Home / Fréttir / Uppnám innan Kremlar – Pútín fjarlægist ákvarðanir

Uppnám innan Kremlar – Pútín fjarlægist ákvarðanir

Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti.

Brian Whitmore birti fimmtudaginn 13. ágúst eftirfarandi grein á vefsíðu Radio Free Europe:

Menn átta sig á að málum sé verulega illa komið þegar Sergei Lavrov missir stjórn á sér.

Rússneski utanríkisráðherrann er venjulega silkimjúkur opinberlega, blygðunarlaust og áreynslulaust beitir hann útúrsnúningi, spuna, rangfærslum og lygum í þágu ríkisstjórnar Vladimírs Pútíns.

Nú í vikunni náðist hins vegar Lavrov í mynd og hljóði þar sem hann jós úr sér blótsyrðum á sameiginlegum blaðamannafundi með Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádí-Arabíu.

Óljóst er hvað olli sérstæðu æðiskasti Lavrovs og það skiptir í raun ekki máli. Að þetta gerðist er tímanna tákn.

Undanfarnar tvær vikur hafa ýmis atvik gerst sem benda til þess að ekki gangi allt að óskum hjá Kremlarelítunni.

Rússneskir tollverðir og heilbrigðiseftirlitsmenn hafa efnt til hálf-trúarlegrar brennu á evrópskum osti og öðrum matvælum auk hollenskra blóma.

Sergei Narjishkin, forseti neðri deildar rússneska þingsins, skrifaði grein í opinbert málgagn ríkisstjórnarinnar, Rossiiskaja Gazeta, þar sem hann sakaði Bandaríkjamenn um að breyta evrópskum bandamönnum sínum í „dauðyfli“ og leggja á ráðin um meiriháttar ögrun í garð ráðamanna í Moskvu.

Þingforsetinn hefur einnig hvatt til þess að komið verði á fót alþjóðadómstóli til að fjalla um ákvörðun Bandaríkjamanna um að kasta kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki árið 1945.

Þá hafa Rússar gert formlega kröfu til norðurpólsins í bréfi til Sameinuðu þjóðanna.

Gleymdi ég einhverju? Kannski. Hið skrýtna og fríkaða hefur gerst svo hratt og ofsalega upp á síðkastið að auðvelt er að muna það ekki allt.

Í nýlegri grein í Apostrof sagði stjórnmálaskýrandinn Andrei Piontkovskíj: „Ofsahræðsla hefur gripið um sig á æðstu stöðum í Kreml. Þetta birtist skýrt í grein Narjískins, matvælabrennum við landamærin, framkomu Lavrovs á blaðamannafundinum í Sádí-Arabíu.“

Nýliðin ár hefur verið í tísku og freistandi að líta á Vladimír Pútín sem mann með markmið, drottnara alheimsins, skipuleggjanda stór-samsæra.

Hafi þetta einhvern tíma átt við rök að styðjast, hallast vaxandi fjöldi Kremlarfræðinga nú að því að Pútín-vélin sé tekin að hiksta.

Igor Jakovenko, álitsgjafi í Moskvu, sagði nýlega í grein að kerfið væri „á öðrum endanum“.

Í grein í leiðaraopnu The New York Times sagði stjórnmálaskýrandinn Ivan Krastev og vitnaði í Gleb Pavlovskíj, fyrrverandi innanbúðarmann í Kreml, að Pútín kæmi sífellt minna að ákvörðunum um dagleg mál. Krastev bætir við að ferlið við töku ákvarðana líkist „flutningi jazz hljómsveitar; stöðugur spuninn felur í sér tilraun til að lifa af síðustu krísu“.

Kjarni krísunnar sem við elítunni blasir felur í sér þverstæðu: Hún getur ekki lifað með Pútín. Og hún getur ekki lifað án hans.

Þeim fjölgar í ráðandi stétt Rússlands – að minnsta kosti meðal hinna klárari innan hennar – sem átta sig á að gagnsemi Pútín-kerfisins er á enda runnin. Það verður ekki meira upp úr því að hafa.

Pútín hefur málað sig út í horn í Úkraínu. Hann hefur siglt þjóðarskútunni í strand. Og hann hefur einangrað Rússland frá öðrum löndum heims. Og hann virðist ekki eiga fleiri kanínur til að draga upp úr hatti sínum.

Piontovskíj sagði í grein sinni að elítan áttaði sig fullkomlega á því að yrði ástandið áfram óbreytt mundi „hún tapa öllum dollara milljörðunum sínum“ auk þess sem ríkisstjórnin kynni „að falla“.

Og þetta virðist hafa lamandi áhrif á Pútín sjálfan.

Kremlarhöfðinginn hefur hagað sér einkennilega um nokkurt skeið. Minna má á undarlegt – og enn óútskýrt – brotthvarf hann af opinberum vettvangi í mars eftir morðið á Boris Nemtsov, leiðtoga stjórnarandstöðunnar; þá má benda á einkennilegt látbragð hans og svipbrigði á blaðamannafundi í Minsk í fyrra sumar.

Fjarlægur Pútín skapar mikinn vanda því að kerfið er stefnulaust – og á það til að fara af hjörunum – haldi hann ekki um stjórnvölinn.

„Pútín hefur heppnast að búa þannig um hnúta að annar pólitískur kostur en hann er óhugsandi og nú á öll þjóð hans allt undir árangri hans,“ skrifaði Krastev. „Með öðrum orðum er hinn gífurlega mikli almenni stuðningur við Pútín veikleiki hans en ekki styrkleiki – og forystumenn Rússlands vita það.“

Hann bætti við að þessi vitneskja leiddi til þess að í innsta hrings hans gætti þeirrar tilfinningar að hinsta stundin nálgaðist, þeir hefðu áhyggjur af hvernig líf þeirra yrði án Pútíns – og hvort þeir gætu lifað án hans.

„Í Kreml búa ekki aðeins þeir sem lifðu af umskiptin eftir Sovétríkin heldur einnig þeir sem kunna að halda lífi, fólk sem íhugar sviðsmyndir hins versta, sem trúir því að næstu hamfarir séu aðeins handan við hornið, sem þrífst á krísum, sem er háð stórundarlegu ástandi og reglulausum stjórnmálum,“ skrifði Krastev.

„Þetta flókna og ófyrirsjáanlega samhengi er frekar lykillinn að skilningi á stjórnmálum líðandi stundar í Rússlandi en duttlungar Pútíns.“

Og allt þetta veldur því að næstu mánuður verða að sönnu hættulegur tími.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …