Home / Fréttir / Urmas Paet frá Eistlandi segir ESB-þingið nú í fyrsta sinn fjalla um hermál í skýrslu um norðurslóðir

Urmas Paet frá Eistlandi segir ESB-þingið nú í fyrsta sinn fjalla um hermál í skýrslu um norðurslóðir

Þessa mynd tók Eggert ljósmyndari Morgunblaðsins af Urmas Paet á fundinum í Safnahúsinu.
Þessa mynd tók Eggert ljósmyndari Morgunblaðsins af Urmas Paet á fundinum í Safnahúsinu.

Urmas Paet, ESB-þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra Eistlands, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs í Safnahúsinu fimmtudaginn 9. mars. Hann ræddi um stöðuna innan Evrópusambandsins á óvissutímum.

Í upphafi máls síns nefndi hann nokkur atriði sem hann sagði móta umræður um málefni Evrópu um þessar mundir. Fyrstu þrjú voru: Innra öryggi, þetta væri helsta áhyggjuefni almennings í öllum löndum ESB. Í öðru lagi, útlendingamál og hvernig taka ætti á þeim. Í þriðja lagi samskiptin við Rússa.

Urmas Paet hefur setið á ESB-þinginu síðan í nóvember 2014. Hann helgar sig utanríkis- og öryggismálum og situr í utanríkismálanefnd þingsins. Innan nefndarinnar hefur hann forystu um gerð álits um Varnarmálasamband Evrópu og norðurslóðastefnu ESB.

Hann sagði frá nýrri skýrslu um varnarmál. Það væri nauðsynlegt að samhæfa margt í varnarmálum ESB ríkjanna, bæta skipulag og auka samvinnu án þess að í því fælist að koma á fót Evrópuher. Að ná því markmiði, sem sumir hefðu, væri alls ekki í augsýn og yrði seint framkvæmanlegt.

Þá reifaði Paet einnig efni nýrrar skýrslu sem birtist innan skamms á vettvangi ESB-þingsins um stefnu ESB í málefnum norðurslóða. Hann sagði að helsta nýmælið sem þar kæmi fram væri áherslan á hernaðarmál. Yrði það í fyrsta sinn sem þau mál yrðu nefnd í skýrslu á vegum ESB um norðurslóðir. Væri það rökrétt breyting í ljósi þess sem gerst hefði með aukinni áherslu Rússa á hervæðingu við Norður-Íshaf. Þá væri ekki unnt að líta á áhuga Kínverja, Indverja og annarra á að fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu í öðru ljósi en því að fjarlægar stórþjóðir og aðrir vildu fylgjast með til að tryggja hagsmuni sem tengdust öryggi þeirra.

Vegna ummæla sinna um innra öryggi og samskiptin við Rússa, var Paet spurður (1) hvort það yrði ekki til að auka öryggistilfinningu íbúa í ESB-löndum að herða landamæraeftirlit og hverfa frá Schengen-samstarfinu og (2) hvort ekki væri skynsamlegt að gefa þjóðum kost á að bæta samskipti við Rússa með því að aflétta viðskiptaþvingunum gagnvart þeim, Krímskagi mundi hvort sem er aldrei hljóta sjálfstæði.

Í svari vegna fyrri spurningarinnar sagði Paet að hvergi hefði hættustig vegna ótta við hryðjuverk verið jafnlengi hátt í nokkru ESB-ríki og í Bretlandi, væru Bretar þó ekki í Schengen-samstarfinu. Þá hefðu hryðjuverk í Frakklandi og Belgíu 2015 og 2016 ekki verið unnin af mönnum sem hefðu notið góðs af Schengen-samstarfinu. Það væri ekki unnt að finna tengsl á milli Schengen-samstarfsins og hryðjuverka á hinn bóginn hefði miðlun upplýsinga og samstarf við öflun þeirra undir merkjum Schengen auðveldað að greina hættuna á hryðjuverkum og bregðast við henni.

Í svari vegna síðari spurningarinnar vísaði Paet til þess að nú væru þrjú ár frá innlimun Krímskaga í Rússland. Tæki hann mið af eigin landi, Eistlandi, væri hann viss um að árið 1948, þremur árum eftir að Eystrasaltsríkin hefðu verið innlimuð í Sovétríkin, hefðu margir talið að þessar þjóðir hefðu glatað sjálfstæði sínu fyrir fullt og allt, ekkert þýddi að amast við innlimun þeirra. Sem betur fer hefðu ekki allir hugsað á þennan hátt og við hrun Sovétríkjanna hefðu þjóðirnar orðið sjálfstæðar að nýju. Þá sagði hann einnig mikilvægt að sýna rússneskum stjórnvöldum svart á hvítu að innlimun þeirra á Krímskaga yrði þeim alltaf til erfiðleika, ella kynnu þau að hugsa gott til glóðarinnar gagnvart öðrum.

Hann sagði allt annað gilda þegar rætt væru um stöðu Eystrasaltsríkjanna gagnvart Rússum en til dæmis Úkraínu þar sem ríkin væru í NATO og Evrópusambandinu. Þau yrðu ekki innlimuð í Rússland á hinn bóginn beittu Rússar áróðursvél sinni gagnvart þessum þjóðum eins og öðrum í þeim tilgangi að koma ár sinni fyrir borð innan þeirra til að beina stjórnmálaumræðum sér í hag. Þetta væri markmið þeirra gagnvart öllum þjóðum innan ESB og teldu þeir það henta hagsmunum sínum að vinna að sundrung innan sambandsins. Væri nauðsynlegt að standa á verði gagnvart þessum rússnesku vinnubrögðum sem væru oft mjög lymskuleg.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …