
Halbe Zijlstra, utanríkisráðherra Hollands, viðurkenndi mánudaginn 12. febrúar, áður en hann hélt til fundar í Moskvu, að hann hefði sagt ósatt um þátttöku í umdeildum fundi með Vladimir Pútín, forseta Rússlands.
Zijlstra (49 ára) varð utanríkisráðherra í október 2017. Hann sagðist hafa hitt Pútín með fleirum á sveitasetri forsetans árið 2006 þegar hann starfaði fyrir olíufélagið Shell. Þar hefði Pútín látið í ljós þá skoðun að Hvíta-Rússland, Úkraína og Eystrasaltsríkin þrjú væru hluti „Stór-Rússlands“ og auk þess sagt: „Það væri gott að hafa Kazakhstan.“
Mánudaginn 12. febrúar sagði utanríkisráðherrann hins vegar dagblaðinu Volkskrant að í raun hefði hann ekki verið á fundinum. Starfsfélagi hans hefði verið þar og sagt sér þetta. Til að halda vernd yfir heimildarmanni sínum hefði hann nefnt sjálfan sig til sögunnar þegar hann vitnaði í orð forsetans um „Stór-Rússland“.
„Aðferð mín til að vernda heimildarmann minn og leggja áherslu á boðskap minn um Rússland var ekki skynsamleg, það er kristalltært,“ sagði hann.
Zjilstra hittir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í Moskvu þriðjudaginn 13. febrúar.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði að Zijlstra hefðu orðið á „stór mistök“ en hann hefði ekki skaðað trúverðugleika sinn. Forsætisráðherrann taldi þetta ekki skaða samband Hollendinga við Rússa: „Við vitum öll ósköp vel að efni tilvitnuninnar [í meint orð Pútíns] er rétt,“ sagði forsætisráðherrann.
Uppfært síðdegis þriðjudag 13. febrúar:
Halbe Zijlstra sagði af sér embætti utanríkisráðherra þriðjudaginn 13. febrúar. „Ég á engan annan kost í dag en að afhenda hans hátign konunginum lausnarbeiðni mína,“ sagði tárfellandi á þingi. „Þetta eru langmestu mistök sem mér hafa orðið á í starfi.“
Rússneska sendiráðið í Hollandi sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að framganga Zijlstras væri dæmi um „falsfréttir gegn landi okkar“. Ásakanir hans stæðust enga gagnrýni og þeim hefði einungis verið ætlað að breiða út ósannindi um áform Rússa. Hollenskir embættismenn gæfu í sífellu slíkar „rakalausar yfirlýsingar“.