Home / Fréttir / Utanríkisráðherra Austurríkis vill fara að fordæmi Ástrala í útlendingamálum

Utanríkisráðherra Austurríkis vill fara að fordæmi Ástrala í útlendingamálum

0,,18989676_303,00
Sebastian Kurz

 

Utanríkisráðherra Austurríkis leggur til að þeir sem leiti hælis innan ESB verði geymdir á Miðjarðarhafi utan landamæra ESB. Vill hann að farið sé að fordæmi Ástrala í þessu efni.

Sebastian Kurz (29 ára) utanríkisráðherra er úr Þjóðarflokknum, mið-hægriflokknum. Hann lét orð falla um þessa leið til að hefta komu flótta- og förufólks til Evrópu í viðtali við blaðið Die Presse sunnudaginn 5. júní.

Þeim sem reyna að komast á ólögmætan hátt til Ástralíu sjóleiðis er snúið til baka eða þeir eru fluttir í búðir á Kyrrahafseyjunum Nauru og Papúa nýju Gíneu þar sem þeir dveljast um ótakmarkaðan tíma á meðan farið er yfir umsóknir þeirra um hæli. Mannréttindahópar hafa gagnrýnt þessa aðferð Ástrala meðal annars með vísan til frásagna um nauðganir og sjálfsmorð meðal þeirra sem dveljast í búðunum.

„Það er að sjálfsögðu ekki unnt að fara í einu og öllu að eins og Ástralar gera en fylgja má sömu meginstefnu,“ sagði Kurz sem er yngsti ráðherra í Evrópu.

Hann minnti á að á fyrra helmingi 20. aldar hefði Bandaríkjastjórn haldið aðkomufólki á Ellis-eyju áður en það fékk að stíga á land í New York.

Þýska fréttastofan dw.de minnir á að á Ellis-eyju hafi verið skráningarstöð fyrir innflytjendur þar sem mál þúsunda nýrra aðkomumanna hafi verið afgreidd á degi hverjum. Innflytjendum var aðeins skipað að halda kyrru fyrir á eyjunni væru þeir taldir með smitsjúkdóm annars var þeim ekki meinuð för til Bandaríkjanna, þótt skilja mætti orð austurríska utanríkisráðherrans á þann veg.

Í samtalinu við Die Presse sagði Kurz einnig að ESB ætti að ákveða að þeir sem reyndu að komast ólöglega til Evrópu misstu réttinn til að sækja þar um hæli.

Ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins og Þjóðarflokksins situr við völd í Austurríki. Flokkarnir guldu afhroð í nýlegum forsetakosningum þar sem litlu munaði að fulltrúi Frelsisflokksins, flokks á móti komu flótta- og förufólks til Austurríkis, sigraði.

Árið 2015 fengu um 90.000 manns hæli í Austurríki. Nú hafa útlendingalög hins vegar verið hert og reynt hefur verið að loka leið ólöglegs aðkomufólks frá Grikklandi og Ítalíu.

Talið er að 204.000 flótta- og farandmenn hafi farið yfir Miðjarðarhaf til Evrópu frá því í ársbyrjun 2016. Rúmlega 2.500 manns hafa drukknað á þessum ferðum yfir hafið.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …