
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði í Brussel fimmtudaginn 3. september þegar hann ræddi flóttamannavandann í Evrópu: „Evrópubúar eru hræddir af því að þeir sjá að ráðamenn þeirra, þar á meðal forsetar og forsætisráðherrar, ráða ekki við ástandið.“
Ýmsum þóttu þessi orð kaldhæðnisleg frá forsætisráðherra lands þar sem segja má að allt sé í hers höndum vegna flóttamannavandans. Orban hefur raunar sagt að þetta sé ekki vandamál Ungverja heldur Þjóðverja, þangað vilji allir fara.
Angela Merkel Þýskalandskanslari er köllum „Mamma Merkel“ í flóttamannabúðunum Sýrlendinga. Hún hefur gefið fyrirmæli um að eigi Sýrlendingar í hlut skuli ekki farið eftir því ákvæði Dublin-reglnanna um meðferð flóttamanna innan Schengen-svæðisins að um mál þeirra skuli fjallað ríkinu þar sem þeir stíga fyrst fæti inn á Schengen-svæðið.
Grikkland er fyrsta Schengen-ríkið fyrir meginþorra flóttafólks frá Sýrlandi. Yfirvöld þar segja að á þessu ári hafi 230.000 manns, börn, konur og karlmenn á flótta komið í land á grískum eyjum. Þetta er 30 sinnum meiri fjöldi en á árinu 2014 og um 80% þessa fólks eru flóttamenn sem ESB getur ekki vísað aftur til síns heima hvorki siðferðilega né lagalega. Í ágúst einum sóttu 104.460 um hæli í Þýskalandi. Félagsmálaráðuneyti Bæjaralands segir að frá 1. janúar sé þessi fjöldi 413.535 manns eða sem svarar til íbúafjölda í borginni Nürnberg.
Innan Evrópusambandsins líta menn annars vegar til ráðamanna þess í Brussel, embættismannanna sem lúta stjórn Donalds Tusks, forseta leiðtogaráðsins, og Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdastjórnarinnar. Á pólitískum vettvangi er litið til Angelu Merkel og François Hollandes Frakklandsforseta, pólitíska tvíeykisins, sem dregur vagn bandalagsins þegar á reynir.
Í sumarbyrjun sagði Hollande að hann væri andvígur hugmyndum um að flóttamannakvóti yrði ákveðinn fyrir hvert ESB-ríki. Miðvikudaginn 2. september sagðist hann styðja hugmynd Merkel um að settar yrðu varanlegar reglur sem skylduðu ríki til að taka á móti flóttamönnum. Jean-Claude Juncker viðraði sjónarmið í þessa veru fyrir fjórum mánuðum og þá var þeim hafnað af öllum nema Þjóðverjum.
Líklegt er talið að unnið verði skipulega að því að hrinda tillögum í þessa veru í framkvæmd á næstu dögum. Að því er stefnt að koma á fót móttökustöðvum fyrir flóttamenn í Grikklandi, Ungverjalandi og á Ítalíu. Þar verði greint á milli raunverulegra flóttamanna og þeirra sem koma í leit að betri lífskjörum, hinir síðarnefndu verði sendir til baka. Ákveðið verði sameiginlega hvaða svæði teljist örugg (Balkan-ríkin og Vestur-Afríka), fólki þaðan verði brottvísað nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.
(Heimild: Le Figaro)