Home / Fréttir / Utanríkisráðherra Finna segir Pútin ýja að notkun kjarnorkuvopna

Utanríkisráðherra Finna segir Pútin ýja að notkun kjarnorkuvopna

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna.

Græninginn Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna, sagði í YLE, finnska ríkisútvarpinu, laugardaginn 26. febrúar að Rússar kynnu að stigmagna stríðið í Úkraínu enn frekar og jafnvel verða reiðubúnir til að beita kjarnorkuvopnum.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti minnti umheiminn á að Rússar ættu kjarnorkuvopn í ávarpinu sem hann flutti áður en innrás Rússa hófst 24. febrúar.

„Þetta hefur víða verið túlkað á þann hátt að Rússar séu reiðbúnir að beita öllu sem þeir hafa yfir að ráða,“ sagði Haavisto. „Þar koma kjarnorkuvopn sannarlega til sögunnar. Þennan möguleika verður að hafa í huga. Rússneskir ráðamenn vísa stundum til Kúbudeilunnar, þar var um að ræða skotflaugar með kjarnaodda.“

Ráðherra sagðist trúa því að Finnar mundu leggja sitt af mörkum fjölgaði flóttamönnum frá Úkraníu.

Þegar rætt var við Haavisto um þá átyllu Pútins hann væri að afmá nazista í Úkraínu með innrásinni sagði utanríkisráðherrann „óvenjulegt“ að „kalla fólk eiturlyfjaneytendur og veifa nazista spjaldinu“.

NATO bauð Finnum föstudaginn 25. febrúar að deila með þeim háleynilegum hernaðarlegum upplýsingum. Haavisto vildi ekkert segja um hvort þetta bæri að túlka á þann veg að Finnar stæðu nær því en áður að ganga í NATO.

Utanríkisráðherrann vildi ekki heldur gera mikið úr tali um „afleiðingarnar“ ef Finnar gengju í NATO. Hann tók fram að enginn hótaði Finnum hernaðarlega. Hann benti hins vegar á að vegna innrásarinnar í Úkraínu óttuðust menn að nýtt járntjald hefði verið dregið í Evrópu. Rússar vildu bæði hafa Hvíta-Rússland og Úkraínu á valdi sínu.

„Við vorum bara færð nokkra áratugi til baka,“ sagði hann þegar rætt var um áform ráðamanna til að skapa Rússum áhrifasvæði að nýju.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …