Home / Fréttir / Utanríkismál í Norðurlandaráði: Takmarkið að norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði

Utanríkismál í Norðurlandaráði: Takmarkið að norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði

arctics

Kristinn Haukur Guðnason skrifar eftirfarandi frétt í Fréttablaðið fimmtudaginn 29. október 2020

Ráðherrar Norðurlandanna funduðu í gær í tilefni af þingi Norðurlandaráðs. Skýrsla sem Björn Bjarnason vann fyrir Norrænu ráðherranefndina var rædd í þaula. Utanríkisráðherra segir alla á fundinum hafa verið sammála um ágæti skýrslunnar sem verður vonandi stefnumótandi plagg á næstu árum.

Utanríkis-, þróunar- og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna funduðu í gær í tilefni af þingi Norðurlandaráðs. Var þar meðal annars rætt um varnarmál í víðum skilningi, loftslagsmál, þróunarsamstarf og heimsfaraldurinn.

Hvað varnarmálin varðar var mikið rætt um skýrslu sem Norræna ráðherranefndin fól Birni Bjarnasyni að vinna á síðasta ári og var skilað í sumar. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir alla á fundinum hafa verið sammála um ágæti skýrslunnar enda liggi mikið samráð og 80 fundir víðs vegar um Norðurlönd að baki. Er hann vongóður um að skýrslan verði stefnumótandi plagg á komandi árum en Danir fá nú það hlutverk að greina tillögurnar og finna leiðir til að koma þeim í framkvæmd.

Er þar meðal annars rætt um loftslagsmálin, netöryggi og stigvaxandi spennu á norðurslóðum, vegna sóknar Rússa og Kínverja á svæðinu. Til að mynda hefur rússneskum kjarnorkukafbátum fjölgað í norðurhöfum. „Takmark Norðurlandanna er að halda norðurslóðum áfram lágspennusvæði eins og þær hafa verið. Þessi staða er ekki tilkomin af góðu og engin tilviljun að hér hafa verið stórar heræfingar Atlantshafsbandalagsins í samstarfi við Svía og Finna,“ segir Guðlaugur.

Þá séu menn einnig vakandi yfir opnun siglingaleiðarinnar norðan við Rússland. Er það 40 prósent stytting siglingaleiðarinnar milli Evrópu og Asíu. „Þetta er gjörbreytt staða og við þurfum að vera vakandi því þó að tækifæri felist í opnuninni fylgja henni einnig ógnir.“

Aðspurður um mikilvægi norræns varnarsamstarfs segir Guðlaugur það stigvaxandi. Hann segir það styrk að sum Norðurlöndin séu í Atlantshafsbandalaginu og önnur í Evrópusambandinu. „Þetta breikkar okkur og gerir okkur kleift að hafa áhrif víðar en ella. Í víðu samhengi hafa Norðurlöndin sömu hagsmuna að gæta í öryggis- og varnarmálum og mikill samhljómur um það,“ segir hann.

Guðlaugur segir að samstarf utanríkisráðherra Norðurlandanna hafi aldrei verið meira en núna vegna heimsfaraldursins, þó að flestir fundir fari fram rafrænt. „Samstarfið gekk einstaklega vel þegar kom að því að koma fólkinu okkar heim, þá unnu Norðurlöndin eins og einn maður,“ segir hann. „En það hafa vissulega komið upp hnökrar, sérstaklega þegar kom að lokun landanna í vor. Einnig þegar komið hefur að opnun á nýjan leik. Við tölum hreinskilnislega um það og lærum.“

Í gær var einnig rætt um Norræna þróunarsjóðinn sem verður efldur um 350 milljónir evra, eða tæplega 60 milljarða króna. Hlutur Íslands er 1,5 prósent sem gera tæplega 900 milljónir króna. Sjóðurinn veitir bæði styrki og lán til loftslagstengdra þróunarverkefna í fátækustu ríkjum Afríku, Asíu og Rómönsku-Ameríku.

Guðlaugur telur að samstarfið í sjóðnum muni efla Norræna samvinnu og styrkja Norðurlöndin á alþjóðasviðinu. „Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki til að styðja við endurreisn þróunarlanda vegna faraldursins og stuðlar að því að heimsmarkmiðum í loftslagsmálum verði náð,“ segir hann og nefnir til dæmis jarðhitaverkefni sem Íslendingar hafa komið að í Austur-Afríku. Þetta styðji því einnig við íslenskt atvinnulíf og íslensk fyrirtæki sem starfa á vettvangi loftslags og þróunarmála.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …