Ríkisstjórn Ástralíu tilkynnti fimmtudaginn 16. september að hún ætlaði að slíta samningi sem hún gerði við frönsku ríkisstjórnina árið 2016 um smíði flota af dísel-knúnum kafbátum í Frakklandi. Þess í stað yrði samið um smíði á að minnsta kosti átta kjarnorkuknúnum kafbátum þar sem nýtt er bandarísk og bresk hátækni. Tilkynningin um nýja smíðasamninginn var gefin eftir að Ástralar, Bretar og Bandaríkjamenn ákváðu að stofna til þríhliða varnarsamstarfs, AUKUS.
Franska stjórnin líkti samningsrofi Ástrala við rýtingsstungu í bakið. Árið 2016 var smíðasamningurinn við Frakka metinn á 40 milljarða bandarískra dollara. Frakkar sögðu að þeir hefðu ekki frétt af sinnaskiptum Ástrala fyrr en nokkrum klukkustundum áður en sagt var frá þeim opinberlega.
Laugardaginn 18. september efndi franski sendiherrann í Canberra, höfuðborg Ástralíu, til blaðamannafundar áður en hann hélt til Parísar, heimkallaður til að árétta reiði Frakklandsforseta og stjórnar hans. Sendiherrann sakaði áströlsku ríkisstjórnina um að gera „rosaleg“ mistök í samskiptum ríkjanna. Jean-Pierre Thebault sendiherra sagði:
„Ég tel þetta rosaleg mistök, mjög, mjög illa haldið á samstarfinu – vegna þess að þetta var ekki samningur, þetta var samstarf sem sagt var reist á trausti, gagnkvæmum skilningi og einlægni.
Ég vildi geta hlaupið inn í tímavél, væri það hægt, og komast í aðstæður þar sem við lentum ekki í svona ótrúlegu, klaufalegu, dapurlegu ó-áströlsku ástandi.
Það tekur mig mjög sárt að neyðast til að fara, á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að endurmeta stöðuna.“
Frakkar kölluðu sendiherra sinn einnig heim frá Bandaríkjunum föstudaginn 17. september.
Sendiherra Frakka situr á hinn bóginn áfram í London og segir franska blaðið Le Monde að hann sé ekki kallaður til Parísar þar sem franska stjórnin vilji niðurlægja bresku stjórnina, hún sé ekki annað en meðreiðarsveinn innan nýja þríhliða varnarsamstarfsins.
Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakka, sagði þátttöku Breta í nýja varnarsamstarfinu til marks um „tækifærismennsku“. Bretar vildu láta eins og þeir skiptu einhverju máli á alþjóðavettvangi eftir úrsögnina úr ESB. Í viðtali við opinberu sjónvarpsstöðina Public Senat sagði hann Breta aftur komna í kjöltu Bandaríkjamanna, þeir sýndu lénsherranum undirgefni. Vonandi yrði þetta ekki stefna þeirra næstu áratugi.
Í samtali við sjónvarpsstöðina France 24 sagði Beaune að af þessu nýja samstarfi og eftir ófarnaðinn í Kabúl bæri frekar að líta á Breta sem meðreiðarsvein Bandaríkjamanna en samstarfsaðila annarra ríkja.
Franskir fjölmiðlamenn tala einnig um Breta sem „boðflennu“ í samstarfi Bandaríkjamanna og Ástrala.
Anderas Michaelis, sendiherra Þýskalands í London, lét þau orð falla að AUKUS-samstarfið kynni að raska „samstöðu og einingu Vesturlanda“. Frá sjónarhóli Þjóðverja væri þessi samstaða grunnþáttur utanríkisstefnu þeirra og menn yrðu að leggja verulega á sig í þágu hennar.
Kosið verður til þýska sambandsþingsins sunnudaginn 26. september. Þýskir stjórnmálamenn eru því með hugann við annað um þessar mundir en spennuna í samskiptum Frakka við AUKUS-ríkin þrjú. Að takast á við það mál býður nýrrar þýskrar stjórnar.
Í þýskum blöðum er franska stjórnin hins vegar gagnrýnd fyrir barnaskap og skort á stjórnkænsku.
Í Süddeutsche Zeitung í München sagði að Frakkar hefðu sætt „pólitískum svikum og niðurlægingu“ vegna ákvörðunarinnar í kafbátamálinu. Blaðið spyr hvort Emmanuel Macron hlusti „þegar Bandaríkjaforseti flytur ræður um utanríkismál“:
„Að Ástralar yrðu mikilvægir bandamenn ráðmanna í Washington – og að minnsta kosti mikilvægari en Frakkar þegar litið sé til þessa hluta heimsins – hefði kannski leitað á huga einhverra í París. Þá hefði líka mátt ætla að Ástralar mundu frekar velja Bandaríkjamenn en Frakka ef þeir yrðu að ákveða hvar þeir ættu að fá vernd í nýju köldu stríði milli Kínverja og Bandaríkjamanna.“
Tagesspiegel í Berlín sagði að Frakkar hefðu fengið „harðneskjulega kennslustund í geopólitík“ sem sýndi að þeir hefðu ekki hernaðarmátt Breta:
„Andstætt Bretum skortir Frakka hnattrænan hernaðarmátt. Það á langt í land að Evrópusambandið verði tekið alvarlega í öryggissamstarfi utan eigin heimsálfu.“