Home / Fréttir / Úrsögn úr ESB ekki lengur stefna flokka lengst til hægri

Úrsögn úr ESB ekki lengur stefna flokka lengst til hægri

Kosið verður til ESB-þingsins 9. júní 2024. Því er spáð að flokkar sem skipa sér lengst til hægri nái góðum árangri í kosningunum. Flokkarnir hafa breytt um stefnu því að kosið var til þingsins árið 2019. Þá hvöttu þeir til þess að ríki segðu sig úr ESB. Nú beina þeir spjótum sínum gegn útlendingastefnu ESB og straumi innflytjenda í von um að tala til meginþorra kjósenda.

Hér er brugðið ljósi á stefnu þessara flokka í nokkrum löndum:

Ekkert Nexit

Hollenski frelsisflokkurinn (PVV) undir forystu Gerts Wilders vann góðan sigur í þingkosningum í Hollandi í nóvember 2023. Kannanir benda til að flokkurinn fái mest fylgi í Hollandi í ESB-þingkosningunum.

Í stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar í nóvember sagði afdráttarlaust: „PVV vill bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Nexit“ – Niðurlönd úr ESB – í stefnuskránni núna er ekkert orð um þetta.

Flokkurinn lýsir sig andvígan „evrópsku ofurríki“ en hann muni vinna gegn því innan ESB.

PVV fékk engan mann kjörinn í ESB-þingkosningunum 2019.

Ekkert Frexit

Forystumenn frönsku Þjóðarhreyfingarinnar (RN) sem fá nú mesta fylgi í skoðanakönnunum í Frakklandi tóku skýrt fram þegar þeir kynntu ESB-kosningastefnu sína í mars 2024 að þeir stefndu ekki að úrsögn úr ESB.

Jordan Bardella, leiðtogi RN, sagði fylgismenn Emmanuels Macrons forseta saka flokkinn um að vilja Frexit, þeir vildu komast til valda til að fara úr ESB. Hann benti hins vegar á að hugsjónabræður RN væru annaðhvort að bæta stöðu sína eða væru þegar í valdasætum og sagði: „Maður stendur ekki upp frá borðinu þegar maður er við það að vinna spilið.“

Bardella er 28 ára og tók við formennsku í flokknum af Marine Le Pen árið 2021. Hann er nú meðal vinsælustu stjórnmálamanna Frakklands.

Litið er á frönsku úrslitin í júní sem vísbendingu um hvað gerist í forsetakosningunum þar 2027 þegar Marine Le Pen, leiðtogi þingflokks RN, býður sig fram til forseta í fjórða sinn.

Dexit, kannski seinna

Alice Weidel, annar tveggja formanna Alternative für Deutschland (AfD), sagði í janúar 2024 að Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslan væri fordæmi sem Þjóðverjar ættu að fylgja í fjölmennasta ríki ESB.

Weidel sagði að flokkurinn, sem nú er annar vinsælasti flokkur landsins, vildi breyta stofnunum ESB til að minnka vald framkvæmdastjórnar ESB og takast á við það sem sagði lýðræðishalla innan ESB.

Yrði ekki orðið við tilmælum AfD um breytingar mætti „efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Dexit – úrsögn Þýskalands úr ESB,“ sagði hún.

Flokkurinn hafði áður lýst Dexit sem „lokaúrræði“.

Fixit, Swexit, Polexit

Finnaflokkurinn í Finnlandi sem höfðar einkum til karla með ESB-efasemdum sínum segir að Fixit sé „langtíma markmið“.

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókratanna (SD), og oddvitinn á ESB-lista flokksins, Charlie Weimers, sögðu í febrúar 2024: „Ef allt um þrýtur getur Svíþjóð farið á brott.“

Flokkurinn boðaði Swexit á sínum tíma en sagði skilið við þá stefnu árið 2019 vegna lítils áhuga almennings á úrsögn. Nú stendur flokkurinn að baki sænsku ríkisstjórninni.

Úrsögn Póllands, Polexit, er markmið jaðarflokka þar. Þeir njóta lítils stuðnings meðal kjósenda.

 

Heimild: The Local

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …