandi og erfið samskipti Vesturlanda við Rússland lúta ekki síst að þeirri stefnu Rússlandsstjórnar að fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna séu á rússnesku áhrifasvæði. Það liggur í hlutarins eðli að stefna um áhrifasvæði virðir hvorki alþjóðalög né samninga þegar svo ber undir.  Ríki sem er gert að beygja sig undir slíka stefnu fá ekki notið fullveldisréttar síns. Þeim leyfist ekki, frá sjónarhóli Kremlverja, að hegða sér með einhverjum þeim hætti sem stangast á við hagsmuni Rússlands að þeirra mati – þar á meðal að hafa náin tengsl við ríki eða stofnanir utan svæðisins. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið eru þar efst á blaði.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig stefna sem þessi misbýður okkur Íslendingum og bandamönnum okkar, og öllum sem er annt um frelsið. Slík stefna grefur auðvitað undan markmiðinu um sameinaða, frjálsa og friðsama Evrópu sem menn töldu sig eygja möguleika á eftir kalda stríðið. Enda er talað skýrt af okkar hálfu og Atlantshafsbandalagsins þegar kemur að stuðningi við fullveldi ríkja og að þau skuli njóta sjálfstæðis í utanríkis- og öryggismálum.

Auk framferðis Rússlands í Úkraínu og Georgíu og víðar hafa skyndiheræfingar og önnur hernaðarumsvif átt sér stað nálægt landamærum NATO ríkja, þar á meðal á Eystrasaltssvæðinu, Svartahafssvæðinu og austanverðu Miðjarðarhafi. Einnig hefur rússneskum herflugvélum verið flogið glannalega nálægt herskipum bandalagsríkja og inn fyrir lögsögu þeirra. Hér heima verðum við sömuleiðis vör við aukin hernaðarumsvif á norðanverðu Atlantshafi, ekki síst umferð rússneskra kafbáta og flugi langdrægra sprengjuflugvéla. Hernaðaríhlutun Rússa í Sýrlandi og stuðningur við Assad Sýrlandsforseta hefur auðvitað einnig haft neikvæð áhrif á samskipti Vesturlanda og Rússlands og aukið enn á erfiðleika í samskiptunum.

En þrátt fyrir mjög versnandi samskipti í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga og íhlutunar þeirra í Úkraínu hafa leiðtogar Vesturlanda forðast að kalla Rússland óvinaríki. Og þótt Atlantshafsbandalagið hafi að mestu fryst samskipti við Rússland eru bandalagsríkin reiðubúin til samtals. Bandalagið vill ekki nýtt kalt stríð eða nýtt vígbúnaðarkapphlaup í Evrópu og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að ræða við Rússland, en af festu, enda séu gagnkvæmir hagsmunir að minnka spennu í samskiptunum og tryggja betri sambúð. Þetta hefur komið skýrt fram á fundum mínum með utanríkisráðherrum og varnarmálaráðherrum Atlantshafsbandalagsins, og var enn áréttað á leiðtogafundinum í síðustu viku. Og sjálfur hef ég átt samtöl við utanríkisráðherra og forseta Rússlands í þessa veru.

Framferði Rússlandsstjórnar og vilji til að ná fram pólitískum markmiðum með valdbeitingu og hótunum felur á hinn bóginn í sér alvarlega áskorun fyrir Atlantshafsbandalagið sem það verður að bregðast við. Það hefur verið gert með því að sýna með staðföstum og yfirveguðum hætti fælingar- og varnarmátt gagnvart Rússlandi þar sem við á og einkum hefur þessi stefna birst á Eystrasaltssvæðinu þar sem viðbragðssveitir bandalagsins hafa verið settar á fót. Þótt Eystrasaltsríkin séu fyrrum Sovétlýðveldi eru þau ekki á áhrifasvæði Rússa, enda aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Það urðu þau árið 2004 þrátt fyrir andóf og óánægju rússneskra stjórnvalda og vegna eindregins stuðnings og baráttu ýmissa NATO ríkja fyrir aðild Eystrasaltsríkjanna. Ísland skipaði sér að sjálfsögðu í sveit með þeim bandalagsríkjum sem þar voru í fararbroddi. Enda var Ísland eitt fárra ríkja sem aldrei viðurkenndi hernám Eystrasaltsríkjanna og innlimun í Sovétríkin á sínum tíma og varð fyrst til að viðurkenna endurheimt frelsis þeirra og sjálfstæðis eins og öllum er kunnugt.

Kæru fundarmenn,

Líkt og fram kemur í greinargerð með þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er, sem betur fer, ólíklegt að hernaðarógn steðji að Íslandi. Byggir það mat meðal annars á greiningum Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar, eins og sömuleiðis kemur fram í greinargerðinni, er hernaðarógn af þeim toga að fullveldi og sjálfstæði þjóðar er stefnt í hættu og því þarf að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Sem herlaus þjóð gerum við það best með samningum við önnur ríki – í okkar tilviki með tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin og aðild að Atlantshafsbandalaginu, auk þess sem við verðum að gæta þess að innlendur viðbúnaður, líkt og stuðningur við erlenda heri, sé fyrir hendi. Þá þarf ávallt að meta stöðu og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglubundnum hætti og kveða lögin um þjóðaröryggisráð á um hlutverk ráðsins í þeim efnum. Ég tel að sýna þurfi ítrustu árvekni við mat á hernaðarógn og teldi rétt að þjóðaröryggisráð léti leggja nýtt mat á hana og aðra áhættuþætti.

Skiljanlega er aðallega horft til suðurs og austurs í þeim efnum en einnig hafa sjónir beinst að Norður Atlantshafi á nýjan leik. Í yfirlýsingu leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í fyrra er tekið fram að þar verði bandalagið tilbúið til að beita fælingar- og varnarmætti gegn hvers kyns hugsanlegri ógn, þar á meðal á siglingaleiðum og hafsvæðum í nágrenni NATO-ríkja. Í þessu samhengi muni bandalagsríkin styrkja flota sína enn frekar sem og árvekni, eftirlit og greiningu á stöðu mála á norðanverðu Atlantshafi.

Rússneski flotinn hefur í auknum mæli verið á kreiki á Norður Atlantshafi á síðustu árum – reyndar eftir langt tímabil þar sem hann var lítt eða ekki á ferð, hvorki herskip hans né kafbátar. Í endurnýjunaráætlun fyrir rússneska Norðurflotann hefur fengið forgang smíði kjarnorkuknúinna kafbáta sem bera eldflaugar með kjarnaodda sem draga heimsálfa á milli.  Í þessum kafbátum Norðurflotans, sem haldið er úti í Barentshafi, er geymdur stór hluti kjarnorkuherafla Rússlands. Þannig hefur verið um langa hríð og norðurhöf tengjast áfram grundvallar öryggishagsmunum Rússlands. Auk þess að tryggja þetta vígi kafbátanna hefur einnig verið forgangshlutverk Norðurflotans að geta varið bækistöðvar hans á landi og flugvelli rússneska flughersins á Kolaskaga.  Afl flotans í þessum efnum er vaxandi með tilkomu mun langdrægari stýriflauga en áður, sem skjóta má frá kafbátum, herskipum og flugvélum á skotmörk á sjó og landi.

Búast verður við að í stefnu Rússa sé miðað við að framvarnir eldflaugakafbáta í norðurhöfum geti náð suður í GIUK hliðið svonefnda. Það er herfræðilegt hugtak sem nær yfir hafsvæðin milli Grænlands og Íslands, Íslands og Færeyja og Færeyja og Bretlands. Eigi að senda kafbáta lengra út á Atlantshaf þurfa þeir auðvitað að fara um þetta hlið. Með aukinni umferð rússneskra kafbáta er nú horft til þess að geta, með kafbátaleitarflugvélum Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, í auknum mæli sinnt eftirliti á Norður Atlantshafi, þar á meðal í nágrenni Íslands yfir GIUK hliðinu og norðan við það.

Af þessum sökum hefur Bandaríkjafloti áhuga á takmarkaðri og tímabundinni viðveru kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli og á síðasta ári undirritaði forveri minn í starfi sameiginlega yfirlýsingu með varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þar er tekið mið af aukinni en tímabundinni viðveru Bandaríkjahers hér á landi, hvort heldur sem er í nafni loftrýmisgæslu eða kafbátaleit, auk þess sem gagnkvæmar skuldbindingar í samstarfi ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála eru áréttaðar á grundvelli varnarsamningsins. Vegna þessara auknu umsvifa eru fyrirhugaðar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem lúta meðal annars að breytingum á flugskýli og bættri aðstöðu fyrir kafbátarleitarvélar. Norður Atlantshaf og Ísland hefur öðlast aukið strategískt vægi á nýjan leik.

Kæru félagar,

En hvernig leggur Ísland sitt að mörkum í þágu eigin og sameiginlegra varna? Við augljóslega erum og verðum a herlaus þjóð – það er ein af grundvallarforsendum þjóðaröryggisstefnunnar. Það breytir ekki því að við höfum margt fram að færa og ber skylda til að leggja okkar að mörkum.

Á undanliðnum árum hafa framlög til öryggis- og varnarmála farið vaxandi og í aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku ákvað ríkisstjórnin að bæta enn frekar í, eða framlagi sem nemur rúmum 200 milljónum króna. Ekki er ætlast til að Ísland verji 2% af sinni vergri landsframleiðslu í þágu varnarmála (sem næmi um 48 milljörðum króna), enda höldum við ekki úti her sem bróðurpartur slíkra fjármuna rennur til í öðrum aðildarríkjum. Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins var skýr í þessa veru þegar við funduðum til hliðar við varnarmálaráðherrafund bandalagsins í febrúar sl. En krafan um aukin framlög fer vaxandi og nær ekki einungis til ríkja Atlantshafsbandalagsins. Þannig hafa til dæmis nágrannar okkar í Finnlandi og Svíþjóð verið að stórauka framlög sín til varnarmála og verja þeir síðarnefndu, sem kenna sig þó við hlutleysisstefnu, tæpum 6 milljörðum Bandaríkjadala. Og fara framlögin hækkandi.

Þetta er veruleikinn sem blasir og við Íslendingar skorumst vitanlega ekki undan ábyrgð. Við tökum þátt í samstöðuaðgerðum bandalagsins í Evrópu sem stofnað var til eftir atburðina í Úkraínu og leggjum þar til borgaralega sérfræðinga – og stefnum að því að fjölga þeim. Við leggjum sömuleiðis til fjármagn í sjóði á vegum bandalagsins sem nýtast meðal annars til jafnréttismála og þjálfunar í eyðingu sprengja. Í þessum málaflokkum höfum við umtalsverða sérfræðiþekkingu fram að færa sem nýst hefur bandalaginu vel. Við leggjum sömuleiðis til baráttunnar gegn hryðjuverkum þar sem Atlantshafsbandalagið hefur nú auknu hlutverki að gegna, ekki síst með miðlun upplýsinga og þjálfun. Einnig leggur Ísland til fjölþjóðaliðsins gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, einkum með framlögum til mannúðarmála.

Þá skiptir stuðningur við bandalagsríki okkar sem hafa viðkomu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli miklu máli og nauðsynlegt að til staðar sé sérþekking á umhverfi varnarmála hér á landi. Atlantshafsbandalagið heldur úti loftrýmisgæslu við Ísland þrisvar sinnum á ári og hafa alls 9 bandalagsríki staðið nærri 30 loftrýmisgæsluvaktir frá árinu 2008. Nú um stundir eru Kanadamenn við loftrýmisgæslu. Það er mikilvægt að bandalagið sýni flaggið hér í Norður-Atlantshafi með tímabundinni viðveru orustuflugvéla sem flogið geta í veg fyrir ókunn loftför og auðkennt ef þörf krefur. Þessi viðvera er einnig mikilvægt tækifæri fyrir okkur Íslendinga að æfa móttöku erlends liðsafla til landsins og tryggja að sú vél sé vel smurð.

Varnaræfingum hér við land fer einnig fjölgandi. Umfangsmikil kafbátaleitaræfing sem ber nafnið „Dynamic Mongoose“ mun fara fram á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja frá 23. júní nk. og þá er hafin skipulagning að þátttöku Íslands í viðamikilli varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Noregi og á Norður- Atlantshafi haustið 2018 og ber nafnið „Trident Juncture 2018“. Hin árlega æfing gegn hryðjuverkum „Northern Challenge“ sem haldin hefur verið hér á landi í um 15 ár samfleytt verður svo á sínum stað í haust.

Ég vil einnig geta þess að á vegum Atlantshafsbandalagsins er unnið að endurskoðun viðbragðs- og varnaráætlana er lúta að Norður- Atlantshafi og þær uppfærðar í samræmi við ríkjandi hættumat. Gagnsemi slíkra áætlana er augljós og rennir styrkari stoðum undir varnir landsins. Samhliða þessari vinnu mun ég beita mér fyrir því að gerð verði sérstök viðbragðs- og varnaráætlun fyrir Ísland sem tekur mið af þessum áætlunum með það að markmiði að framkvæmd varna á hættu- eða ófriðartímum fyrir Ísland verði skilvirk og markviss hvað varðar samskipti við erlendan herafla, stjórn og umfang. Mikilvægur þáttur í íslensku viðbragðs- og varnaráætluninni verður einnig að samræma aðkomu og hlutverk annarra ráðuneyta og stofnana er málið varðar við framkvæmd landvarna, svo og samskipti við þjóðaröryggisráð og utanríkismálanefnd Alþingis.

Þá vil ég nefna að nú stendur yfir endurskoðun á herstjórnarskipulagi bandalagsins í ljósi nýrra aðstæðna og hef ég lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að ný sjóherstjórn Atlantshafsbandalagsins sé í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem við blasa, en eins og sumir hér inni muna var sérstök sjóhersstjórn fyrir Atlantshafið (SACLANT) lögð niður árið 2003.

Góðir fundarmenn,

Við brottför varnarliðsins árið 2006 stóðu íslensk stjórnvöld andspænis mikilli áskorun. Sem herlaus þjóð höfum við vanist því í gegnum áratugi að aðrir sáu um framkvæmd landvarna og varnartengdra verkefna hér á landi. Í einni svipan þurftum við að taka að okkur rekstur á loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tryggja áframhaldandi rekstur mikilvægra varnarmannvirkja í landinu.

Það tókst meðal annars vegna þess að íslenskir starfsmenn voru þjálfaðir til starfa hjá Ratsjárstofnun sem þá hét og sinnti rekstri  loftvarnarkerfisins fyrir hönd varnarliðsins. Í dag er þessi starfsemi í höndum Landhelgisgæslu Íslands og gengur mjög vel. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það undirstrikar nauðsyn þess að við Íslendingar höfum ætíð á að skipa sérhæfðu starfsfólki sem hefur hæfni og getu til að taka þátt vörnum landsins.

Það er og verður brýnt að efla innviði stjórnkerfisins á sviði öryggis- og varnarmála. Við Íslendingar þurfum að hafa innan okkar raða sérþjálfaða einstaklinga sem hafa þekkingu og hæfni til að meta varnarhagsmuni þjóðarinnar út frá íslensku sjónarhorni og geta átt samskipti við erlenda hernaðarsérfræðinga þannig að málstaður og hagsmunir Íslands komast til skila á sannfærandi hátt. Innan utanríkisráðuneytisins er nú að störfum stýrihópur um framtíð utanríkisþjónustunnar sem hefur það meðal annars til skoðunar hvernig efla megi fyrirsvar Íslands að þessu leytinu til. Tillagna stýrihópsins er að vænta í sumarlok.

Sem fyrr segir fer Landhelgisgæsla Íslands með framkvæmd varnartengdra verkefna á Íslandi í umboði utanríkisráðherra og samkvæmt sérstöku samkomulagi frá árinu 2014 við innanríkisráðuneytið, nú dómsmálaráðuneytið. Þetta samstarf hefur verið farsælt og skilað þeim árangri að í dag er rekstur varnartengdra verkefna á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar og ratsjárstöðva úti á landi til mikillar fyrirmyndar. Vel hefur gengið að sækja stuðning til mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins í mikilvægar framkvæmdir á öryggissvæðinu en innan mannvirkjasjóðsins fer fram mikil hagsmunagæsla allra aðildarríkja. Hér áður sinntu Bandaríkin þessari hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd en með brottför varnarliðsins tók Ísland yfir þessar ábyrgðir – og hefur axlað þær.

Ágætu fundarmenn,

Ég hef reynt að draga hér upp þjóðaröryggi okkar í nýju ljósi – mynd af stöðu Íslands á ákveðnum óvissutímum í öryggis- og varnarmálum. Þjóðaröryggisstefnan horfir heildstætt á öryggishugtakið og þjóðaröryggisráðið verður okkur mikilvægur vettvangur til að samræma og samhæfa áherslur okkar og aðgerðir, og eins til að stuðla að aukinni vitund og umræðu um málefni er lúta að þjóðaröryggi.

Það er kallað eftir auknum framlögum til öryggis- og varnarmála og þátttöku og ábyrgð íslenskra stjórnvalda á eigin og sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að íslensk stjórnvöld séu að svara þessu kalli og það munum við áfram gera. Þakka ykkur fyrir.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …