Home / Fréttir / Utanríkismálanefnd ESB-þingsins snýst til varnar gegn lygamiðlun og áróðri Kremlverja

Utanríkismálanefnd ESB-þingsins snýst til varnar gegn lygamiðlun og áróðri Kremlverja

Frá ESB-þinginu
Frá ESB-þinginu

Utanríkismálanefnd ESB-þingsins samþykkti mánudaginn 10. október að innan ESB yrðu menn að snúast til varnar gegn áróðursþrýstingi á ESB frá Rússlandi og hryðjuverkasamtökum íslamista. Ekki er hvatt til þess að snúist verði gegn þessu með áróðri af hálfu ESB heldur á jákvæðan hátt með því að auka árvekni og stuðla að uppfræðslu sem efli getu almennra borgara til að greina gildi og eðli upplýsinga.

Á ensku tala menn um strategic communication (strategíska miðlun) þegar fjallað er um dreifingu upplýsinga sem móta öryggi og varnir þjóða. Í ályktun þingnefndarinnar segir að ESB þurfi að herða aðgerðir sínar gegn miðlun lyga og rangfærslna og áróðurs frá löndum eins og Rússlandi og samtökum á borð við Daesh (Ríki íslams), Al-kaída og aðra öfgahópa stríðsmanna íslams.

„Við blasir að óvinveittum áróðri og lygamiðlun er beint gegn samfélögum okkar bæði frá Kreml og samtökum á borð við [Daesh]. Til að snúast skipulega gegn herferðum af þessu tagi verðum við fyrst að geta skilgreint þær á fullnægjandi hátt,“ sagði pólski ESB-þingmaðurinn, Anna Fotyga, framsögumaður nefndarinnar. „Með þessu nefndaráliti er stigið mjög mikilvægt skref til að vekja athygli á viðfangsefninu, bæði innan ESB í heild og í einstökum ríkjum. ESB-þingið getur ekki þagað um svo brýnt mál í þágu evrópsks öryggis.“

Í álitinu segir að það veki áhyggjur hve takmarkaðri athygli sé beint að því í sumum ESB-ríkjum að íbúar þeirra sitji undir áróðri og lygamiðlun. Starfsmenn fjölmiðla og sérfræðingar eru hvattir til að safna upplýsingum og staðreyndum um þessa áróðursstarfsemi.

Í fréttatilkynningu frá ESB-þinginu er sérstaklega vikið að því hve ákaft sé unnið að því að dreifa áróðri sem taki mið af hagsmunum Kremlverja, ráðamanna Rússlands. Í áliti utanríkismálanefndarinnar er bent á að ríkisstjórn Rússlands sæki fram á áróðursvettvangi með alls konar tólum og tækjum eins og hugveitum, fjöltungu sjónvarpsstöðvum (t.d. Russia Today) gervi fréttastofum, samfélagsmiðlum og útsendurum í netheimum. Þessi tæki séu notuð til að vega að lýðræðislegum gildum, sundra Evrópu, afla sér stuðnings innan einstakra landa og ala á þeirri skoðun að nágrannar ESB í austri búi við ónýtt stjórnskipulag.

Í álitinu segir einnig að hryðjuverkasamtök íslamista vinni markvisst að því að grafa undan evrópskum gildum og hagsmunum auk þess að ala á hatri í garð alls sem evrópskt er.

Utanríkismálanefnd ESB-þingsins hvetur til þess að samvinna ESB og NATO á sviði strategískrar miðlunar verði dýpkuð. NATO hefur komið á fót sérstakri miðstöð til að sinna verkefnum á þessu sviði í Lettlandi. Nefndin hvetur til þess að aðgerðahópur ESB á sviði strategískrar miðlunar verði efldur og fjölmiðlum í nágrannalöndum ESB verði lagt lið til að standast þann þrýsting sem þeir eru beittir.

Ályktun og álit utanríkismálanefndar ESB-þingsins um strategíska miðlun var samþykkt með 31 atkvæði gegn 1 en 14 sátu hjá. Ályktunin verður til afgreiðslu á ESB-þinginu í nóvember.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …