
Stjórnvöld í Færeyjum, Grænlandi og Danmörku rituðu 4. október 2021 undir samkomulag um samstarfsnefnd í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum sem hittist að minnsta kost einu sinni árlega. Nefndin tryggir Grænlendingum og Færeyingum meiri og formlegri aðild að utanríkis- og varnarmálum danska ríkjasambandsins.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, skýrði frá því á fundi með Múte B. Egede, formanni grænlensku landstjórnarinnar, Naalakkersuisut, og Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, í júní 2021 að tryggja ætti meira jafnræði í utanríkis- og öryggismálum innan ríkjasambandsins. Samstarfsnefndin sem var formlega stofnuð með undirrituninni um hana mánudaginn 4. október heitir Kontaktudvalget á dönsku og er hún skipuð ráðherrum frá löndunum þremur.
Nefndin kemur saman að minnsta kosti einu sinni á ári en oftar ef þurfa þykir. Þótt utanríkis-, öryggis- og varnarmál séu meginviðfangsefni nefndarinnar er heimilt að ræða þar önnur mál.
Múte Bourup Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar og talsmaður í utanríkismálum, segir við grænlenska ríkisútvarpið (KNR) að skipan nefndarinnar sé til marks um að áhugi sé á að styrkja samstarf landanna samhliða því sem lögð sé rækt við sérstaka hagsmuni þeirra innan ríkjasambandsins. Stjórnvöld landanna fái nú meira svigrúm til að láta að sér kveða út á við í þágu eigin hagsmuna.
Mette Frederiksen forsætisráðherra segir mikilvægt að efla samstarf landanna þriggja á þessum sviðum. Innan nefndarinnar og í tengslum við starf hennar verði skipst á upplýsingum og unnið að því að samræma viðhorf til utanríkis-, öryggis- og varnarmála sem snerta sérstaklega Færeyjar og Grænland.
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, segir nauðsynlegt að færa „ríkjasambandið í nútímalegt horf“. Vaxandi athygli beinist að öryggismálum á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum og þess vegna skipti þátttaka Færeyinga og Grænlendinga meira máli en áður. Þetta nýja skipulag á samstarfi landanna eigi eftir að verða gagnlegt fyrir þau öll.
Komið verður á fót sameiginlegri skrifstofu þar sem embættismenn landanna þriggja innan ríkjasambandsins undirbúa fundi nefndarinnar.
Heimild: KNR